09. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Þungur róður framundan – um samninga LÍ

Sveinn Kjartansson formaður samninganefndar LÍ er ekki bjartsýnn á niðurstöðu samninga við ríkið sem vísað var til sáttasemjara í júlí.

Fyrsti formlegi fundur samninganefnda LÍ og ríkisins var haldinn 15. júní síðastliðinn. Að sögn Sveins Kjartanssonar formanns samninganefndar LÍ var löngu ljóst af viðræðum við samninganefnd ríkisins (SNR) í fyrrahaust og janúar að ekkert yrði samið við LÍ fyrr enn almennir kjarasamningar yrðu frágengnir. „Frá janúar og fram í júní gerðist því ekkert en eftir að samningar tókust hjá öðrum bauð SNR til fundar og þar lögðum við fram ítarlega kröfugerð sem var mætt með tilboði upp á 11,4% hækkun á næstu þremur árum, svipað og aðrir höfðu samið um. Í okkar tillögum var tekið mið af þessu tilboði en með talsvert mörgum breytingum og tilfærslum.

u02-fig1
Sveinn Kjartansson fer yfir stöðu samningamála á kjaramálafundi LÍ í vor.

Kröfugerð í þremur hlutum

Kröfugerð okkar má skipta í þrjá meginhluta þar sem í fyrsta lagi er óskað eftir breytingum sem snúa að ýmsum skilgreiningum í kjarasamningum og upptöku á EES skilmálum. Um þetta var í sjálfu sér enginn ágreiningur, aðeins verið að lagfæra orðalag og aðilar voru sammála um nauðsyn þessa. Í öðru lagi snerist kröfugerð okkar um ýmsar túlkanir á gildandi kjarasamningi þar sem mikil óánægja hefur verið meðal lækna, sérstaklega á Landspítalanum, um einhliða túlkun og beinlínis rangtúlkanir á ýmsum greinum samningsins. Í þriðja lagi lögðum við til nýja launaflokka, tilfærslur á milli launaflokka og lengra bil á milli launaflokka og ýmis önnur atriði sem beinlínis myndu gefa okkur kjarabætur. Hverjar þær yrðu í prósentum var ekki reiknað út, enda túlkunaratriði þar sem tillögurnar byggðu á því að  vinnuveitanda yrði gefið aukið svigrúm til að umbuna læknum, en líka beinum hækkunum á fastlaunasamningi og tilfærslum á milli launaflokka. Okkur fannst SNR ekki taka illa í þetta á fundinum 15. júní en á næsta fundi var svarið mjög afgerandi að ríkið treysti sér ekki til að fara í þetta og héldi fast við sitt upphaflega tilboð. Í staðinn kom fram tilboð um fasta yfirvinnutíma til sérfræðilækna en fjöldi þeirra gæti þá verið samningsatriði. Þá bókaði SNR tillögu á fundinum um að skipa nefnd sem endurskoða ætti vinnutíma og launauppbyggingu lækna almennt. Tilboðið um fasta yfirvinnu til sérfræðilækna var engu að síður mjög óljóst og átti með einhverjum hætti að tengjast þeim breytingum sem fyrirhuguð nefnd ætti að skila fyrir næsta vor. Okkur leist ekki betur en svo á þetta að við óskuðum eftir að viðræðum yrði vísað til sáttasemjara ríkisins.“

Að sögn Sveins eru fulltrúar almennra lækna ósáttir við tillögugerð samninganefndar LÍ og eflaust yrði það olía á eld óánægjunnar ef samið yrði um fasta yfirvinnu til sérfræðinga en almennir læknar fengju aðeins hina almennu hækkun. „Almennu læknarnir myndu aldrei samþykkja það og því er staðan  mjög erfið. Það er ekkert launungarmál. Á hinn bóginn er það stefna núverandi samninganefndar að hækka laun ungra sérfræðinga og auka launabilið milli sérfræðinga og almennra lækna. Það er heldur ekkert launungarmál og stærsti vandinn snýr að heimflutningi nýrra sérfræðinga. Það verður að bæta kjör þeirra svo þeir fáist til að koma heim að loknu sérnámi.“

Óttast um læknisfræðina í landinu

Sveinn segir að hann, ásamt Birnu Jónsdóttur formanni LÍ, hafi átt fund með velferðarráðherra og fjármálaráðherra í júlí og þar hafi ráðherrarnir „gefið í skyn að þeir vildu koma til móts við okkur. Ég geri ráð fyrir að tilboð SNR um fasta yfirvinnu til sérfræðinga sé þaðan runnið, jafn óljóst og það reyndist svo vera.”

Sveinn segir að sér lítist mjög þunglega á komandi samningaviðræður og telur að þungur róður sé framundan. „Ég held að áhyggjur ráðamanna séu ekki minni þó þeir láti ekki mikið uppi og virðist vera kokhraustir opinberlega. Ég hef skilning á þeirra vanda en ég óttast um læknisþjónustuna og læknisfræðina í landinu.“




Þetta vefsvæði byggir á Eplica