09. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Má taka gjald fyrir afhendingu sjúkraskráa?
Málavextir eru að lögmaður óskaði afrits af sjúkraskrá sjúklings. Slíkur aðgangur er heimill, en takmörkunum háður. Ef sjúkraskrárupplýsingar eru hafðar eftir öðrum en sjúklingi eða heilbrigðisstarfsmönnum þarf samþykki þess sem upplýsingarnar gaf.
Af því leiðir að áður en afrit sjúkraskrár er afhent þarf að fara yfir hana, svo ekki séu afhentar upplýsingar, sem ekki má afhenda. Í vaxandi mæli virðast vera að rata í sjúkraskrár upplýsingar um þriðja aðila, hafðar eftir sjúklingi sjálfum. Löggjafinn gerði ekki ráð fyrir slíku og fjallar því ekki sérstaklega um þær. Það gefur þó auga leið að séu í sjúkraskrá persónugreinanlegar upplýsingar frá sjúklingi um þriðja aðila getur einnig þurft að afmá þær úr skránni, fyrir afhendingu. Vinna læknis við yfirferð sjúkraskráa vegna þessa getur verið talsverð.
Enda var í 9. tölul. 14. gr. reglugerðar um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu nr. 1551/2022 gert ráð fyrir að fyrir vinnuna mætti innheimta gjald, eða eins og sagði í ákvæðinu … og fyrir vinnu við yfirferð sjúkraskrár fyrir afhendingu skal að lágmarki greitt fyrir klukkutímavinnu læknis, 15.216 kr. og síðan 5.072 kr. til viðbótar fyrir hverjar byrjaðar 20 mínútur.
Í báðum tilvikum vísuðu viðkomandi heilbrigðisstofnanir til þessa ákvæðis vegna gjaldtöku sinnar. Ákvæðið fjallar um gjaldtöku fyrir vottorð til lögmanna og tryggingafélaga og ýmis önnur vottorð. Útilokað er þó að skilja ákvæðið svo að vinna við yfirferð sjúkraskrár fyrir afhendingu tengist gerð vottorða.
Heilbrigðisráðherra setti þannig ákvæði um heimild til að taka gjald fyrir yfirferð sjúkraskrár fyrir afhendingu og hlýtur að hafa talið sig hafa lagaheimild til þess.
Lögmenn sjúklinganna töldu reglugerðarákvæðið vanta lagastoð og stjórnvöldum væri óheimilt að innheimta þjónustugjöld nema samkvæmt ótvíræðri lagaheimild.
Heilbrigðisráðuneytið féllst á rök sjúklinganna, taldi gjaldtöku samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra óheimila og lagði fyrir heilbrigðisstofnanirnar að endurgreiða sjúklingunum útlagðan kostnað.
Í báðum úrskurðum er vísað í álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5002/2007. Þar segir að það sé meginregla um starfsemi ríkisins, þar með talið þjónustustarfsemi þess, að notendur þjónustu og borgarar almennt eigi ekki að þurfa að greiða sérstakt endurgjald til ríkisins vegna hennar nema skýr fyrirmæli séu um slíkt í lögum. Þessi regla leiði af meginreglum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og almennum reglum stjórnsýsluréttar um að gjaldtaka ríkisins skuli byggjast á lagaheimildum. Þegar gjaldtöku sé einungis ætlað að standa straum af kostnaði við að veita opinbera þjónustu á grundvelli laga sé almennt ekki áskilið annað en að í lagaheimild komi fram að slík gjaldtaka sé heimil.
Í sjúkraskrárlögum er engin bein gjaldskrárheimild. Í 2. mgr. 24. gr. er ráðherra þó heimilt að setja nánari reglur um atriði er varða framkvæmd laganna. Í ljósi álits umboðsmanns telst þetta tæpast nægilega skýrt orðuð heimild til gjaldtöku, þó henni sé einungis ætlað að standa straum af kostnaði við yfirferð sjúkraskráa fyrir afhendingu.
Ekkert mælir þó gegn því að slík gjaldskrárheimild verði sett og það sem fyrst. Upplýsingalög nr. 140/2012 tryggja almenningi aðgang að gögnum, meðal annars upplýsingum aðila um hann sjálfan. Í 3. mgr. 18. gr. laganna er skýr gjaldtökuheimild. Þar segir: Ráðherra ákveður með gjaldskrá hvað greiða skuli fyrir ljósrit og afrit gagna sem afhent eru samkvæmt lögum þessum þannig að mætt sé þeim kostnaði sem af því hlýst, þ.m.t. efniskostnaði, og kostnaði vegna vinnu starfsmanna og búnaðar. Sambærilegt ákvæði var í eldri upplýsingalögum nr. 50/1996.
Gjaldskrá nr. 579/1996, sett á grundvelli eldri upplýsingalaga, var um árabil notuð af heilbrigðisstofnunum til að innheimta gjald fyrir ljósritun sjúkraskráa. Samkvæmt henni kostaði A4-síðan 20 kr. upp að 100 blaðsíðum og 15 kr. eftir það. Í nýjustu gjaldskránni nr. 306/2009 eru fjárhæðir óbreyttar.3
Eftir úrskurð ráðuneytisins hlýtur heilbrigðisráðherra að leggja fram lagafrumvarp til að bæta gjaldtökuákvæði í sjúkraskrárlögin. Fyrirmyndina er að finna í upplýsingalögum.
Heimildir
1. Fjallað er um sjúkraskrár í 12. tbl. 99. árg. 2013, 2. tbl. 100. árg. 2014 og 5. tbl. 102. árg. 2016.
2. Úrskurðirnir, uppkveðnir 26. október og 1. nóvember 2023, eru aðgengilegir hér: https://www.stjornarradid.is/gogn/urskurdir-og-alit-/$LisasticSearch/earch/?SortByDate=True&SearchQuery=&Ministries=Heilbrig%C3%B0isr%C3%A1%C3%B0uneyti%C3%B0&Committee=&Year=.
3. Benda má á að um langt árabil hafa lög um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991 (nú í 1. mgr. 17. gr.) leyft að fyrir hverja ljósritaða síðu skuli greiða gjald, sem nú er 300 kr. Ýmsar stofnanir innheimta þá fjárhæð fyrir hverja ljósritaða síðu.