12. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Meltingarlækningar og klínískar rannsóknir. Einar Stefán Björnsson

Það tók mig langan tíma að velja læknisfræðina. Eftir stúdentspróf í MA kenndi ég í eitt ár í grunnskóla en byrjaði svo árið eftir í sálfræði í HÍ. Mér fannst sálfræðin ekki skemmtileg og færði mig yfir í heimspekinám sem ég stundaði í 2 ár. Heimspekin var mjög athyglisverð en ég hafði ekki löngun til að öðlast titilinn „heimspekingur.“ Ég notaði líka tímann til að lesa skáldsögur. Líklega var það góður undirbúningur fyrir læknisfræðina að lesa um þjáningar Raskolnikofs í Glæp og refsingu eftir Dostojevskí og lesa um Karamazov bræðurna sem hann skrifaði líka og er stórkostleg frásögn um manninn og hans breyskleika. Ákvað síðan að reyna við læknisfræðina.

Það voru þrír kennarar í læknadeild sem mér fannst bera af. Ólafur Steingrímsson sýklafræðingur og Gunnar Guðmundsson prófessor í taugalækningum, sem voru húmanistar og komu fram við okkur nemana eins og jafningja. Einnig Þorkell Jóhannesson sem var kröfuharður en góður kennari enda fékk ég mjög mikinn áhuga á lyfjafræði sem er enn til staðar. Eftir útskrift fór ég beint til Svíþjóðar og vildi flýta mér í sérnám enda orðin þrítugur og faðir tveggja barna. Það kom ekkert annað til greina en lyflækningar, sem ég hafði brennandi áhuga á og sérstaklega hafði ég mikinn áhuga á fólki, sem ekki hefur minnkað með aldrinum. Sem hluta af sérfræðináminu fór ég að vinna á meltingarlækningadeild í Gautaborg. Þar kynntist ég sérfræðingum sem mér líkaði einstaklega vel við. Þeir tóku sjálfa sig ekkert of alvarlega en slíkt fólk hef ég átt léttara með að umgangast. Mér fannst ég passa inn þarna og byrjaði fljótlega í doktorsnámi. Ég hreifst af vísindalegri hugsun sem var í hávegum höfð á deildinni og rannsóknir á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu voru í algjörum forgangi. Ég smitaðist af þessum rannsóknarvilja og þörfinni á að skapa nýja þekkingu og fannst líka verulega gaman að sjálfri sérgreininni. Mestan áhuga hafði ég á lifrarlækningum og var með frábæran mentor, Rolf Olsson, sem var mjög virkur og þekktur lifrarlæknir í Evrópu. Meltingarlækningar eru mjög fjölbreyttar og fyrir utan lifrarlækningar er hægt að mennta sig í sérhæfðum speglunum, í starfrænum kvillum (gastrointestinal motility) og bólgusjúkdómum í meltingarvegi sem hafa vaxið á undanförnum árum með tilkomu fjölda líftæknilyfja.

 

Ég fékk mikil tækifæri til að stunda rannsóknir á Sahlgrenska, bæði tækjabúnað, styrki og möguleika á að fá tíma frá klíníkinni. Einnig gat ég farið á allar þær ráðstefnur og fundi sem ég vildi og þurfti að fara á. Tveimur árum eftir doktorspróf 1994 fór ég til University of Michigan í Ann Arbor í post doc. Eftir það starfaði ég á Sahlgrenska sem sérfræðingur 1997-2008, en vann á John Radcliffe sjúkrahúsinu í Oxford 2001 og við rannsóknir á Mayo Clinic Rochester Minnesota 2006 og 2008-2009. Ég hef frekar litið á mig sem forvitinn lækni en vísindamann en hef elskað þennan akademíska lífsstíl, vera í samstarfi við fólk út um allan heim, fara á ráðstefnur og handleiða doktorsnema. Draumastaðan er að gefa ungum lækni eða læknanema hugmynd að rannsóknar-verkefni sem sá hinn sami þróar og bætir og lýkur svo doktorsnámi. Ég hef verið mjög lánsamur að hafa kynnst slíkum frábærum einstaklingum og getað rétt „keflið“ áfram. Frá því að ég flutti til Íslands 2009 hafa þrjú af þeim sem ég kynntist sem læknanemum, sem urðu síðar mínir doktorsnemar, valið meltingarlækningar sem sína sérgrein: Jóhann Páll Hreinsson, Helgi Kristinn Björnsson og Hólmfríður Helgadóttir sem öll eru virk í rannsóknum auk þess að vera úrvals læknar".



Þetta vefsvæði byggir á Eplica