04. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Oft er gott það er gamlir kveða - II. Jón Hilmar Alfreðsson

u0-7-fig1Landspítalamálið

Um það bil sem Landspítali hóf göngu sína var hafin umræða í blöðum og tímaritum um þörf á nýjum spítala. Einn af þeim sem tjáðu sig opinberlega var landlæknirinn Guðmundur Björnsson. Allir voru á einu máli um brýna þörf og konur byrjuðu þegar fjársöfnun.

Í febrúar 1916 birtist grein í Læknablaðinu um málið. Höfundur var Gunnlaugur Claessen og var hvetjandi til byggingar nýs spítala, en greindi jafnframt frá því að flestir kollegar væru vantrúaðir og teldu að um væri að ræða fagra framtíðarhugmynd er ætti mjög langt í land.

Á þessum tíma var Landakotsspítalinn eini almenni spítalinn í Reykjavík, reistur 1902, timburhús, um margt ófullkominn, upphaflega 50-60 rúma, en 20 rúmum var aukið við. St. Jósefs systur áttu spítalann og ráku, og unnu sjálfar kauplaust. Aðallega var um kir. sjúklinga að ræða, þær opnuðu spítalann fyrir læknakennslu, veittu Reykvíkingum afslátt af legukostnaði og reyndust mörgum fátæklingum vel, að sögn Gunnlaugs, en hann sagði ekki vansalaust að Reykvíkingar létu systurnar einar um spítalarekstur, innan tíðar yrði bærinn eini kaupstaður landsins sem ekki ætti sér sjúkrahús. Hann taldi þörf á 100 rúma spítala, deildaskiptum, auk sectionsstofu. Röntgenstofnun háskólans mundi og flytja inn á spítalann, en henni var fyrirkomið í „prívathúsi“ eigi allnærri Landakoti.

Þótt spítalinn væri einkum fyrir sjúklingana, þá var hann einnig bráðnauðsynlegur fyrir kennslu lækna-, hjúkrunar- og ljósmæðraefna. Hann átti að tengjast háskólanum og kennarar skyldu vera yfirlæknar. Ástandið var þannig að kennara vantaði oft og einatt sjúklinga til kennslunnar. Hennar vegna taldi Gunnlaugur fæðingardeild nauðsynlega. Þangað myndu ógiftar stúlkur leita og líklega margar giftar konur einnig, þótt þær þyrftu að borga fyrir sig.

Ekki liðu nema tveir mánuðir þar til önnur grein birtist um nýja spítalann eftir einn af ritstjórum blaðsins, Guðmund Hannesson. Hann taldi þörf brýna vegna sjúklinga, kennslu og þjóðarmetnaðar, en segir svo að menn einblíni um of á kostina og „eigi þurfa að afsaka það, þó ég drepi á nokkra þröskulda í vegi spítalamálsins.“ Hann telur of í lagt að nýi spítalinn þurfi að vera 100 rúma, 50 væri nær lagi og væru þó nokkur „gjafarúm“ meðtalin. Landakotsspítali yrði 50-60 rúma, „enda mér vitanlega engin líkindi til þess, að hann leggist niður.“

Hann segir að margir með innvortis sjúkdóma liggi fremur í heimahúsum vegna þess að þeim sé kunnugt um þrengslin á spítalanum og að þeim falli ekki vistin þar og húsakynnin, en tíðast sé þó að þeir hafi ekki efni til þess að liggja á spítala. „Spítalaþörfin hér vex ekki til mikilla muna – nema mörgum sé gefin veran að meira eða minna leyti.“

Menntun læknaefna vegur þungt hjá höfundi, „því þar er að ræða um undirstöðuþekkingu nálega allra lækna landsins.“ Fæð sjúklinga hái kennslunni hvað mest, þótt þarfir háskólans séu annars margar. Best væri ef aðeins einn spítali væri í bænum og allir sjúklingar þar aðgengilegir fyrir kennslu.

Undir lok greinarinnar dregur Guðmundur saman þau úrræði sem um er að velja að hans mati. Einn kostur er sá að byggt yrði við Landakot af bænum eða landinu og þar yrði kennsluspítali. Annar sá að bærinn reisti sinn spítala sem yrði styrktur úr landssjóði til kennslu, og þriðji að landið reisti spítala sem bæjarbúar hefðu greiðan aðgang að. Allt ylti þetta á því hvernig semdist um reksturinn. Og lokaorð Guðmundar þykja mér harla merkileg, því hann reynist ekki einvörðungu sannspár, heldur gerist hann formælandi, sá merkasti, þeirrar sameiningar spítalanna í Reykjavík sem komst til framkvæmdar mörgum áratugum síðar:

„Ef það reyndist svo, að bærinn fengist ekki til að vera í samvinnu við landið um spítalabyggingu og landið vildi hvorki taka að sér að bæta úr spítalaþörfum Reykvíkinga eða styðja Landakotsspítalann, þá gæti svo farið, að á sínum tíma risu hér 3 spítalar; landspítali, er landið ræki, Reykjavíkurspítali og Landakotsspítalinn. Sjúklingarnir tvístruðust þá í þrjá staði og allt yrði dýrara en ástæða væri til. Gallar á slíku fyrirkomulagi eru svo auðsæir, að ég leiði það hjá mér að ræða það frekar.“

u07-fig2
Prófessor Júlíus Sigurjónsson 1907-1988. Teikning: Sigurður V. Sigurjónsson.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica