09. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Öldungadeild LÍ. Öldungadeild LÍ á slóðum Kaldalóns 7.-9. júní

Biðlistinn lengdist hratt og var þá brugðið á það ráð að bæta við annarri rútu. Þátttakendur urðu í lokin 55, en þar með var fullsetið í Hótel Reykjanesi. Langflestir hlýddu kalli um að mæta með góðum fyrirvara svo að lagt var af stað næstum stundvíslega kl. 9:04. Fyrsti áfangastaður var Hveravík á Ströndum og náðum við þangað á liðlega fjórum klukkustundum. Í Hveravík fengum við höfðinglegar móttökur og var boðið upp á steinbít með dásemdar remúlaði og salati og tómötum sem kom í ljós að voru úr gróðurhúsinu á staðnum. Þar er sannkallaður Edensgarður, þar sem vaxa epli og fíkjur og fyrir utan hlaupa um skrautlegir hænsnfuglar. Húsráðendur, Gunnar Jóhannsson og Kristín Einarsdóttir, skemmtu okkur síðan með sögum og söng. Þá var haldið yfir Steingrímsfjarðarheiði í náttstað á Hótel Reykjanesi. Hótelið er fyrrverandi skólaheimavist sem hefur kannski vakið minningar hjá sumum. Enginn heyrðist kvarta undan því að þurfa að fara fram á gang til að komast á salerni og aldrei voru biðraðir. En laugin er auðvitað einstök, 50 m löng, dýpst 4 m. Þó reyndi enginn dýfingar, en sumir brugðu á skriðsund. Þeir voru þó fleiri sem fundu hvar streymdi heitast og notalegast vatnið beint úr hvernum. Í kvöldmat var boðið upp á dýrindis purusteik.

Laugardagurinn var tileinkaður minningu Sigvalda Kaldalóns, sem var auðvitað Reykvíkingur í húð og hár þótt hann kenndi sig við þetta afskekkta læknishérað sem hann þjónaði í þau tiltölulega fáu ár sem hann hafði fullt þrek og heilsu. Þórður Halldórsson frá Laugarholti miðlaði okkur af reynslu sinni og þekkingu, borinn og barnfæddur í Djúpinu, þekkir hverja þúfu og alla sögu. Það er svo ótrúlega stutt síðan, innan við 20 ár, að Fagranesið hafði viðkomu á Arngerðareyri þar sem nú eru rústir einar. Í Ármúla er verið að byggja upp staðinn og þar voru formaður og ritari fest á mynd við meðalaskáp Sigvalda en aðrir prófuðu orgelið hans. Vegurinn endar við Tyrðilmýri – eða Tirðilmýri – ef veg skyldi kalla, bílstjórunum varð ekki alveg um sel, en treystu mati Þórðar. Húsráðendur, Jens Kjartansson lýtalæknir og Þórey Björnsdóttir, tóku hlýlega á móti okkur og fór vel um alla/öll í rúmgóðri hlöðunni við tvö langborð með nesti og kaffi. Þar var fyrir móðir Þórðar leiðsögumanns, Ása Ketilsdóttir frá Fjalli í Aðaldal, annálaður hagyrðingur og kvæðamaður, og dóttir hennar Sunneva, sem hefur lært gamlar þulur af ömmu sinni. Aldagömul íslensk alþýðumenning og lifir enn. Að lokinni enn einni sælkeramáltíð í Reykjanesi, lax að þessu sinni, var hápunktur ferðarinnar, Kaldalónsprógramm. Fyrst var spilað á óvenjulegt hljóðfæri, sög, í flutningi Björns Más Ólafssonar og Sigríður Ólafsdóttir kona hans lék með, en svo kom mezzosópransöngkonan Hildigunnur Einarsdóttir með Aðalheiði Þorsteinsdóttur og fluttu þær vel valdar Kaldalónsperlur. Formaðurinn sagði sögu Kaldalóns enn einu sinni og hnýtti í heimilislæknafélagið.

Fyrsti viðkomustaður á sunnudagsmorgni var raunar í göngufæri, enn ein notin af jarðhitanum sem kraumar þarna undir öllu, saltvinnsla sem var fyrst reynd fyrir 250 árum. Við fengum prýðilegar útskýringar pólsks starfsmanns á ensku, dæmigerð íslensk ferðaþjónusta, og allir keyptu sér saltstauk. Svo var komið við í Vatnsfirði. Í kirkjunni er róðukross eftir Hjalta Þorsteinsson og er eina listaverk hans sem enn er á sínum stað, hin eru falin í geymslum Þjóðminjasafnsins. En svo mátti ganga í spor Vatnsfirðinga hinna fornu í viðamiklum fornleifauppgreftri. Gjaldkeri félagsins sagði sögu af forföður sínum á staðnum. Í Tjarnarlundi við Staðarhólskirkju er minnst þriggja Dalaskálda í listaverki eftir Jón Sigurpálsson. Þar var ágætt að sitja í sólskini með nestið sitt, en vel klædd. Þessa helgi voru að detta út veðurviðvaranir vegna norðan áhlaups sem lék norðlenska bændur grátt. En það var raunar ekkert að veðri, bara ekki mjög hlýtt (það hefur komið sér vel í ferðum okkar að heita á heilagan Þorlák og aldrei lastaði hann veðrið). Heimferð var síðan tíðindalaus og endaði í Hlíðarsmára 8 um sexleytið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica