01. tbl. 97. árg. 2011

Ritstjórnargrein

Eðli manna og þróun fræðitímarita

Engilbert Sigurðsson geðlæknir og dósent í geðlæknisfræði við Háskóla Íslands. Ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins.

doi: 10.17992/lbl.2011.01.335

Saga síðustu ára kennir okkur að spádómsgáfa heyrir til undantekninga. Mér er því hollast að reyna ekki að spá fyrir um hvernig Læknablaðið muni líta út á 100 ára afmæli útgáfu þess árið 2015. Sagan sýnir einnig að afstaða manna til krefjandi úrlausnarefna  mótast meira af þeirri stöðu sem þeir eru í en yfirlýstum viðhorfum eða viðmiðum. Með öðrum orðum, við erum öll mannleg, lituð af tilfinningum, háð fjármagni, valdi, áliti eða atkvæðum. Menn sjá því oft styttra fram fyrir tærnar á sér en þeir gera sér grein fyrir. Þetta á líklega ekki síður við um lækna og rannsakendur en bankamenn eða stjórnmálamenn. Fagleg umgjörð og traust ritrýni eru því forsenda útgáfu fræðiblaðs í fámenni Íslands. Ég hef átt þess kost að sitja í ritstjórn blaðsins síðastliðin fimm ár og séð það dafna og styrkjast fræðilega á þeim tíma. Í þessum leiðara mun ég lýsa í fáum orðum mati mínu á stöðu blaðsins og stefnu minni sem nýskipaður ritstjóri og ábyrgðarmaður blaðsins.

Skráning blaðsins á Medline árið 2005 og á ISI Web of Science og Scopus árið 2009 gaf tóninn um hvert stefna ber með fræðihluta blaðsins. Læknablaðið varð loks fullgilt vísindarit og metið með sama hætti til rannsóknarstiga og fjárveitinga í reiknilíkani Háskóla Íslands og sambærileg erlend tímarit. Stefnan er að tryggja að þessi skráning haldist. Samhliða þróun verkferla innan blaðsins og útgáfu vísindarits sem íslenskir læknar geta flett stoltir, þarf  stöðugt að huga að tengslum við lækna og aðra lesendur á öllum aldri og kynningu blaðsins fyrir læknanemum. Nýlega var farið að birta enska útgáfu valinna greina í vefútgáfu blaðsins, en íslenskur texti birtist þá á prenti. Dæmi um þetta er grein Björns Loga Þórarinssonar og meðhöfunda í þessu tölublaði. Slík birting er að mínu mati einkar góður kostur fyrir lækna í framhaldsnámi erlendis. Ég vil einnig nota tækifærið og þakka ræktarsemi eldri lækna við blaðið, en hún birtist ekki síst í innsendum greinum tengdum sögu læknisfræðinnar og reglu-legum pistlum öldungadeildar.

Breytingar verða á skipan ritstjórnar um þessi áramót. Annar tveggja nýrra félaga í ritstjórn er Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir lyflæknir. Hún hefur umsjón með kandídötum á Landspítala og sér um greinafundi deildarlækna á spítalanum. Þórdís Jóna er því í góðum tengslum við flesta kandídata og marga deildarlækna, en mikilvægt er að styðja þá og hvetja til skrifa í blaðið. Einnig tekur sæti í ritstjórninni Gylfi Óskarsson barnalæknir. Skipan hans endurspeglar þá staðreynd að hlutur barna- og nýburalækninga reyndist meiri en hlutur annarra sérgreina í nýlegu yfirliti um birtar fræðigreinar sérgreina í Læknablaðinu á árunum 2004 til 2008.1 

Um leið og ég býð Þórdísi Jónu og Gylfa velkomin í ritstjórnina þakka ég Jóhannesi Björnssyni, fráfarandi ritstjóra, vel unnin störf í þágu blaðsins. Ber þar hæst ómetanlegt framlag hans til skráningar blaðsins í helstu gagnagrunna. Á fundi ritstjórna norrænu læknablaðanna sem haldinn var í Borgarfirði síðastliðið vor kom sterk staða Læknablaðsins skýrt fram. Þrátt fyrir að blaðið hafi aðeins á að skipa 2,5 stöðugildum, hefur það náð árangri sem finnska læknablaðið hefur til dæmis stefnt að um árabil en ekki náð: skráningu á Medline og ISI Web of Science. Munurinn í starfsliði er samt tífaldur eða meiri, þar sem hin norrænu læknablöðin eru hvert með 25 til 40 stöðugildi. Sum hafa að auki sérstakan vefritstjóra. Við læknar getum því verið stolt af því hve mikið við fáum fyrir lítið með útgáfu Læknablaðsins og þakklát starfsfólki og læknum sem leggja hönd á plóg án endurgjalds með ritrýni og skrifum í blaðið. Líkt og hér á landi vegur prentútgáfan þyngst í tekjuöflun hinna norrænu blaðanna. Frekari þróun vefútgáfu Læknablaðsins er og verður áfram til skoðunar. Framþróun hennar er háð auknum framlögum okkar sjálfra eða öðrum auglýsingum en lyfjaauglýsingum, þar sem óheimilt er að birta lyfjaauglýsingar í opnum vefaðgangi.

Læknablaðið býður Thor Aspelund tölfræðing, dósent við Háskóla Íslands, velkominn sem nýskipaðan tölfræðiráðgjafa blaðsins. Með aukinni sérhæfingu og þróun tölfræðiprófa er afar mikilvægt að geta leitað slíkrar ráðgjafar í völdum tilvikum. Annar og enn merkari áfangi í sögulegu samhengi kann þó að vera að konur eru nú í fyrsta sinn jafnmargar og karlar í ritstjórn blaðsins. Það er eðlileg þróun í ljósi þess að fleiri konur en karlar stunda nám við læknadeild. Að endingu óska ég lesendum nær og fjær farsæls komandi árs og hvet alla lækna til að sækja símenntun og hitta kollega á Læknadögum 2011. Maður er manns gaman.


  1. Guðbjartsson T, Sigurðsson E. Hverjir skrifa í Læknablaðið? Yfirlit yfir fræðigreinar síðustu fimm ár. Læknablaðið 2009; 95: 683-6.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica