09. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Anders Jahre-verðlaunin

Ákveðið hefur verið að norsku prófessorarnir Edvard I. Moser og May-Britt Moser hljóti Anders Jahre-verðlaunin í líf- og læknisfræði árið 2011. Þau starfa við Tækni- og náttúruvísindaháskólann í Þrándheimi og við Kavli-stofnunina í taugakerfisvísindum. Edvard og May-Britt fá verðlaunin fyrir brautryðjandi rannsóknir á byggingu og starfsemi taugakerfisins í tilraunadýrum, sérstaklega fyrir uppgötvanir á áður óþekktum heilafrumum (grid cells) sem eru mikilvægar fyrir þrívíddarskyn og minni.

u03-fig1
Mynd af Moser-hjónunum á góðri stund í vinnunni.
Mynd: Geir Mogen/NTNU Info.

Rannsóknaparið og samstarfsfólk þeirra hafa uppgötvað og lýst áður óþekktum frumum sem vinna úr upplýsingum og miðla þeim áfram, en það gerir lífverum kleift að staðsetja sig, að skynja og muna í þrívídd. Þessar frumur eru hluti af dreifikerfi sem tengir upplýsingar og miðlar þeim milli mikilvægra hluta heilans. Uppgötvanirnar hafa vakið heimsathygli á fræðasviðinu og auka skilning á heilastarfsemi, einkum á því hvernig heilafrumur vinna úr upplýsingum og miðla þeim áfram.

Vísindamennirnir hafa meðal annars fengið fjárhagslegan stuðning frá Kavli-samtökunum og Norska rannsóknaráðinu til að byggja upp öflugt rannsóknasetur í Þrándheimi þar sem vísindamenn víðsvegar að úr heiminum starfa. Nánari upplýsingar um rannsóknirnar má finna á vefsíðunni www.ntnu.no/cbm/

Anders Jahre-verðlaunin til yngri vísindamanna árið 2011 hljóta prófessorarnir Johanna Ivaska, Háskólanum í Turku, og Søren Paludan, Árósaháskóla. Johanna fær verðlaunin fyrir rannsóknir á dreifingu krabbameinsfruma innan líkamans og Søren fyrir rannsóknir á varnarkerfi líkamans gegn veirusýkingum.

Hver var Anders Jahre?

Norðmaðurinn Anders Jahre stofnaði sjóð árið 1960 sem ætlað er að efla rannsóknir í líf- og læknisfræði innan Norðurlandanna og eru verðlaunin þau stærstu í rannsóknum á þessu sviði á Norðurlöndunum. Háskólinn í Osló veitir verðlaunin og er upphæðin ein milljón norskra króna. Einnig eru veitt aukaverðlaun úr sjóðnum til yngri vísindamanna. Fimm manna valnefnd með fulltrúum læknadeilda háskóla frá hverju Norðurlandanna vinnur úr tilnefningum og velur verðlaunahafa. Öllum virkum prófessorum við læknadeildir háskóla á Norðurlöndunum er boðið að senda tilnefningar til formanns valnefndar, sem er prófessor Ole M. Sejersted á Institute for Experimental Medical Research, Ullevål University Hospital, Osló.

Anders August Jahre (1891-1982) var lögfræðimenntaður norskur auðkýfingur sem fékkst við skipaútgerð og samgöngumál, en er ef til vill best þekktur fyrir hvalveiðiútgerð frá Sandefjörð og vinnslu á hvalaafurðum. Hann fékk margvíslega viðurkenningu og var heiðraður í Noregi og víðar. Hann var meðal annars útnefndur heiðursdoktor fyrir stuðning sinn við vísindastörf og uppbyggingu við Oslóarháskóla. Anders Jahre studdi einnig ýmis málefni á sviði menningar og velferðar.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica