09. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Af hverju breiðast kynsjúkdómar svo ört út?

Ósakhæfir unglingar veifa hnífum á menningarnótt, íshellar hrynja og kynsjúkdómar breiðast út með óþekktum hraða. Svona væri hægt að tuða en hér verður aðeins fjallað um það síðastnefnda. Nýjustu tölur um tíðni kynsjúkdóma sýna allverulega aukningu, einkum og sérí-lagi hvað snertir lekanda og sárasótt.

Þetta kannast Elísabet Reykdal Jóhannesdóttir húðlæknir harla vel við. „Þegar ég hóf störf hér á göngudeild húð- og kynsjúkdóma árið 1999 var lekandi svo til horfinn eftir allmiklar sveiflur á öldinni sem leið. Þau fáu tilvik sem greindust voru í fólki sem hafði verið í útlöndum og smitast þar, en ekkert smit var innanlands. Undanfarin ár hefur hann verið að færa sig upp á skaftið. Í fyrra og á þessu ári er aukningin mjög mikil. Sárasótt hefur einnig aukist en klamydían að mestu staðið í stað,“ segir hún og bætir við: „Þetta hefur aukið álagið hér á deildinni verulega vegna þess að þegar um klamydíu er að ræða þarf bara að gefa fólki töflur, en sé þetta lekandi þarf einnig að gefa sprautu í vöðva.“

Tölurnar hræða

Eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti hefur lekandasmitum fjölgað margfalt á undanförnum árum. Þau voru liðlega 100 árið 2021 en í fyrra stukku þau upp í 338 og á þessu ári voru þau orðin liðlega 200 um miðjan ágúst. Haldist sú tíðni út árið, fara smitin í um það bil 350 á árinu. Svipuð þróun er í tíðni sárasóttar (sýfilis), í fyrra greindust 73 tilvik og um miðjan ágúst voru þau orðin 50 sem þýðir að þau verða 80 á þessu ári en sami hraði helst.

Elísabet segir að á þessari fjölgun séu eflaust margar skýringar. Hverjir eru það sem greinast núna með þessa sjúkdóma?

„Fyrst var þetta aðallega hjá karlmönnum sem sofa hjá öðrum karlmönnum en nú hefur þeim fjölgað sem sofa hjá báðum kynjum og við það berst það út í hinn hópinn. Þá kemur upp sá vandi að konur eru oft alveg einkennalausar. Þess vegna er svo mikilvægt að rekja smitleiðina. Karlar mæta oft á Læknavaktina en láta svo vera að rekja hjá hverjum þeir hafi sofið. Við það heldur smitið áfram að breiðast út, því konur vita hvorki hvort karlar eru smitandi né finna þær sjálfar fyrir einkennum,“ segir hún.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica