11. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Dagur í lífi læknis: Bráðalækningar, börn og boltaleikir. Anna María Birgisdóttir

6:25 Vekjaraklukkan hringir, báðir drengirnir hafa komið upp í hjónarúmið í nótt og ég teygi mig snöggt yfir annan þeirra og slekk á hringingunni. Aldrei þessu vant snooza ég ekki og laumast fram og fæ mér einn kaffibolla í rólegheitum meðan restin af fjölskyldunni sefur aðeins lengur. Skrolla í gegnum fréttamiðla og samfélagsmiðla.

 

6:45 Fer í sturtu og geri mig til fyrir daginn. Hjálpumst að við að gera þriggja og fimm ára syni okkar til fyrir leikskólann. Morgnarnir geta oft verið frekar skrautlegir með tvo ákveðna og ólíka drengi.

 

7:40 Fer út í kalt morgunloftið og þarf að skafa bílrúðurnar í fyrsta sinn þennan veturinn. Hlusta á tónlist frekar en morgunútvarpið í dag, spila Sabrinu Carpenter en ég og litla systir mín förum á tónleika með henni eftir áramót.

 

8:00 Vinnudagurinn byrjar á Bráðamóttökunni. Ég er að hefja þriðja árið í sérnámi í heimilislækningum og hef verið að rótera á Bráðamóttökunni yfir sumarið. Hef fyrst og fremst verið að vinna á neðri hæðinni á G2 yfir hásumarið og fengið fína þjálfun í akút aðstæðum og alvarlegri veikindum. Núna í lokin á tímabilinu fæ ég fleiri vaktir uppi á G3 þar sem ég er í dag. Það er margt uppi á G3 gagnlegt fyrir heimilislækningar, sérstaklega ef maður hefur hug á að starfa úti á landi. Ég er með fjórða árs læknanema í dag. Við förum yfir Ottawa-ökklareglurnar og skoðum tvo ökkla, hvorugur þeirra er brotinn. Við hittum fleiri sjúklinga og förum meðal annars yfir taugaskoðun.

Skýst út í matsal og gríp mat til að taka með og borða á kaffistofunni.

 

12:30 Læknaneminn farinn í kennslu en ég held áfram að taka á móti sjúklingum. Ein kona sem kom fyrir hádegi eftir byltu og var með aflagaðan úlnlið reyndist hafa Colles-brot. Ég fæ kennslu í að gera hematoma-blokk og reponera brotinu. Ég sauma krefjandi skurð. Lærdómsríkur dagur í dag.

 

15:00 Fékk leyfi til að fara aðeins fyrr af vaktinni í dag, bruna beint upp á Læknavaktina í Austurveri. Hafði skráð mig á kynningarfund fyrir nýja lækna þar. Gaman að sjá aðstöðuna og kynnast starfinu á Læknavaktinni. Þau hafa verið að gera jákvæðar breytingar á vaktaplaninu. Stefni á að prófa að taka vaktir þar í vetur.

 

17:15 Kem við í búð og fylli aðeins á ísskápinn á leiðinni heim. Einhvern veginn vantar alltaf fleiri banana og mjólk. Tala við systur mína í símann á leiðinni heim, nýti bílferðir ósjaldan í símtöl við fjölskyldumeðlimi.

 

18:00 Einfalt snarl í kvöldmat í dag. Strákarnir voru úti að leika með pabba sínum eftir leikskólann og voru of svangir við heimkomu til að hægt væri að bíða eftir elduðum kvöldmat. Fiskrétturinn frá Eldum rétt bíður næsta dags.

 

19:00 Hringi með strákunum í ömmu og afa í Noregi á facetime. Set í eina þvottavél og geng aðeins frá í eldhúsinu. Hjálpumst að við að hátta strákana og koma þeim inn í rúm.

 

20:10 Pabbinn svæfir í kvöld, skipti um föt og legg af stað í Tennishöllina. Er í tenniskennslu á fimmtudagskvöldum með læknavinkonum, virkilega skemmtileg hreyfing! Þakklát Mörtu Sigrúnu vinkonu fyrir að hafa sannfært mig um að koma á byrjendanámskeið í fyrra.

 

22:00 Komin heim eftir tennistíma, teygjur og spjall. Tek úr þvottavél. Horfum á einn þátt á Netflix saman og sofna næstum því yfir honum.

 

22:45 Fer upp í rúm, les aðeins í Kindle. Sofna og tilbúin í síðasta daginn minn á Bráðamóttökunni næsta dag. Styttist í heilsugæsluna eftir helgina, verður gott að koma aftur „heim.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica