10. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Úr sögu Læknablaðsins. Stafrænan getur verið bæði jákvæð og neikvæð. Þröstur Haraldsson

110 árgangar þriðja elsta tímarits landsmanna skannaðir 1995-2004

Áfram mjakast þessi saga og nú er svo komið að pistlahöfundur er kominn í stórhættu á að gerast sjálfhverfur sem gæti kostað mig trúverðugleikann ef ég gæti ekki að mér. Tuttugasta öldin er að syngja sitt síðasta þegar hér er komið sögu og þegar tæp þrjú ár lifðu af henni var ég ráðinn til starfa sem blaðamaður og síðar einnig umbrotsmaður Læknablaðsins.

Eins og nefnt var í síðasta pistli markaði árið 1994 tímamót í útgáfusögu blaðsins. Prentun þess fluttist heim frá Danmörku, Örn Bjarnason lét af störfum sem ritstjóri eftir langan og farsælan feril og Vilhjálmur Rafnsson tók við af honum. Blaðið var komið á blússandi gang, bæði að umfangi og efni. Í hverju tölublaði birtust allt upp í átta fræðigreinar og í félagslega hlutanum skapaðist oft lífleg umræða um heilbrigðismál og önnur hugðarefni ísenskra lækna.

Læknar voru duglegir að skrifa í blaðið og oft sáust þar skemmtileg tilþrif. Hér er lítið dæmi úr grein eftir Einar Stefánsson augnlækni þar sem hann ræðir erfiðan sjúkdóm:

„Ef til vill er sóun vinnutíma og fjármuna ekki alvarlegasta afleiðing fundafíknar. Versta afleiðing fundafíknar er sú ranghugmynd að raunverulegur árangur sé af fundasetu. Fundafíklar hafa á tilfinningunni að þegar málið hefur verið rætt á fundi, niðurstaða fengist og -skýrsla skrifuð, þá sé málinu lokið. Fundasetur og skýrslugerðir verða markmið í sjálfu sér og raunveruleikinn verður útundan. … Skylt þessu er sú allsherjarlausn allra vandamála í nútíma þjóðfélagi að setja nefnd í málið eða halda ráðstefnu.“

Ekki veit ég hvernig Einar sá fyrir sér lækningu á þessu meini, en árangur hennar er að mér sýnist fremur lítill, ef einhver.

Rífandi gangur

Önnur umræða sem var töluvert áberandi á þessum árum var sú að réttast væri að bjóða rekstur Læknablaðsins út til fyrirtækja sem sérhæfðu sig í útgáfu blaða og bóka. Í það minnsta eitt slíkt fyrirtæki bar víurnar í blaðið en þær grænu hosur höfðu ekki árangur sem erfiði, enda vandséð að þær leystu annan vanda við útgáfu blaðsins en að tryggja téðu fyrirtæki aðgang að tekjum blaðsins, sem voru allverulegar á þessum árum. Þetta var blómatími lyfjaauglýsinga sem blaðið lifði og nærðist á, gerðu með öðrum orðum útgáfu þess arðbæra.

Þar er komin skýringin á því hvers vegna blaðið hefur aldrei verið umfangsmeira en á þeim áratug sem hér er til skoðunar. Árgangarnir voru í kringum 1.000 blaðsíður allan áratuginn og alls voru gefnar út 9.568 síður þessi ár. Hér er nokkuð erfitt um samanburð því það var ekki fyrr en við heimkomuna frá Danmörku sem farið var að telja auglýsingarnar með í blaðsíðutalinu. En samanburður við næsta áratug, þegar hið „svokallaða“ efnahagshrun átti sér stað, segir margt. Þá voru síðurnar ekki nema 8.136 og hefur fækkað enn meira síðan.

Stafræn bylting blaðsins

En á þeim áratug sem nú er skoðaður var hagur blaðsins með þvílíkum ágætum að margvíslegur árangur náðist. Útlit blaðsins tók stakkaskiptum þegar ákveðið var að stækka brotið upp í A4, ekki síst vegna þess að flestar auglýsingar voru hannaðar í þeirri stærð. Um leið var fenginn gamall kollega minn af Þjóðviljanum sáluga, Guðjón heitinn Sveinbjörnsson útlitshönnuður, sem tók að sér að hanna nýtt útlit. Það leit fyrst dagsins ljós í janúar árið 2000 og hefur að breyttu breytanda reynst vel og haldið sér í grófum dráttum til dagsins í dag.

Með þessari útlitsbreytingu færðist umbrot blaðsins og vinnsla inn á ritstjórnina þar sem blaðið var unnið í þar til gerðum forritum og er enn. Í framhaldi af því var hafist handa við að setja blaðið á netið og loks rættist langþráður draumur um að gera efni þess aðgengilegt á vísindavefnum PubMed eins og alvörufagblaði sæmir.

Gagnið af grunninum

En þrátt fyrir þennan ágæta árangur var það þó eitt mál sem í baksýnisspegli mínum ber höfuð og herðar yfir aðra viðburði á þessum áratug. Þannig vildi til að ég var ráðinn til starfa í apríl 1998. Svo að segja sama daginn og ég mætti í Hlíðasmárann var lagt fram frumvarp á Alþingi sem átti eftir að draga verulegan dilk á eftir sér fyrir blaðið og raunar íslenska læknastétt næstu árin.

Umrætt stjórnarfrumvarp fjallaði um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði og fékk vægast sagt blendnar móttökur meðal lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks. Til marks um „sjokkeffektinn“ af því má nefna að í fyrsta tölublaðinu eftir að það birtist var fjallað um það á rúmlega 30 blaðsíðum í Læknablaðinu. Þar voru meðal annars fyrstu viðtöl mín í nýju starfi við tvo framámenn í læknastétt, þá Harald Briem og Einar Oddsson. Báðir voru þeir gagnrýnir á frumvarpið, Haraldur, sem þá sat í Tölvunefnd, forvera Persónuverndar, sagði nefndina gera ýmsar athugasemdir við þetta frumvarp sem hann kvað alveg „óþarft“. Einar, sem sat í Siðfræðiráði Læknafélags Íslands, tók dýpra í árinni og sagði: „Svonalagað er hvergi leyft í veröldinni“.

Að sjálfsögðu var blaðið opið fyrir öllum sjónarmiðum í málinu svo í næsta blaði fékk ég að taka viðtal við minn gamla kunningja og skólabróður Kára Stefánsson um hvað honum gengi til með þessum miðlæga gagnagrunni. Í næstu blöðum hélt þessi umræða áfram og blaðið var opið fyrir sjónarmiðum beggja fylkinga í þessu umdeilda máli. En af einhverjum ástæðum var eftirsóknin eftir plássi á síðum blaðsins meiri hjá þeim sem voru á móti frumvarpinu.

Deilan um gagnagrunninn stóð yfir með talsverðum hávaða á fjórða ár. Formlega lauk henni með sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir undirrituðu Sigurbjörn Sveinsson formaður LÍ og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í fundarsal Læknafélaganna í Hlíðasmára í lok ágúst árið 2001. Tveimur árum síðar var felldur í Hæstarétti Íslands dómur í máli konu sem vildi ekki leyfa að heilsufarsupplýsingar látins föður hennar yrðu settar í miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Hún vann málið og það túlkaði bandaríska læknaritið New England Journal of Medicine sem dauðadóm yfir því litla sem eftir lifði af áætlun móðurfélags ÍE, deCODE, um að gera gagnagrunninn að veruleika. Síðan hefur lítið til hans spurst.

 

 

Sameining og offita

En að sjálfsögðu gerðist ýmislegt í íslenskum heilbrigðismálum þessi ár annað en bröltið í kringum gagnagrunninn. Sjúkrahúsin tvö í Reykjavík höfðu sameinast og árið 2003 var gefin út skýrsla um árangur þeirrar sameiningar. Hún var þess eðlis að einn helsti andstæðingur sameiningarinnar, Tómas Helgason, lýsti því yfir að sameiningin hefði mistekist en tveir úr hinum herbúðunum drógu þá ályktun að þrátt fyrir vissa vankanta hefði sameiningin lukkast nokkuð vel.

Það voru líka að sjálfsögðu skrifaðar og birtar fjölmargar fræðigreinar eins og vera ber í ritrýndu fræðiriti um læknisfræði. Í 90 ára afmælisriti blaðsins eru birtar merkustu eða athyglisverðustu fræðigreinar hvers áratugar og mér finnst það segja sína sögu um þróun íslensks samfélags að sú sem varð fyrir valinu frá þeim áratug sem hér er skoðaður skuli hafa fjallað um „þróun ofþyngdar og offitu meðal 45-64 ára Reykvíkinga á árunum 1975-1994“.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica