11. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Norræn rafbók handa læknanemum í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum

Samtök félaga fæðinga- og kvensjúkdómalækna á Norðurlöndum, NFOG (Nordic Federation of Societies of Obstetrics and Gynecology) gefur út rafbók fyrir læknanema í greininni. Bókin er á ensku, með opnum, ókeypis aðgangi.

Kaflarnir eru 60 talsins, ríkulega búnir skýringamyndum, og margir innihalda stutt myndbönd af ýmsu tagi. Hverjum kafla fylgja margar krossaspurningar með útskýringum við rétt og röng svör. Krossaspurningarnar hafa ýmsir samið, meðal annarra íslenskir læknanemar. Höfundar megintextans eru um 170 talsins, langflestir eru meðlimir NFOG, einnig höfundar myndefnis. Stefnt hefur verið að því að 3-5 höfundar skrifi hvern kafla og að þeir séu af að minnsta kosti þrennu þjóðerni.

Útgáfuár telst vera 2020 en kaflarnir eru í stöðugri endurskoðun og unnið er einnig að því að endurnýja í höfundahópunum og yngja þar upp, sem og að endurnýja í ritstjórninni smám saman.

Helsta áskorun ritstjórnar hefur verið að hemja innihald bókarinnar á þekkingarstigi læknanema; tilhneiging sérfróðra höfunda hefur oft verið að fara óþarflega djúpt í efnið. Bókin er ætluð læknanemum en sérnámslæknar í byrjun sérnáms geta haft gott gagn af henni og einnig sérnámslæknar í öðrum greinum, til dæmis heimilislækningum.

En sjón er sögu ríkari, hér er slóð á bókina og QR kóði, skoðið að vild og hlaðið niður í tölvu og eða símann ykkar.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica