12. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Fegurðin við meltingarlækningar. Jóhann Páll Hreinsson

Eins og hjá svo mörgum öðrum þá var val mitt á sérgrein að einhverju leyti tilviljunum háð. Upphafið var sennilega þegar ég var að velja mér þriðja árs verkefni það herrans ár 2010, verkefni um blæðingar frá meltingarvegi náði athygli minni. Ég, eins og góðum dreng ber, sótti ráðleggingar til móður minnar sem leist strax vel á verkefnið og þá var það ráðið. Leiðin lá þó ekki beint þaðan í meltingarlækningar, eftir kandídatsárið var ég fyrst deildarlæknir á bráðamóttökunni og síðan á svæfingar- og gjörgæsludeildinni Hringbraut. Litlu mátti muna að ég ílengdist á svæfingunni, enda var maður þar umkringdur úrvals starfsfólki og vinnan krefjandi. Enn eimdi þó eftir áhugi og forvitni um meltingarlækningar sem ég varð að brynna. Ég hóf því störf á lyflækningasviði á Landspítala og fékk fljótlega að vera á meltingardeildinni. Áhugi minn dvínaði ekki, heldur jókst, og ég heillaðist af kunnáttu og hæfileikum starfsfólks á meltingardeildinni. Áðurnefnt þriðja árs verkefni stækkaði í umfangi og ég var svo lánsamur að geta haldið áfram með vísindastörf undir handleiðslu -Einars S. Björnssonar.

Þegar maður fer að hafa einhvern skilning á læknisfræði, sem gerðist seint í mínu tilfelli, þá er fegurðin við meltingarlækningar augljós. Fagið er mjög breitt og krefjandi, góður skilningur á meltingarkerfinu og sjúkdómum þess nægir ekki einn og sér, heldur þarf maður líka að vera vel að sér í bráðri lyflæknisfræði. Sjúklingarhópurinn er mjög fjölbreyttur, maður sinnir ungum sem öldnum og öllum þjóðfélagshópum. Sjúkdómarnir eru sömuleiðis fjölbreyttir, allt frá vanalegri sjúkdómum eins og bólgusjúkdómum í görn eða skorpulifur, til sjaldgæfari lifrarsjúkdóma eða hreyfisjúkdóma í görn. Vitsmunalegar áskoranir eru nægar, en maður hefur líka tækifæri til þess að vinna með höndunum. Inngrip innan meltingarlækninga eru allt frá ástungu á kviðarholsvökva upp í flóknar speglunaraðgerðir þar sem krabbamein eru fjarlægð og hlífa þannig sjúklingum frá skurðaðgerð.

Þegar ég var loksins búinn að sjá ljósið var stefnan sett á sérnám í lyf- og meltingarlækningum á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg, Svíþjóð. Þar hef ég verið síðan 2019 og hef alltaf verið mjög ánægður með mína ákvörðun. Það var þó talsverð brekka í upphafi að koma í umhverfi þar sem mjög flóknir sjúklingar þykja daglegt brauð, og er svo sem enn. Maður reynir þó að venja sig við þetta flækjustig í þeirri von að maður verði betri meltingarlæknir fyrir vikið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica