04. tbl. 97. árg. 2011

Fræðigrein

Jón Pétursson læknir og ritverk hans - I

Jón Pétursson fæddist árið 1733 á Hofsá í Svarfaðardal. Faðir hans, Pétur Jónsson, var frá Hnjúki í sömu sveit og bjó fyrst á nokkrum stöðum í dalnum en varð síðan kirkju- og staðarsmiður á Hólum í Hjaltadal. Móðir Jóns var Margrét Illugadóttir Jónssonar bónda og snikkara, er bjó austan Eyjafjarðar í Nesi í Höfðahverfi í Grýtubakkahreppi.  Jón stundaði nám í Hólaskóla og útskrifaðist 14. maí 1759. Árið 1760 varð hann djákni á Munkaþverá á Staðarbyggð í Eyjafirði.1

Bjarni landlæknir Pálsson
og Jón djákni Pétursson

Bjarni Pálsson var skipaður fyrsti landlæknir á Íslandi með konungsúrskurði 18. marz 1760. Ein af embættisskyldum hans var að kenna læknisfræði og í erindisbréfi hans var tekið fram: að þeir sem gæfu sig í kennslu hjá honum, þyrftu ekki að vera útskrifaðir úr skóla, heldur að eins að þeir ættu að vera af góðu fólki komnir og námfúsir og greindir, og að kunnátta þeirra væri á borð við það, sem stúdentar kynnu, og að þeir væru svo efnum búnir að þeir gætu keypt sér sjálfir bækur og læknisverkfæri og annað, sem þurfa þætti, og að þeir gætu sjálfir borgað kennslu og meðgjöf fyrir mat og klæðnað. Það voru því mikil vandkvæði á því fyrir Bjarna að fá menn til kennslu . . .2

Bjarni Pálsson ritaði Gísla Magnússyni (biskupi á Hólum 1755-1779) 21. ágúst 1760 og bað hann að útvega sér lærisvein úr Norðurlandi. Biskup svaraði og sagðist á vísitasíuferð yfir Vaðlaþing hafa átt tal við „djákna M[onsieu]r. Jón Pjetursson á Munkaþverárklaustri“2 og virðast þeir hafa ræðst við áður, því biskup segir í bréfinu: „Vel merkti jeg þá sem áður fyr, að hann hafði Inclination til að læra nokkuð til gagns in re medicina . . .,“2

Gísli biskup ritaði í öðru bréfi 11. júlí 1761 meðal annars: „Þegar jeg yfirvega qvalitates studiosorum í stiptinu, þá veit jeg engan framar til Medicinen genegen en djáknan Jón Pjetursson, sem einnin er skikkanlegur karl og hagferðugur, en bláfátækur; . . .“2

Jóni Péturssyni mun hins vegar ekki hafa litizt á námskjörin, auk þess sem hann bar við heilsuleysi, einkum bækluðum höndum af liðagigt. Er það í samræmi við það sem síðar var haft eftir, að Bjarni landlæknir hafi sagt: „Jón djákni . . . hefir bæði skarpleik og vilja, en guð betri hans bágu hendur.“3 Bjarni hélt áfram fortölum sínum og loksins varð það úr að Jón réðst haustið 1762 til vistar í Nesi við Seltjörn. Jón Pétursson stundaði síðan læknisfræðinámið í tvo vetur, að því er segir í Annál nítjándu aldar,3en þá varð breyting á högum hans og háttum, sem nú skal frá greint. 

Flora Danica og Georg Christian Oeder

Árið 1752 kallaði Friðrik fimmti Danakonungur til sín lækni sem upprunninn var í Bayern, Georg Christian Oeder (1728-1791). Hann hafði stundað nám í Göttingen og lokið þaðan doktorsprófi.

Oeder var skipaður konunglegur prófessor í grasafræði í Kaupmannahöfn og var þetta í fyrsta sinn að stofnaður var sérstakur kennslustóll í fræðigreininni í konungsríkinu. Áður hafði greinin verið hluti læknanámsins og kennarar læknadeildar kennt grasafræði. Þannig var því til dæmis varið þegar Kristján konungur fjórði fól árið 1645 Simon Paulli (1603-1680), prófessor í líffærafræði og skurðlækningum við Kaupmannahafnarháskóla, að setja saman urtabók á dönsku til gagns fyrir almenning.5 Flora Danica kom út árið 1648 og er yfirlitsrit um villtar jurtir í Danmörku og Noregi og um margar þeirra er þess getið hver verkun þeirra var talin vera.

Oeder var falið að koma upp grasafræðistofnun, grasagarði og bókasafni um grasafræði. Hann vildi einnig efla þekkinguna á öllum villtum jurtum í konungsríkinu, hertogadæmunum og öðrum lendum konungs, og þess vegna lagði hann árið 1753 til við hans hátign Friðrik
fimmta, að gefið yrði út fræðirit með myndum af öllum villtum plöntum í danska ríkinu. Til þess að gera verkið aðgengilegt sem flestum, skyldi textinn vera bæði á dönsku og þýzku og einnig var ráðgerð útgáfa á máli fræðimanna, latínunni. Í ritinu skyldi vera inngangur um grasafræðina, nafnalisti yfir allar villtu plönturnar og lýsingar á þeim, auk hagnýtrar grasafræði með fullkomnum upplýsingum um alla gagnlega og skaðlega eiginleika plantnanna. Konungur féllst strax á tillöguna og fól Oeder að sjá um verkið og gefa út textann og myndirnar.

Oeder hóf söfnun jurtanna í Noregi, þar sem minnst var vitað um gróðurfar þar. Hann naut aðstoðar Rössler-feðganna frá München og var sonurinn Martin teiknari og málari, en faðirinn Michael sérfræðingur í koparstungum. Oeder taldi að hægt væri að ljúka verkinu á tveimur sumrum, en reyndin varð sú, að eftir fimm sumur (1755-1759) var mörg jurtin eftir óskoðuð. Eftir heimkomuna gaf Oeder út fyrsta heftið af Flora Danica og í maí 1761 var byrjað að safna áskrifendum. Þá hafði það runnið upp fyrir ritstjóranum að hann kæmist ekki yfir þetta einn og Oeder ákvað að ráða Johan Gerard König til að flýta fyrir verkinu.

Johan Gerard König á Íslandi

Árið 1764 kom út til Íslands með vorskipi Johan Gerard König, þýzkur að kyni, fæddur árið 1723 á Kúrlandi (nú Litháen). Hann hafði verið nemandi sænska grasafræðingsins Carls von Linné og varð síðan lyfjasveinn í apóteki Friðriksspítala við Breiðgötu í Kaupmannahöfn árið 1759. Jón Steffensen segir að þeir Bjarni landlæknir Pálsson hafi vafalaust þekkzt fyrir komu Königs til Íslands.3 Erindi Königs hingað út var að safna grösum fyrir nýja útgáfu af Flora Danica.

Með König í förinni til Íslands var teiknarinn Sören Johannes Helt. Sumrin 1764 og 1765 voru þeir í grasasöfnun. Mun Jón Pétursson mjög líklega hafa verið leiðsögumaður þeirra. Jón Steffensen vísar til dagbókar Sveins Pálssonar læknis (ÍB 2-4 8vo)6 frá árinu 1798: „October 23. og 24. Registr[era] Naturalier Apoth[ekara]“ – og í framhaldi af því fylgir neðanmáls listi yfir um 73 plöntur, sem ber heitið „Ex Herb[ario] chir[urgi] J[óns] P[éturssonar]“. Um aðeins eina plöntu er þess getið hvenær hún sé fundin, nefnilega Euphorbia helios[copia] lectu inter Oleo Vidoeensium 1774 [fundin innan um kál í Viðey 1774]. En allmargra fundarstaða er getið: Tröllaháls, Lundeyjar, Gilsbakka, Tunguheiðar, Gufuness, Odda, Múkaþverár, Eyjafjarðar, Eyrarbakka og Reykjahvers í Ölfusi.

Við naflagrasið, Koenigia islandica, gerir Jón Pétursson þessa athugasemd (ÍB. 2 8vo; minnisgrein undir dagbók 1.-21., apríl 1798):

Sama haust fluttum við Koening hana báðir til K[iöben]havn, kallaði eg hana Petræa arctoa og þ[ad] sama nafn féll h[onu]m nógu vel, en þ[a]r þetta var nýfundin urt, describ[erede] Linnæus hana upp á sinn máta, og Koenig vin sín[u]m til æru nefndi hann hana h[an]s nafni hv[er]iu hún hér eftir mun halda.6

Við eftirgrennslan í Botanisk Centralbibliotek í Kaupmannahöfn fengust þær upplýsingar, að farið hafi verið í gegnum öll fylgiskjöl sem eru íde kongelige regnskaber“ og nafn Jóns Péturssonar sé þar ekki að finna, en þess jafnframt getið að upprunalega skjalasafnið hafi brunnið árið 1884.7    

 

Nám og störf
Jóns Péturssonar í Danaveldi

Haustið 1765 héldu þeir Jón Pétursson og König utan og 21. desember 1765 var Iohannes Petri skráður í stúdentatölu.8 Hann varð „baccalaureus“ 31. júlí 1768. Árið eftir kom út ritgerð eftir Johannes Petersen á dönsku um Den saa kaldede Islandske Skiörbug, beskreven udi en kort afhandling9 og í bókarlok vottar Christen Lodberg Friis bókina prenthæfa.

Prófessor Friis sat í vísindaráði háskólans (Consitorium) og hafði ráðið meðal annars það hlutverk að ritrýna vísindagreinar háskólanema. Um þetta rit segir Jón Ólafur Ísberg:

Þrátt fyrir heiti bókarinnar virðist sem höfundurinn sé alls ekki að fjalla um skyrbjúg heldur holdsveiki. Hann segir meðal annars: «Varðandi ólík nöfn sjúkdómsins sem ég kalla stundum skyrbjúg og stundum holdsveiki er það til að taka að bæði nöfnin eru notuð yfir sama sjúkdóminn á mismunandi stöðum. Ég er ekki alveg viss um að sjúkdómurinn sé skyrbjúgur ...» Töluverðar líkur eru á að ýmsir hörgulsjúkdómar eins og skyrbjúgur, hugsanlega vatnssýki sem einkennist af þembum í líkamanum og kannski einnig húðsjúkdómar, hafi verið kallaðir holdsveiki. Það má einnig snúa þessu við og gera ráð fyrir að holdsveiki hafi leynst undir ýmsum öðrum nöfnum.10

Þó þarna hafi ekki verið á ferðinni neitt tímamótaverk, átti Jón Pétursson tvívegis eftir að bæta um betur og sanna eftirminnilega að hann hafði ríka hæfileika til þess að draga ályktanir af því sem fyrir hann bar.

Í Læknum á Íslandi segir að Jón hafi verið herlæknir í sjóher Dana1 og farið víða, meðal annars til Spánar, Alsír og Egyptalands og mun það hafa verið á árunum 1770-1771, en á þeim árum héldu Danir úti flotadeild á þessum slóðum.

Jón Pétursson lauk ekki læknisprófi frá Hafnarháskóla, en hann gæti hafa stundað nám í Theatrum anatomico-chirurgicum. Skólinn var stofnaður fyrir handlækna, meðal annars með þarfir hers og flota að leiðarljósi og til þess að menn mættu stunda skurðlækningar í ríki Danakonungs þurfti frá árinu 1736 próf þaðan. Tæpast hefði Jón Pétursson verið ráðinn læknir á skipi í flota Danakonungs nema hann uppfyllti áðurgreind skilyrði og þaðan af síður verið skipaður læknir í heilum landsfjórðungi á Íslandi og titlaður handlæknir.

Í lækningabók sinni fyrir almúga11 víkur Jón stuttlega að ferð sinni um Miðjarðarhafið, þegar hann ræðir um áhrif sjóbaða:

Ég hefi á mörgum mönnum séð ávöxtinn, einkum meðan ég var á Sanktí Philippi Hospítali á eynni Minorca, hvar böð þessi gerð voru dögum optar og hinir sjúku kvölds og morgna bornir í sjóinn, svo sem hið nálægasta og besta, er fást kunni þar.

Spítalinn, helgaður Filippusi postula, var í Mahon höfuðborg Minorca og þjónaði brezka flotanum í Miðjarðarhafi, en Bretar höfðu fengið eyjuna árið 1763 sem herfang í friðarsamningunum eftir Sjöárastríðið.

Jón Steffensen segir að við heimkomuna til Íslands 1772 hafi Jón Pétursson haft með sér 7.- 10. hefti Flora Danica sem útgáfustjórnin hefur beðið hann að koma til réttra aðila, jafnframt því sem hann sendi henni fáséðar plöntur.4

Um þetta leyti sótti Jón Pétursson um styrk til að kenna tveimur eða fleiri piltum grasafræði og garðyrkju og að vinna jafnframt að Flora Islandica og hann bauðst til þess að kenna grasafræði við Skálholtsskóla, en ekkert af þessu fékk hljómgrunn hjá yfirvöldum.4 Jón dvaldi síðan á árunum 1772 til 1775 í Nesi við Seltjörn og mun hafa verið aðstoðarmaður landlæknis og fyrsta lyfsalans, Björn Jónssonar, sem kom til starfa í Nesi 1772. Árið 1775 varð Jón Pétursson handlæknir í Norðlendingafjórðungi og sat í Viðvík í Skagafirði.

 

Rit Jóns um iktsýki eða liðaveiki

Árið 1782 sendi Jón Pétursson frá sér rit um iktsýki, en svo nefndi hann þá liðaveiki, sem hann var sjálfur haldinn.12 Ritið mun hafa verið tilbúið nokkru fyrr, því örstutt umsögn Bjarna Pálssonar landlæknis fremst í ritinu er dagsett síðla árs 1774.

Árið 1800 varði franski læknirinn Augustin Jacob Landré-Beauvais (1772-1840) doktorsritgerð sína um Goutte asthénique primitive. Hann taldi iktsýkina vera eitt form þvagsýrugigtar, sem nefnist gout á ensku < goutte á frönsku < gutta,‚dropi' á latínu, sem var skylt cutoV (chytos) á grísku, sem merkti ‚það sem rennur, flæðir'.

Árið 1848 fann brezki læknirinn Alfred Baring Garrod (1819-1907) afbrigðilega aukningu þvagsýru í blóði þeirra sem voru með þessa gerð gigtar og árið 1859 gaf hann iktsýkinni það enska heiti, sem hún hefir borið síðan (rheumatoid arthritis). Þar koma fram sömu orðsifjar og eru í þvagsýrugigtinni: Arthritis (< arþros gríska, ‚liður' + itis gríska, ‚bólga') og rheumatoides latína (< rheuma gríska, ‚rennsli' + oeides gríska, ‚líkist'). Heitið var þannig dregið af því að iktsýkin þótti líkjast gigtsóttinni (febris rheumatica), sem kemur í kjölfar sýkinga af völdum keðjuhnettla (Group A streptococcal infection) og er nú álitið að þar sé um að ræða eins konar sjálfsónæmissvörun, sem getur náð til liðamóta, hjarta, húðar og heila. Hins vegar hefir ekki enn tekizt nægilega að skýra orsakir iktsýkinnar, svo nútímamenn hafa ekki komist langt frá vessakenningunni sem var við lýði á 18. öld. Rit Jóns hefst á þessum orðum:

Iktsýkin er innifalin í rífandi og slítandi, samt aflvana gjörandi, seiðingsfullri verkjartilfinningu í einum eður öðrum líkamans lim, hvern hún inntekur, um sjálf liðamótin. Liðaveikin er annaðhvört föst við einn lim, hvern hún hefur inntekið, og kallast því föst eður staðfest liðaveiki (Arthritis fixa) eður hún hleypur sem fljúgandi píla og leiptran frá einum lið til annars, hvar fyrir hún kallast flugkveisa (Arthritis vaga) . . .

Árið 1992 vakti Helgi Jónsson gigtarlæknir athygli á því á norrænu vísindamálþingi,13 hversu stórmerk bók Jóns Péturssonar um iktsýkina er. Helgi fylgdi þessu eftir í grein í skandinavíska gigtsjúkdómatímaritinu14 og eftir-farandi atriði úr henni sýna athuganir Jóns um þau atriði sem auðkenna flugkveisuna:

I                      Sjúkdómurinn er algengur. (Höfundurinn segir tvívegis að liðaveikin sé mjög algeng á Íslandi og líklega  algengari en í öðrum löndum).

II                     Sjúkdómurinn er langvinnur.

III                   Sjúkdómurinn er samhverfur

                        (kemur í báða helminga líkamans).

IV                    Sjúkdómurinn veldur skemmdum á liðum.

V                     Sjúkdómnum fylgir fjölliðabólga.

VI                    Sjúdómnum geta fylgt kerfistengd einkenni og teikn (nær til alls líkamans). 

VII                  Sjúkdómurinn hrjáir einstaklinga á öllum aldri.

VIII                 Sjúkdómurinn er algengari meðal kvenna.

Að sögn höfundar geta sum þessara atriða átt við aðra sjúkdóma, en að einungis einn sjúkdómur, iktsýkin, uppfyllir öll átta skilmerkin. Það er því engum vafa undirorpið að Jón Pétursson var að lýsa arthritis rheumatoides. Grein Helga lýkur með þeim orðum að nægileg gögn séu fyrir hendi til þess að hægt sé að endurskoða sögu læknisfræðinnar að því er varðar það að Jón Pétursson hafi orðið fyrstur til þess að setja fram ákveðna lýsingu á iktsýkinni. Eru þetta orð að sönnu og minnir okkur á að tímabært er orðið að gefa ágripið um iktsýkina út á ný og snúa textanum á erlenda tungu.

Síðari hluti þessar greinar mun birtast í maíblaðinu ásamt heimildalista.

 f05-fig1
Stutt ágrip um iktsýki eður liðaveiki, hvar inni hún er útmáluð, með flestum sínum tegundum; þar í eru lögð ráð, hvörsu hún verði hindruð og læknuð. Samantekið af Jóni Péturssyni, chirurgo í Norðurlandi.

Fracastorius. Qvi viret in foliis, venit ab radicibus humor, sic patrum in natos abeunt cum femine morbi.

Selst innbundið á skriftpappír 6 fiskum; en á  prentpappír 5 fiskum.

Prentað á Hólum í Hjaltadal, af Guðmundi Jónssyni 1782.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica