09. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Skiptinám í Bretlandi

Fyrir rúmu ári síðan laust þeirri hugmynd niður hjá mér að fara í skiptinám til Bretlands. Kærastinn minn er þar í námi og það vill svo til að sérnám í lyflækningum á Íslandi er skipulagt eftir breskri fyrirmynd sem opnar á þennan möguleika. Ég hafði alltaf séð fyrir mér að fara í sérnám á Norðurlöndunum, og það er raunar enn planið, en allt í einu var Bretland líka á borðinu.

Hugmyndin var góð en það voru líka ýmsar hindranir á leiðinni. Þar ber hæst að nefna Brexit (nýtt og óvænt vandamál í mínu lífi), VISA-umsókn, breskt lækningaleyfi og enskt skrifræði. Hér reddast hlutirnir ekki, hvað þá samdægurs, heldur fer allt sína leið og eftir ákveðnum ferlum. Þetta tókst allt saman að endingu og ég er núna hálfnuð með skiptinámið, búin að vera sex mánuði í Oxford og á aðra sex mánuði eftir.

Umstangið við að skipuleggja flutninga var svo mikið að ég hafði eiginlega ekkert leitt hugann að því hvernig það yrði að vinna sem læknir í öðru landi. Ég mætti snemma fyrsta morguninn og hóf leit mína að búningsklefum og spítalafötum. Eftir hálftíma leit komst ég að þeirri niðurstöðu að hér væru engin föt í boði, bara borgaralegur klæðnaður. Það tíðkast heldur ekki að vera í inniskóm, og fólk furðar sig á „socks and sandals“ lúkkinu sem ég er að vinna með í Birkenstokkunum.

Svo er það kalíumið. Á Íslandi er hýpókalemía algengt viðfangsefni og á stuttum ferli hef ég öðlast mikla reynslu í því að klæðskerasníða kalíum uppbótarmeðferð. Það voru því ákveðin vonbrigði að uppgötva að hér er kalíum bara yfirleitt innan marka. Raunar liðu tveir mánuðir í starfi áður en ég skrifaði út mína fyrstu kalíum töflu. Það tíðkast líka að skrifa út Furix án Kaleorid, sem er byltingarkennd læknisfræði. Hér fara nær allir á fyrirbyggjandi blóðþynningu við innlögn og sýklalyfjagæsla er ströng svo þú skrifar ekki upp á Ceftriaxon nema þú viljir fá persónulegan tölvupóst frá smitsjúkdómalækni.

Fyrir utan þetta er læknisfræðin að mestu sú sama, en skipulagið er ólíkt Íslandi. Breska heilbrigðiskerfið, NHS (National Health Services), var stofnað 1948 og er sérstakt að því leyti að öll grunnþjónusta er ókeypis, þar með talin lyf, komur á heilsugæslu og komur á sjúkrahús. Bretar halda mikið upp á sitt NHS og það að bjóða öllum jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það má sannarlega segja að NHS sé einn af hornsteinum samfélagsins. Fyrir þau sem hafa áhuga á NHS, sögunni og pólitíkinni þar að baki, mæli ég með leikritinu Nye hjá National Theatre og bókinni Fighting for Life eftir Isabel Hardman.

NHS glímir þó við sömu vandamál og við sjáum heima og víða annars staðar. Það eru stöðugar umræður um fjármagn og undanfarin tvö ár hafa almennir læknar í Bretlandi farið í ellefu skæruverkföll til að berjast fyrir bættum kjörum og betra vinnuumhverfi. Forsætisráðherrar hafa komið og farið eftir Brexit, en í sumar urðu stjórnarskipti þegar Verkamannaflokkurinn vann kosningar. Það er því loks nýr kjarasamningur á borðinu sem verður kosið um í lok ágúst.

Það er skemmtileg og dýrmæt reynsla að búa og starfa í öðru landi. Oxford er dásamleg borg og breska sumarið hefur boðið upp á prýðilegt veður – fólk hér verður reyndar hissa þegar ég nefni veðrið sem einn af helstu kostunum við Bretland. Stærsti lærdómurinn sem ég tek með mér heim verður ef til vill sá að sjá og fá tilfinningu fyrir því að það er hægt að gera hlutina á fleiri en einn veg. Au revoir, Sólveig.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica