05. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Minningarorð um Önnu Björk Magnúsdóttur 
f. 21. apríl 1961, d. 21. mars 2011

u09-fig

Anna Björk Magnúsdóttir, háls-, nef- og eyrnalæknir, lést 21. mars síðastliðinn, aðeins 49 ára að aldri. Anna Björk lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og hóf síðan nám við læknadeild Háskóla Íslands þaðan sem hún lauk prófi 1989. Síðan lá leiðin til Svíþjóðar í framhaldsnám í háls-, nef- og eyrnalækningum. Þar varð hún fyrsti íslenski læknirinn sem lagði stund á raddmeinafræði sem síðan varð sérsvið hennar. Anna Björk flutti til Íslands 2002 og hóf störf á Landspítala. Hún var frábær læknir, um það geta fjölmargir kollegar og sjúklingar hennar borið vitni um. Anna Björk var mikil félagsvera og tók virkan þátt í félagsstarfi íslenskra lækna, bæði í Svíþjóð og hér heima. Hún var formaður fræðslunefndar læknaráðs Landspítala og sat í stjórn Skurðlæknafélags Íslands. Þessum störfum sinnti hún með miklum sóma.

Anna Björk var einstaklega glæsileg kona og afar hæfur læknir. Hún lagði sig alla fram við að sinna sjúklingum sínum af fagmennsku og metnaði. Hlýtt viðmót hennar, prúðmennska og bros létu engan ósnortinn. Hún var fagurkeri fram í fingurgóma, hafði unun af bóklestri og tónlist, en var jafnframt ágætur langhlaupari. Eitt helsta áhugamál hennar voru fjallgöngur og útivist. Anna Björk og Martin, eiginmaður hennar, gengu með Félagi íslenskra fjallalækna á snævi þakta Herðubreið í septemberlok 2010. Þau voru frábærir ferðafélagar, skemmtileg og hjálpfús. Nokkrum vikum áður hafði Anna Björk greinst með illvígan sjúkdóm sem hún ákvað að bera ekki á torg. Hvorugt okkar grunaði þá að aðeins hálfu ári síðar væri komið að leiðarlokum.  

Megi minning hennar lifa

 

Tómas GuðbjartssonÞetta vefsvæði byggir á Eplica