10. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Brjóstaskimun gengur vel, en mætingin mætti vera betri

Svanheiður Lóa Rafnsdóttir yfirlæknir segir að verið sé að nútímavæða þessa þjónustu fyrir allar konur á Íslandi

Nú er kominn október og eins og hefð hefur skapast fyrir þann mánuð er hann bleikur á litinn. Það merkir að nú er athyglinni beint að krabbameinsskimun í brjóstum kvenna hér á landi, hvort sem er íslenskra eða af erlendu bergi brotinna. Þeir sem fylgjast með fréttum vita að brjóstaskimun fluttist ekki alls fyrir löngu frá Krabbameinsfélagi Íslands til Landspítala.

Þar er búið að koma þessari þjónustu fyrir og sú sem þar er yfirlæknir heitir Svanheiður Lóa Rafnsdóttir. Brjóstamiðstöð Landspítala heitir deildin og þar fer fram, auk skimunar, klínísk þjónusta við konur, forvarnir, greining og eftirlit með konum um allt land. Þar fer einnig fram tímabókun en boðun í skimun er á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þurfum að gera betur

Svanheiður segir að starfsemin hafi farið vel af stað. Hinsvegar hafi hlutfallsleg þátttaka íslenskra kvenna lengi verið of lág, eða á bilinu 50-60%. Hún þurfi að vera yfir 70%. Þess vegna sé ánægjulegt að samkvæmt síðustu tölum hafi hún hækkað um 5,6% milli ára. „Við gerum fleiri rannsóknir, það koma fleiri konur í skimun, en við þurfum að gera betur,“ segir hún.

Í því skyni var hafið átak í fyrra undir heitinu Skrepp í skimun. „Það gengur út á að gera þessa þjónustu almennt sýnilegri eins og á samfélagsmiðlum og á landsbyggðinni. Við viljum sýna konum að það sé einfalt og fljótlegt að fara í skimun. Svo beinum við sjónum okkar að því hvaða hópa þurfi að hnippa sérstaklega í. Þar eru konur á Suðurnesjum augljóslega tregari en aðrar til að mæta svo þar ætlum við að gera sérstakt átak í haust.

Annar hópur sem við viljum nálgast betur eru konur af erlendum uppruna. Þátttaka þeirra í skimun er einungis 18% meðan hún er 61% hjá íslenskum konum. Nú í október verðum við með opið hús þar sem við fræðum konur um þessa þjónustu og reynum að nálgast þennan hóp.“

 

Gervigreind og forbókanir

Brjóstamiðstöðin er í samstarfi við Samhæfingarstöð krabbameinsskimana um ýmsar nýjungar í starfseminni eins og að innleiða forbókun samhliða boðunarbréfum í skimun.

Einnig er gervigreindin að koma sterk inn í ár, þar sem Brjóstamiðstöðin hefur tryggt sér aðgengi að notkun gervigreindar við úrlestur skimunarmynda. „Þetta er ný tækni sem reynist vel við úrlestur skimunarmynda og við erum í fararbroddi með þetta verkefni. Hugmyndin er að nota gervigreindina samhliða brjóstaskimunarúrlestri röngtenlækna fyrir alla þjóðina. Gangi forprófanir vel gæti Ísland jafnvel orðið fyrsta land í Evrópu til þess að hagnýta gervigreind á þennan hátt þar sem hún les úr skimunarmyndum fyrir heila þjóð“. segir Svanheiður.

Brjóstamiðstöðin hefur verið á ferð og flugi, starfsfólk miðstöðvarinnar er nýkomið frá Svíþjóð þar sem Sahlgrenska sjúkrahúsið var heimsótt. „Við stefnum að því að verða systurmiðstöð Sahlgrenska og læra af þeim, þar sem við horfum til evrópskrar vottunar. Við leggjum einnig kapp á að nútímavæða þjónustuna okkar. Hvað varðar aðgengi að brjóstaskimun leggjum við áherslu á þrennt: Í fyrsta lagi að gera þjónustuna sem aðgengilegasta og stefna að því að tímabókanir verði eingöngu á rafrænu formi. Í öðru lagi viljum við innleiða forbókun þannig að konur fái bókaðan tíma um leið og þær eru boðaðar í skimun. Í þriðja lagi viljum við að skimunin verði ókeypis eins og raunin er á Norðurlöndum. Hún kostar núna 6.098 krónur og sumar konur setja það fyrir sig. Þar þarf pólitíska ákvörðun sem okkur hefur enn ekki gengið að fá í gegn. En eru ekki kosningar á næstunni?“ spyr Svanheiður Lóa Rafnsdóttir yfirlæknir kímin á svip.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica