12. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Úr sögu Læknablaðsins. Nútíminn mun verða fortíðin. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir

Læknablaðið á sér sögulega fortíð og hefur Þröstur Haraldsson blaðamaður farið yfir þá sögu á skemmtilegan hátt í þessum 110 ára afmælisárgangi blaðsins, allt frá 1. tölublaði 1. árgangsins 1915 fram til ársins 2004, í öllum blöðum fram til þessa. Læknablaðið þakkar Þresti fyrir góða og mikla vinnu við þá samantekt. Mikið vatn er runnið til sjávar og Læknablaðið sem státar af því að vera 1 af 3 elstu tímaritum landsins hefur mikla sögu að færa bæði af vísindum og félagslegum þáttum heilbrigðiskerfisins. Miklar breytingar hafa orðið á þessum 110 árum. Saga blaðsins er nú komin í nútímann og verður síðustu 20 árum blaðsins betur gert skil þegar frá líður.

Margir lagt hönd á plóg í sögu Læknablaðsins

Á þeim 110 árum sem liðin eru í sögu blaðsins hafa margar hendur komið að útgáfu þess. Ritstjórar og ritstjórnir, ritstjórnarfulltrúar, höfundar vísindagreina og leiðara, ritrýnar, blaðamenn og lausir pennar hafa allir gert blaðið að því sem það er í dag. Í blaðinu hafa umræður verið líflegar um marga þætti heilbrigðiskerfisins, svo sem sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu, erfðafræðin kemur frekar til sögunnar og mun eflaust vera digrari í vísindavinnu framtíðarinnar, mismunandi rekstrarform innan heilbrigðisþjónustunnar hefur verið umræðuefni ásamt siðamálum, svo eitthvað sé nefnt. Fræðigreinarnar hafa átt sinn sess og vart verður dregið úr mikilvægi þess að vísindi verði áfram stunduð á íslenskri grundu svo læra megi af því sem gert hefur verið og hvað megi betur fara innan heilbrigðiskerfisins ásamt því að vinna að nýju vísindaefni og halda þannig áfram með nútíma uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Fylgirit Læknablaðsins

Fylgirit Læknablaðsins hafa verið fjölmörg síðustu áratugina. Fjöldi vísindaþinga innan læknisfræðinnar og heilbrigðisþjónustunnar hafa valið að birta ágrip sinna ráðstefna sem fylgirit við Læknablaðið. Þar með er tryggt að ágripin birtist á alnetinu sem er mikilvægt öllum höfundum ágripa og gerir öllum auðvelt að finna efni hinna ýmsu ráðstefna og þinga.

Mikilvægi Læknablaðsins á erlendri grundu

Vart verður dregið úr þeim mikilsverða áfanga þegar Læknablaðið komst aftur í Medline og þar með PubMed, gagnabanka alríkislæknisfræðibókasafnsins árið 2005, þegar blaðið var undir ritstjórn Vilhjálms Rafnssonar. Blaðið hafði áður verið á Medline en dottið úr gagnabankanum 1974. Þar með eru öll ágrip alls vísindaefnis Læknablaðsins birt á ensku auk titils allra leiðara. Þetta tryggir dreifingu vísindaefnis blaðsins og er mikilvægt öllum greinarhöfundum vísindagreina blaðsins en ekki síst blaðinu sjálfu. Samvinna Læknablaðsins við ritstjórnir norrænna Læknablaða er auk þess blaðinu mjög mikilvægt og öll þessi erlenda samvinna byggir undir mikilvægi Læknablaðsins.

Það verður efni framtíðar að skoða sögu Læknablaðsins frá árinu 2004, þegar sú saga er orðin að fortíð. Megi Læknablaðið lengi lifa og halda sínum trygga sessi innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica