04. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Minning um spánsku veikina. Stutt viðtal við Geir R. Tómasson tannlækni

Árið 2008 freistaðist ég til þess að birta í Læknablaðinu (94: 768-74) grein sem nefndist: Þankabrot um spánsku veikna 1918-1919. Kveikjan að þessum skrifum var BA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands. Ég taldi höfund ritgerðarinnar meðal annars til ágætis, að vitnað væri til viðtala við fólk sem mundi veikina, en væri nú gengið til feðra sinna. Mér kom þá alls ekki í hug að ég væri í vinfengi við mann sem myndi spánsku veikina, þótt segja mætti að í litlu væri. Þessi maður er Geir R. Tómasson, tannlæknir, sem þrátt fyrir háan aldur (hann er fæddur á Jónsmessu sumarið 1916) er enn nær í fullu fjöri. Ég vil ekki láta hjá líða að festa þessa minningu Geirs á blað sem eins konar bragarbót við fyrri skrif.

u06-fig1
Geir Reynir Tómasson (f. 1916). Stúdentspróf frá Menntaskólanum
í Reykjavík 1937. Lauk tannlæknaprófi í Köln 1941 og doktorsprófi
á sama stað 1943. Starfaði í Svíþjóð 1943-1946. Rak tannlæknastofu
í Reykjavík 1947-1996.  (Ljósm. á heimili Geirs 3.3.2011; Þorkell Þorkelsson).

Geir ólst upp með einstæðri móður sinni, Kristínu Hansdóttur (1878-1971). Haustið 1918 bjuggu þau Geir og móðir hans í Pósthússtræti 6 að hann minnir. Þegar kom fram í nóvember og spánska veikin var í hámarki, lagðist móðir hans í veikina og var þungt haldin. Þótt Geir væri ekki nema á þriðja ári, er honum í lifandi minni hve móður hans leið illa og að hún missti mestallt hárið í veikinni. Læknir þeirra mæðgina var Matthías Einarsson (1879-1948). Geir man að Matthías kæmi heim til þeirra og léti flytja hann á barnaheimili sem komið hafði verið upp í Miðbæjarbarnaskólanum. Farið var með hann í stofu á annarri hæð hússins og var hann settur þar í rúm. Voru þar fyrir í rúmum mörg börn á hans reki, en eldri börn voru höfð annars staðar. Geir segir að mikill grátur og angist hafi fyrst verið í stofunni, en smám saman róaðist hópurinn og börnin fóru að leika sér. Þeim var færður matur í stofuna. Hann segist ekki hafa veikst og telur að hið sama hafi gilt um hin börnin. Geir man eftir að séra Jóhann Þorkelsson (1851-1944), dómkirkjuprestur, kæmi í heimsókn í stofuna og Matthías Einarsson hefði litið til hans. Hann segist ætíð hafa litið upp til Matthíasar og viljað verða læknir með hann að fyrirmynd, þótt það ætti raunar fyrir honum að liggja að verða tannlæknir. Dvölinni í Miðbæjarbarnaskólanum lauk svo þegar móðir hans var orðin heil heilsu á ný.

Því má svo bæta hér við, að Geir hefur ætíð verið mikill trúmaður og hefur lengi starfað í safnaðarnefnd Dómkirkjunnar. Fyrsta sunnudag í aðventu á síðastliðnu ári flutti Geir aðventuhugvekju í kirkjunni. Hann lagði út af þeim sígilda sannleika að hið eina sem við höfum á höndum hverju sinni, er dagurinn í dag, og mæltist svo: Horfðu því til dagsins í dag – því það er lífið. Dagurinn í gær er þegar draumur og morgundagurinn aðeins hugsýn. En verjirðu deginum í dag vel, verður sérhver gærdagur draumur hamingju, og sérhver morgundagur hugsýn vonar.

Orð Geirs eru leiðsögn til gæfu og gengis í starfi hvers manns og þá ekki síður í starfi lækna en annarra. Sjálfur er Geir nú nær 95 ára að aldri og horfir hress og ótrauður til morgundagsins!Þetta vefsvæði byggir á Eplica