09. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín. Hefur aldrei iðrast að helga sig ofnæmislækningum. Davíð Gíslason
Í stað þess að fara að sofa rölti ég inn í herbergi yfirlæknisins. Þar var stór skápur með ýmsum lækningabókum og tímaritum. Fyrir einbera tilviljun fór ég að blaða í lítilli bók sem hét Astma bronchiale. Hún var skrifuð af lækn-um við Allergologiska kliniken á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg.
Mér fannst margt áhugavert í þessari bók, einkum það sem viðkom ofnæmi og sérstaklega hin nýuppgötvuðu mót-efni af IgE-gerð. Árið 1967 kom myeloma-sjúklingur inn á Akademíska sjúkrahúsið í Uppsala með áður óþekkt myeloma-prótein. KABI í Stokkhólmi þróaði aðferð til að mæla þetta prótein, og það kom í ljós að það miðlaði ofnæmi og heitir þá sértækt IgE-mótefni. Með þessari uppgötvun urðu gríðarmiklar framfarir á sviði ofnæmis.
Við lestur bókarinnar fékk ég áhuga á að kynnast ofnæmissjúkdómum betur. Fjölskyldan flutti því til Gautaborgar, og fyrsta árið þar starfaði ég á lungnadeildinni á Renströmska, en flutti svo yfir á ofnæmisdeildina.
Á ofnæmisdeildinni var 30 rúma legudeild og göngudeild. Á göngudeildinni fóru fram ofnæmisrannsóknir og eftirmeðferð. Auk þess var rannsóknarstofa. Þar voru gerðar mælingar á IgE og sértækum IgE-mótefnum og fellimótefnum. Á rannsóknarstofunni voru einnig búnar til ofnæmislausnir fyrir húðpróf, þolpróf og afnæmingu. Yfir rannsóknarstofunni var yfirlæknir, sem ég átti mikið og gott samstarf við eftir að ég var kominn heim, og við skrifuðum saman grein um fellipróf hjá íslenskum bændum.
Ég starfaði þarna í rúm tvö ár, frá 1974, og nokkrar vikur sumrin 1977 og 79. Ég tók að mér að kanna gjöf gammagló-bulíns í dreypi hjá sjúklingum með slæman gammaglóbulínskort. Þessi rannsókn var unnin í samvinnu við deildina í ónæmisfræðum.
Gammaglóbulínið kom frá KABI í Stokkhólmi. Sjúklingarnir höfðu þolað illa meðferðina þegar gammaglóbulín var gefið í vöðva. En þessi meðferð gekk ekki heldur áfallalaust. Nokkrir fengu slæmar aukaverkanir. Eigi að síður vildu flestir reyna þessa meðferð til þrautar. Við prófuðum að gefa -Hydrócortison 200-400 mg tveim tímum fyrir gjöf dreypisins, og það dró verulega úr aukaverkunum. Við birtum niðurstöður rannsóknarinnar í Vox Sanguinis 1978.
Ég fékk sérfræðiviðurkenningu í lyflækningum og ofnæmislækningum 1977, og var þá fyrsti ofnæmislæknirinn á Íslandi.
Ég hóf störf á Vífilsstöðum 1977 og hafði þá 30 rúma deild til umráða, en opnaði um leið göngudeild í ofnæmissjúkdómum. Starfsemin flutti í Fossvog 2002. Ég var einnig með eigin stofu þar til ég var að verða 81 árs. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt talað um ofnæmissjúkdóma meðan ég var við nám í læknadeild, en að koma heim og hefja störf var líkt og að opna óskrifaða bók, svo notað sé hátíðlegt orðalag.
Frá því ég hóf störf hefur ofnæmi aukist gríðarlega mikið hér á landi eins og annarsstaðar í heiminum, en auðvitað vissi ég það ekki þegar starfsferillinn byrjaði. Á starfsævi minni hafa orðið ótrúlega miklar framfarir með aukinni þekkingu og bættri meðferð á ofnæmissjúkdómum. Ég var svo heppinn að starfa alltaf með öndvegisfólki, læknum og hjúkrunarfræðingum. Ég hef einnig átt mjög gott samstarf við sjúklinga, og tók þátt í samtökum þeirra í yfir 30 ár.
Þekkingin á ofnæmi var óplægður akur og ég hef verið svo heppinn að fá að starfa með framúrskarandi íslenskum og erlendum kollegum við rannsóknir á ofnæmi. Ég hef aldrei iðrast þess að helga mig þessari sérgrein og get óhikað mælt með henni við unga lækna sem enn hafa ekki gert upp hug sinn um val á framtíðarstarfi.
Leiðin gegnum lífið er vörðuð tilviljunum sem verða augljósari eftir því sem styttist í endalokin. Líklega hefur engin tilviljun ráðið meiru um lífshlaup mitt en það að ég rölti inn á skrifstofu yfirlæknisins í Eskilstuna og fann þar litla bók um astma.