10. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Dagur í lífi læknis. Mikið er ég lánsöm að búa á Króknum – Dagur í lífi heimilislæknis í Skagafirði

07:20 Vekjaraklukkan hringir. Ég tala oft um að vera þræll A-fólksins, vinnudagurinn mætti nú alveg byrja aðeins seinna. Við eiginmaðurinn hjálpumst að við að koma börnunum af stað inn í daginn. Hleypi hundinum út og gef henni að borða. Var á vakt í gær svo ég er á vaktbíl, keyri í vinnuna, tekur 2 mínútur. Já maður græðir aukatíma í sólarhringinn úti á landi og þarf kannski ekki að vakna alveg eins snemma.

08:00 Morgunfundur. Farið yfir vaktina síðastliðinn sólarhring. Áhugaverð tilfelli rædd. Fáum okkur morgunmat. Er ekki enn byrjuð að drekka kaffi og hugsa að ég byrji ekkert úr þessu. Þaðan farið upp á röntgen og farið yfir röntgenmyndir frá deginum áður. Næst er það stofugangur. Nú liggja sjö sjúklingar inni og tveir í endurhæfingu, sem telst full deild. Ómetanlegt sem heimilislæknir að geta lagt inn skjólstæðinga með vandamál sem við getum sinnt hér, til dæmis eldra fólk sem vegna veikinda eða slysa getur ekki verið heima. Hef unnið annars staðar, bæði hérlendis og erlendis, og þá var eina lausnin að senda sjúklinga á bráðamóttöku. Við sendum síðan alvarlega veika einstaklinga á SAk til frekari rannsókna og meðferðar eða á LSH eftir því sem við á.

10:00 Móttakan byrjar, hitti þrjá skjólstæðinga og er með átta símatíma fyrir hádegi. Væri til í að hætta með símatíma, þeir draga úr mér alla orku, hefur einhver heyrt um símatímakvíða?

12:00 Hádegismatur. Reyni stundum að fara í ræktina í hádeginu á föstudögum en komst ekki í dag, var að aðstoða sérnámsgrunnslækni með tilfelli á vaktinni. Vaktirnar hér geta verið allskonar og það koma inn á milli mjög áhugaverð tilfelli en einnig krefjandi útköll. Við sinnum stóru héraði og vaktlæknir fer með sjúkrabíl í alvarleg útköll vegna veikinda og slysa.

13:00 Móttaka eftir hádegi. Hitti sex skjólstæðinga. Er á bakvaktinni. Sérnámsgrunnslæknir og sérnámslæknir banka stundum á hurðina og ræða málin. Mjög gefandi og skemmtilegt að handleiða og vera til staðar fyrir óreyndari lækna. Eins eru eldri kollegar mínir hér alltaf til í að hjálpa mér og öðrum hér. Mórallinn hér á Króknum er frábær og samvinna kollega til fyrirmyndar.

15:30 Kaffi, mikilvægt að hitta kollegana og fara yfir málin, gefst nú ekki alltaf tími til þess því miður.

16:00 Sagði einhver pappírsvinna? Kemst því miður aldrei heim á réttum tíma. Þarf að bæta það. Græja tvö endurhæfingarvottorð og tvær tilvísanir. -Hringi út nokkrar niðurstöður og svara nokkrum skilaboðum í Heilsuveru.

18:00 Kemst heim og fer með hundinn í stutta göngu.

18:30 Kjúklingasúpa hjá mömmu. Mesti lúxusinn að hafa foreldra mína í næsta húsi. Við fjölskyldan njótum öll góðs af.

19:15 Æfingaleikur hjá meistaraflokki karla í körfubolta. Hálfur bærinn mættur að horfa á. Ótrúlegur áhugi fyrir þessu hér og ég og mín fjölskylda erum ekki undanskilin. Góður sigur hjá mínum mönnum, sem gefur góð fyrirheit fyrir veturinn.

21:00 Útkall, skurður í andliti á barni, þarf að sauma, ég og sérnámsgrunnslæknir græjum það. Set upp æðalegg hjá einum sem liggur inni á sjúkradeild. Þar kom nýja ómtækið sem við vorum að fá sér vel.

22:15 Kemst loksins heim. Við eiginmaðurinn skiptum liði með börnin og komum þeim í rúmið. Horfi á einn þátt af Emily in Paris og gríp í prjónana.

23:00 Farin í háttinn. Hlusta á Storytel, er farin að stilla á að það slökkni eftir 5 mínútur svo fljótt sofna ég, kannski ágætis eiginleiki fyrir héraðslækni á vakt sem er stundum vakin nokkrum sinnum á nóttu.

Ég á helgarvaktina svo það er mæting á stofugang klukkan 10 í fyrramálið. Vonum að nóttin verði róleg. Mikið er ég lánsöm að búa á Króknum með fjölskyldunni minni og vinna svona skemmtilegt og gefandi starf. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica