07/08. tbl. 97.árg. 2011

Umræða og fréttir

Dreifibréf landlæknisembættisins - 2/2011

Tilmæli sóttvarnalæknis

Bólusetning heilbrigðisstarfsmanna heilbrigðisstofnana á Íslandi

Tilgangur þessara tilmæla, sem gefin eru með stoð í sóttvarnalögum, er að tryggja heilbrigði heilbrigðisstarfsmanna sjúkrastofnana og öryggi sjúklinga með því að minnka líkur á útbreiðslu farsótta á sjúkrastofnunum. Það er á ábyrgð hverrar sjúkrastofnunar að hrinda þessum tilmælum í framkvæmd en kostnaður fellur á einstaka sjúkrastofnun nema bólusetning gegn árlegri inflúensu (sjá neðar).

Skilgreining á heilbrigðisstarfsmanni er sá sem kemur að umönnun veikra á sjúkrastofnun.

Við nýráðningu heilbrigðisstarfsmanna skal tryggja að þeir séu fullbólusettir gegn eftirtöldum sjúkdómum (sjá yfirlit yfir almennar bólusetningar á Íslandi):

barnaveiki (Diphtheria)
stífkrampa (Tetanus)
kíghósta (Pertussis)
mænusótt (Polio)
mislingum (Morbilli)
hettusótt (Parotitis epidemica)
rauðum hundum (Rubella)
lifrarbólgu B (hepatitis B)
pneumókokkasýkingum; hjá einstaklingum 60 ára og eldri á 10 ára fresti.

Ef viðkomandi er ekki fullbólusettur skal bjóða honum bólusetningu samkvæmt ofangreindum leiðbeiningum.

Endurmeta skal bólusetningu heilbrigðisstarfsmanna á 10 ára fresti samkvæmt leiðbeiningum sóttvarnalæknis.

Endurbólusetja skal heilbrigðisstarfsmenn á 10 ára fresti gegn barnaveiki, stífkrampa og kíghósta (dtp). Í dag er á markaði eftirtalið bóluefni til notkunar hjá fullorðnum sem inniheldur ofangreinda mótefnavaka í einni og sömu sprautu: Boostrix® 

Mælst er til þess að allir heilbrigðisstarfsmenn séu bólusettir gegn árlegri inflúensu. Kostnaður bóluefnisins fellur á sóttvarnalækni.

Sóttvarnalæknir

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica