04. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Dulvitundin mótar listaverkið - rætt við Torfa Tulinius miðaldafræðing

Kenningar austurríska geðlæknisins Sigmunds Freud hafa nýst Torfa H. Tuliniusi, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands við rannsóknir hans og túlkun á Íslendingasögum. Torfi flutti fyrirlestur í lok febrúar á vegum Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar þar sem hann tengdi kenningar Freuds við ýmislegt í frásagnargerð Íslendingasagnanna og ræddi dauðaþrá og feðgatengsl út frá dulvituðum samskiptum höfundar og lesanda.

u03-fig1
„Þetta er hliðstætt kenningum Freuds (1856-1939) um draumagreiningar, þar
sem draumur-inn ljóstrar á táknrænan hátt upp hvað dulvitundin er að fást við
en felur það um leið,” segir Torfi Tulinius.

„Boðskipti milli höfundar og lesanda eru mjög sérstök þegar um frásögn er að ræða. Að nokkru leyti verða þau dýpri og nánari en í öðrum listgreinum þar sem bæði höfundur og lesandi lifa sig inn í persónur sögunnar. Persónan verður eins konar fulltrúi tiltekinna þátta í sálarlífi beggja. Því geta höfundur og lesandi verið í nánum tjáskiptum þótt hvorugur viti um hvað þessi tjáskipti snúast. Samskiptin eru dulvituð. Sem lesandi nálgast ég textann með mína dulvitund sem hefur mótast af því hver ég er og höfundurinn hefur sína dulvitund. Það er því ýmislegt í frásögninni sem höfundurinn setur þar inn án þess að vita af hinni raunverulegu merkingu. Þetta er hliðstætt kenningum Freuds um draumagreiningar, þar sem draumurinn ljóstrar upp á táknrænan hátt hvað dulvitundin er að fást við en felur það um leið. Tjáskipti bókmennta eru hliðstæð þessu. Mér hefur fundist áhugavert að skoða bókmenntir með hliðsjón af sálgreiningunni, velta fyrir mér hvers vegna höfundur leiðir lesandann inn á óvæntar brautir. Oft finn ég líklegar skýringar með því að beita kenningum Freuds.“

Torfi bendir á dæmi úr Egilssögu sem virðist fjalla um stirt feðgasamband, undir yfirborði þar sem átök við konung eru áberandi. „Egill lendir endurtekið upp á kant við konunga en undir niðri búa djúpstæðari átök við föðurinn. Ég greini textann á sama hátt og Freud greindi drauma og gríp til hugtakana hliðrun og þétting sem Freud notaði við draumatúlkanir og það virkar mjög vel. Eins og draumar, sýna sögur um leið og þær fela það sem bælt er í dulvitundinni. Dæmi um þetta er hvernig unnið er með augnaráðið í sögunni: fundum Egils við konunga er lýst þannig að konungur hvessir augun á Egil. Þegar Skalla-Grímur deyr situr hann í öndvegi sínu með opin augun og Egill forðast augnaráðið. Ýmislegt af sama tagi hjálpar mér að smíða kenningu um að Egilssaga fjalli öðrum þræði um stirt feðgasamband. Síðan er hægt að skoða söguna áfram útfrá kenningum Freuds um Ödipusarduldina og hvernig hið ósegjanlega dreifir sér um meginsöguna í alls kyns hliðarfléttum. Það er áhugavert að skoða samband Egils við Þórólf bróður sinn en í því endurtekur hið stirða feðgasamband sig að vissu leyti. Tilfinningar Egils til Þórólfs eru blendnar, ást og hatur í senn, en það er bannað að hata bróður sinn og því hliðrast þessar tilfinningar Egils yfir á persónu mágs hans, Berg-Önundar. Þegar grannt er skoðað er Þórólfi og Berg-Önundi lýst með sömu orðum, auk þess sem dauða þeirra ber að með hliðstæðum hætti. Eftir að Þórólfur deyr giftist Egill ekkju Þórólfs. Sannar tilfinningar Egils koma í ljós að lokum, en þegar sagan er lesin aftur kemur í ljós að höfundur gaf ýmsar vísbendingar um að þær væru þegar fyrir hendi mjög snemma.“

Hamlet í Helgafellssveit

Sérgrein Torfa eru miðaldabókmenntir og hann bendir á að hugmyndaheimur miðalda hafi verið allt annar en hugmyndaheimur okkar í dag. „Þetta fólk hugsaði allt öðruvísi en við og túlkar veröldina útfrá trúnni í stað þeirrar vísindahyggju sem við beitum. Það er því nauðsynlegt að kynna sér vel hugsunarhátt þess og þar kemur vissulega margt fleira en dulvitundin til álita og stýrir því hvernig höfundurinn formgerir heimildir sínar í ritaðri frásögn. Í grein sem nefnist Hamlet í Helgafellssveit bendi ég á að Snorri goði í Eyrbyggju er að sumu leyti í svipaðri stöðu og persónan Hamlet í samnefndu leikriti Shakespeares. Hann er sonur látins manns en til að ná föðurleifð sinni þarf hann að kljást við föðurbróður sinn sem auk þess er giftur móður hans. Freud hugleiddi að nefna Ödipusarduldina eftir Hamlet, en féll frá því þar sem hann taldi að leikrit Sófóklesar um Ödipus sýndi betur hvað væri að verki í dulvitundinni. Aftur á móti væri Hamlet hrjáður af taugaveiklun sem skýrðist af þeim duldu kröftum sem birtust á yfirborðinu í forngríska leiknum. Þeir væru dulvitaðar í Hamlet. Sagan af Snorra goða virðist í fyrstu vera Hamlet án taugaveiklunarinnar en þegar betur er að gáð þá er Ödipusarduldin eigi að síður til staðar. Endurteknar frásagnir af draugagangi og afturgöngum má túlka sem hliðstæðu við taugaveiklun Hamlets. Afturgengnir feður skipta miklu máli í framgangi sögunnar og þannig hjálpar sálgreiningin manni við að sjá hið dulda samhengi þó málvísindakenningar, bókmenntakenningar og menningarlega þekkingu á ritunartíma sögunnar þurfi líka til við heildstæða túlkun.“

Kenningar Freuds um dauðaþrána hafa orðið Torfa tilefni til túlkunar á Njálu en hann segir að sér hafi orðið umhugsunarefni hvers vegna svo margar persónur Njálu kjósa að deyja. „Margar af helstu persónum sögunnar ganga viljugar á vit dauða síns, og einnig er sterk tilfinning fyrir ótta við endurtekningar. Ég leyfi mér því að túlka söguna þannig að höfundurinn hafi búið yfir ákveðnum skilningi á því sem Freud kallaði dauðaþrá og það hafi mótað frásögn hans. Dauðaþráin er sundrungarafl sem leysist úr læðingi þegar ástríðurnar ná tökum á fólki. Hún er einnig nátengd endurtekningarþörf og áráttuhegðun. Engin fornsaga nær jafn vel að lýsa því hvernig ástríðurnar geta leitt annars heiðvirt og friðelskandi fólk út í að fremja verstu misgjörðir. Flosi á Svínafelli er ágætt dæmi um það. Þessi skilningur Njáluhöfundar á áráttukenndum ofsa ástríðnanna rímar ágætlega við kenningar fræðimanna um að sagan sé rituð eftir að átökum Sturlungaaldar er lokið. Höfundurinn hefur lifað þessa tíma, máske orðið sjálfur fyrir áföllum. Eins og hinir miklu listamenn sem Freud dáðist svo að, formgerir hann dulvitaða reynslu sína í stórkostlegu listaverki.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica