11. tbl. 97. árg. 2011

Ritstjórnargrein

Landspítali – niðurskurður eða hagræðing?

Björn Zoëga bæklunarskurðlæknir forstjóri Landspítalans og klínískur prófessor við HÍ

doi: 10.17992/lbl.2011.11.393

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012, sem lagt var fram 1. október síðastliðinn, er Landspítalanum gert að hagræða í rekstri um 1,9%. Þetta kann að hljóma eins og lítil krafa, en fyrir spítalann eru þetta 630 milljónir á sama tíma og verkefnin hafa aukist. Einhverjir hafa sagt að það ætti ekki að vera mikið mál að hagræða fyrir rétt tæplega 2%. En skoðum aðeins forsöguna. Á árunum 2004-2008, allt góðæristímabilið á Íslandi, lækkuðu framlög ríkisins til spítalans að raungildi ár hvert. Landspítalinn naut því aldrei góðærisins, andstætt mörgum þáttum heilbrigðisþjónustu hins opinbera samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofunnar.1 Gengisfall krónunnar vegur einnig þyngra á Landspítala en víðast hvar annars staðar hjá opinberum stofnunum vegna þeirrar kostnaðaraukningar sem því fylgdi á sérhæfðum vörum sem spítalinn getur ekki verið án.

Frá árinu 2008 hefur Landspítalinn dregið saman rekstrarkostnað sinn um 23% þegar tekið er tillit til gengisáhrifa og framlags ríkisins sem hefur lækkað um 20% síðan kreppan skall á. Starfsfólk spítalans hefur með óeigingjörnu starfi náð þeim árangri að nú stefnir í að Landspítalinn standist fjárlög annað árið í röð. Á sama tíma hefur starfsfólkið náð að standa vörð um öryggi sjúklinga og veita góða þjónustu, raunar svo góða, að spítalinn var í efstu sætum í könnun Samtaka verslunar og þjónustu um „afburða“ þjónustufyrirtæki á Íslandi síðastliðið vor. Einnig er rétt að árétta að spítalinn hefur náð að halda áfram hágæðarannsóknum, sem vógu afar þungt nú í október þegar Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn inn á lista yfir 300 bestu háskóla heims.2 En nú er komið að kaflaskilum. Landspítalinn er á þeim stað að eina leiðin til að halda spítalanum innan fjárlaga er að draga úr þjónustu. Framkvæmdastjórn Landspítala lýsti því yfir strax í nóvember árið 2010 að árið 2011 yrði erfitt og frekari niðurskurður á framlagi til spítalans myndi leiða til niðurskurðar á þjónustu. Þessum upplýsingum var aftur komið á framfæri opinberlega í sumar.

Það kom því engum á óvart þegar spítal-inn kynnti þær erfiðu aðgerðir sem hann verður að fara í. Fagleg sjónarmið voru höfð að leiðarljósi og ekki lagt upp með aðgerðir nema að undangenginni úttekt á áhrifum á þjónustu við sjúklinga sem málið snerti og á þeirri hagræðingu sem næðist með aðgerðunum. Dæmi um slíkt er sameining líknardeilda spítalans í hentugra húsnæði á einum stað. Sú aðgerð hafði raunar verið í skoðun í langan tíma og var starfsemi þessara deilda sameinuð í nokkra mánuði í sumar til að kanna hagræðingarmöguleika sem í því fælust. Annað dæmi er flutningur réttargeðdeildar að Sogni inn á Klepp. Með þeim flutningi fær deildin stærra rými og samlegðaráhrif nást í mönnun, auk þess sem öryggi sjúklinga og starfsfólks eykst. Því miður fækkar legurýmum um 22 vegna skerðingar fjárlaga. Við það verður aukið álag á deildir og aðstandendur og erfiðara að útskrifa sjúklinga í sumum tilvikum. Líklegt er að biðlistar muni lengjast. Því miður situr endurnýjun á nauðsynlegum tækjum á hakanum og endurbætur á rafrænni sjúkraskrá ganga mun hægar en við vildum. Það er synd, því að þar liggja ef til vill helst tækifæri til hagræðingar og aukins öryggis sjúklinga. Þannig má spara verðmætan tíma starfsfólks, stytta innlagnir og gera göngudeildir og rannsóknir skil-virk-ari en nú er hægt. Einnig er afar mikilvægt að fá aukið fé til endurbóta á gömlu og illa förnu húsnæði sem við munum þurfa að nota enn um hríð uns nýjar spítalabyggingar verða teknar í notkun.

Ég held að flestir sjái að lengra verður ekki gengið í svokallaðri hagræðingu. Nú er komið að  þeim mörkum að óhjákvæmilegt er að minnka þjónustuna. Mín skoðun er sú að stjórnvöld geri sér grein fyrir þessu en meti aðstæður þannig að ekki verði hjá því komist að skerða framlög til spítalans enn frekar, þótt það leiði til minni þjónustu en áður. En ég minni á söguna og tölurnar. Spítalinn var ekki vel aflögufær fyrir kreppu, og hefur í raun náð frábærum árangri við að standast skert fjárlög síðastliðin ár. Það er búið að taka meira en fimmtung af framlagi ríkisins úr rekstrinum og ofan á þá skerðingu leggjast gengisáhrif. Nú er komið nóg.

Starfsmenn Landspítala munu leggja sig  fram við að veita sem besta þjónustu í þeim erfiðu aðstæðum sem fjárlög búa þeim og sjúklingum spítalans. Landspítalinn verður áfram spítali allra landsmanna og helsta öryggisnet bráðveikra, slasaðra og alvarlega veikra hér á landi. Við munum sem fyrr starfa af metnaði og leitast við að vera í fremstu röð í heilbrigðisþjónustu, menntun heilbrigðisstétta og í vísindum.

Heimildir

  1. Zoëga B. Landspítalinn - kreppan gerir erfiða stöðu verri. Morgunblaðið 28. nóv. 2009.
  2. timeshighereducation.co.uk/world-university-rankings/2011-2012/276-300.html - október 2011.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica