09. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Víðförult málverk. Sigurður E. Þorvaldsson

u10-fig1

Sir Harold Gillies (1882-1960), Nýsjálendingur sem lærði og starfaði í Englandi, er af mörgum nefndur faðir lýtalækninga.
Sir Harold, sem er ávallt nefndur Gillies af kollegum sínum, kom oft til Íslands til að renna fyrir lax og þannig kynntist hann íslenskri náttúru og þá gafst honum einnig tækifæri til þess að sinna áhugamáli sínu: að mála fallegt landslag.
Leið eins af málverkum Dr. Gillies af íslensku landslagi lá frá Englandi til Flórída í Bandaríkjunum og var þá í eigu Dr. Ralph Millards er hafði sem námslæknir unnið með Gillies að bók sem nú er talin klassísk: The Principles and Art of Plastic Surgery.1
Ég sá þetta málverk fyrst árið 1969 á skrifstofu Dr. R.O. Dingmans yfirlæknis lýtalækningadeildar Michigan-háskóla í Ann Arbor, þar sem ég sat og beið eftir viðtali um hugsanlega námsstöðu í lýtalækningum.
Það var notalegt að sjá kunnuglegt íslenskt landslag á meðan ég beið og þegar venjulegu formlegu samtali var lokið var gott að geta beint umræðunni að þessu málverki af Almannagjá og Þingvallavatni.
Það var sérstök vinátta og gagnkvæm virðing milli Dr. Dingmans og yngri kollega hans, Dr. Millards, sem hafði gefið Dr. Dingman þetta málverk í þakkarskyni fyrir sérstakan stuðning í upphafi ferils síns í Bandaríkjunum. Síðar var ég einnig í námi hjá Dr. Millard í Miami á Flórída.
Þrjátíu árum síðar, árið 1999, hófst lokaferð þessa málverks í Salt Lake City, Utah, þegar mér barst stutt bréf og fyrirspurn þaðan. „Siggi, hefur þú enn áhuga á málverkinu The Great Rift?” Ég svaraði þegar í stað játandi.
Bréfið var frá Dr. David Dingman lýtalækni, syni yfirlæknis míns í Ann Arbor en við höfðum oft hist á fundum í Bandaríkjunum. Einhvern tíma spurði ég hann hvað hefði orðið af þessu málverki við lát föður hans. „Það er í stofunni heima hjá mér og er skemmtilegt að sýna kollegum mínum það þar sem Dr. Gillies er jú einn frægasti lýtalæknir sögunnar.“
Nafnið „The Great Rift” var þýðing Dr. Gillies á Almannagjá. Á bakhlið málverksins er miði sem segir að málverkið hafi verið á sýningu The Royal Institute of Oil Painters í London.
Nokkrum vikum síðar kom pakki frá Bandaríkjunum og var þar komið umrætt málverk. Ég þakkaði vini mínum þegar í stað og spurði hvað ég mætti greiða honum fyrir málverkið. Við þeirri spurningu, þó ítrekuð væri, fékk ég aldrei svar. Í þakkarskyni skrifaði ég því litla grein sem birtist í Annals of Plastic Surgery: „Sir Harold Gillies and His Icelandic Connection: Gillies-Millard-Dingman-Iceland: Journey of a Painting Completed.”2 þar sem saga málverksins er sögð.
Ég á nú sumarhús á Þingvöllum þar sem ég nýt landslagsins sem Gillies málaði. Gillies dó árið 1960, Reed O. Dingman árið 1985 og Dr. Millard er nýlátinn, lést 19. júní 2011. Árið 1999 var Millard valinn einn af 10 áhrifamestu lýtalæknum 20. aldarinnar.

Heimildir

  1. Gillies HD, Millard DR. The Principles and Art  of Plastic Surgery. Butterworth, 1958.
  2. Thorvaldsson SE. Sir Harold Gillies and his Icelandic Connection: Gillies–Millard–Dingman-Iceland: Journey of a painting completed. Ann Plast Surg 2002; 48: 565-6.

 

 u10-fig2
Sigurður E.Þorvaldsson

 u10-fig3
Sir Harold Gillies

 u10-fig4
D.R. Millard

u10-fig5
R.O. DingmanÞetta vefsvæði byggir á Eplica