10. tbl. 110. árg. 2024
Ritstjórnargrein
Rauðkyrningabólga í vélinda. Jóhann Páll Hreinsson
Meðal lækna er fátt sem kyndir bál forvitni og fróðleiksfýsnar meira heldur en „nýir“ sjúkdómar. Meðalaldur sjúkdóma er líklega talinn í árhundr-uðum og má því kalla sjúkdóm sem fyrst var lýst fyrir 47 árum síðan1 „nýjan“. Téður sjúkdómur er rauðkyrningabólga í vélinda (eosinophilic esophagitis) og áhugavert er að líta til baka og sjá hvernig þróunin hefur verið síðan honum var fyrst lýst. Rúmir tveir áratugir liðu þar til rauðkyrningabólga í vélinda var vel skilgreind.2 Því næst líða tæp 15 ár þar til fyrstu klínísku leiðbeiningar fyrir rauðkyrningabólgu í vélinda líta dagsins ljós.3 Þar eru mataræðisbreytingar og sykursterar nefnd sem höfuðmeðferðarúrræði, gildi prótónupumpuhemla er þó einnig tekið fram. Nýjustu klínísku leiðbeiningar vestan hafs,4 í Evrópu,5 og víðar6 koma út fyrir 4-7 árum síðan. Í þessum leiðbeiningum skortir enn gögn til þess að mæla afgerandi með einni af meðferðunum þremur sem nefndar eru að ofan sem fyrstu meðferð. Nýleg rannsókn leiddi einmitt í ljós að það er enn talsvert misræmi á því hvernig rauðkyrningabólga í vélinda er meðhöndluð.7 Þetta er raunin, þrátt fyrir að hálf öld sé liðin frá því að sjúkdóminum var lýst, dæmi síðan hver fyrir sig hvort það er langur eða stuttur tími. Það er þó þannig að vissir sjúkdómar líða fyrir tíðni sína, banvæni (eða skorts þar á) og á hvaða hóp okkar þeir herja. Hvort rauðkyrningabólga í vélinda hefur liðið, þori ég ekki að segja til um.
Í yfirlitsgreininni sem nú birtist í Læknablaðinu eru rauðkyrningabólgu í vélinda gerð góð skil. Greinin er í senn yfirgripsmikil og hnitmiðuð, tæpt er á því helsta og þannig dregin upp skýr mynd af sjúkdómsástandinu. Sterk afstaða er tekin til prótónupumpuhemla sem fyrstu meðferðar og er það vel. Greinin hefur ekki bara fróðleiksgildi heldur talsvert skemmtanagildi. Ég mæli því heils hugar með því að halla sér aftur og gefa sér eins og eina til tvær tylftir mínútna til yfirlestrar. Að því loknu má reisa sig við með þekkingu í farteskinu sem nægja ætti hverjum lækni þegar kemur að rauðkyrningarbólgu í vélinda.
Heimildir
1. Dobbins JW, Sheahan DG, Behar J. Eosinophilic gastroenteritis with esophageal involvement. Gastroenterology 1977;72:1312-6. https://doi.org/10.1016/S0016-5085(77)80034-6 |
||||
2. Attwood SE, Smyrk TC, Demeester TR, et al. Esophageal eosinophilia with dysphagia. A distinct clinicopathologic syndrome. Dig Dis Sci 1993;38:109-16. https://doi.org/10.1007/BF01296781 |
||||
3. Furuta GT, Liacouras CA, Collins MH, et al. Eosinophilic esophagitis in children and adults: a systematic review and consensus recommendations for diagnosis and treatment. Gastroenterology 2007;133:1342-63. https://doi.org/10.1053/j.gastro.2007.08.017 |
||||