11. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Nýtt mælaborð sóttvarnalæknis

Í ljósi þess hve tíðni kynsjúkdóma hefur aukist hér á landi er ekki úr vegi að benda á gagnvirt mælaborð sóttvarnalæknis þar sem hægt er að sjá tölulegar upplýsingar á nýgengi greininga á Íslandi. Mælaborð smitsjúkdóma, þar sem fjórir helstu kynsjúkdómarnir sjást, er uppfært árlega. Nýja mælaborðið er lekandi og klamydía, en það uppfærist ársfjórðungslega, því eru tölur fyrir 2024 komnar inn. Upplýsingarnar eru byggðar á smitsjúkdómaskrá frá rannsóknarstofum. Á mælaborðinu má sjá að árið 2023 er mikil aukning á lekandagreiningum. Einnig má sjá að sárasótt hefur verið í vexti en að sögn Önnu Margrétar Guðmundsdóttur, yfirlæknis á sóttvarnarsviði Embættis landlæknis, greindust færri með sárasótt fyrstu sex mánuði í ár, en fyrstu sex mánuði ársins 2023. Þó að mælaborðið sýni einungis tölur frá 2010 er vitað að annað eins hefur ekki sést síðan á síðustu öld. Ætla má að árið í ár verði með svipuðum hætti hvað varðar lekandasmit.

Hvað er til ráða við þessari aukningu á tíðni smita á Íslandi? „Það er ekki vitað með vissu hvað veldur þessari aukningu kynsjúkdóma á Íslandi á síðustu árum en sama þróun hefur sést í öðrum Evrópulöndum. Líklega eru fleiri en ein skýring á þessari aukningu en eitt af því sem nefnt hefur verið er minnkuð notkun smokka. Einn liður í aðgerðum til að draga úr kynsjúkdómum er að upplýsa og fræða, meðal annars um smokkinn, en rannsóknir hafa sýnt að rétt notkun smokka við kynlíf dregur verulega úr smiti kynsjúkdóma.“ Segir Anna Margrét.

Flestir vita að besta vörnin gegn kynsjúkdómum er smokkurinn og kannski er ráð að við hér á landi færum í átak líkt og ráðist var í fyrir um 35 árum síðan þegar Landlæknisembættið fór í herferð með áherslu á vitundarvakningu almennings um notkun smokksins. Þá var alheimsfaraldur HIV í algleymingi og lífsspursmál að fræða fólk um smitleiðir og forvarnir. Fólk sem var áberandi á fjölum leikhúsa, tónlistarfólk, fjölmiðlafólk, talsmenn mismunandi hópa unga fólksins svo eitthvað sé nefnt var fengið til að sitja fyrir á mynd með smokk. Sú herferð vakti almenna lukku og fékk mikla athygli. Afrit af einu þessara veggspjalda má sjá hér til hliðar og mynd af nýju mælaborði Sóttvarnarlæknis hér fyrir neðan. Sem liður í aðgerðum til að draga úr kynsjúkdómum og minna á mikilvægi smokksins tók sóttvarnarlæknir nýlega þátt í samstarfi við félagið Ástráð, kynfræðslufélag læknanema við Háskóla Íslands. Samstarfið felst í forvörnum kynsjúkdóma með birtingu myndbanda á samfélagsmiðlum (TikTok, Instagram og facebook reels ) sem miðlað var til ungs fólks. Verkefnið var styrkt af Embætti landlæknis. Myndböndin hafa fengið tæp 43 þúsund áhorf. Þau verða áfram inni á Instagramsíðu Ástráðs og verða auglýst aftur af og til.

Smokkaveggspjald: herferð Landlæknisembættis árið 1987, vakti almenna lukku og fékk mikla athygli.

Hér má sjá skjáskot af nýja mælaborðinu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica