06. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Bókin mín. Baráttan milli formsins og innihaldsins. Erla Sigríður Sigurðardóttir
- Erla Sigríður Sigurðardóttir
Hvaða bækur hafa fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?
Bók er farmiði í annan heim. Hugarheim annarra. Þær geta sett hluti í nýtt og stærra samhengi, smækkað eigin vandamál eða veitt nýja sýn á þau. Að öðrum kosti eru þær ánægjulegt hliðarspor frá hversdagsleikanum. Í stuttu máli; skemmtilegar! Hver dáir ekki góða sögu?
Kunningi minn í menntaskóla sagði eitt sinn að bækur gætu haft tvenns konar kosti. Fyrst væri það sagan sjálf, stíllinn og hvernig hún væri skrifuð. Skruddur sem erfitt er að leggja frá sér því frásögn eða persónur ríghalda í mann. Hins vegar væri það inntakið: um hvað þær væru.
Og hvort skyldi nú vera mikilvægara? Hans álit var að það skipti meiru að hafa þær vel skrifaðar. Ég var ósammála, enda alvarlegur unglingur. Það hlaut að vega þyngra um hvað þær snerust. Nú hallast ég að því að hvort tveggja skipti máli. Leikandi skrifuð bók sem er þó ekki á neinn hátt byltingarkennd eða áleitin getur skipað svipaðan sess hjá manni og bók sem ögrar eða kennir manni eitthvað nýtt.
Ursula K. Le Guin rithöfundur komst vel að orði þegar hún var innt eftir inntaki bóka sinna. Hvaða skilaboðum hugðist hún koma á framfæri? Hún benti réttilega á að hefði það legið fyrir henni að skrifa prédikanir hefði hún orðið prestur, ekki rithöfundur.
Bók verður ekki soðin niður í merkingu eða knöpp skilaboð. Saga er aldrei það sama og samantekt. Þjóð bjarnarins mikla er dæmi um sögu sem auðvelt er að falla fyrir. Sögusviðið er steinöld þar sem stúlka af Krómagnon-kynstofni verður viðskila við þjóðflokk sinn. Eftir nokkra hrakninga kemst hún í tæri við hóp Neanderthalsmanna sem taka hana undir sinn verndarvæng.
Bókin er hrífandi frásögn af samskiptum milli þessara ólíku manntegunda auk þess að vera einstaklega ánægjuleg aflestrar. Þar að auki á hún skondna baksögu í bókasafni fjölskyldu minnar. Mömmu áskotnaðist hún í jólagjöf stuttu eftir að hún kom út á níunda áratugnum. Næstu daga leit hún varla upp úr bókinni.
Pabbi hefur ávallt verið stríðinn og gantaðist óspart í bókaorminum, fannst kannski lítið til bókarinnar koma af kápunni að dæma. Mamma átti síðan næturvakt og kom í hlut pabba að sjá um elsta bróður minn sem var þá á öðru ári. Að svæfingu lokinni leitaði pabbi sér að lesefni fyrir svefninn en greip í tómt, enda hafði hann lesið allar jólabækur sínar upp til agna. Það eina sem stóð eftir var bókin hennar mömmu. Jæja, ætti ekki að gefa skræðunni séns? Og vitið til, þegar mamma kom heim grútsyfjuð lá pabbi enn yfir bókinni, vitandi að það félli í hans hlut að sjá um bróður minn meðan mamma svæfi eftir vaktina.
Síðari bókin sem ég vil nefna er Einlyndi og marglyndi eftir Sigurð Nordal. Bókin er í raun safn geysivinsælla heimspekifyrirlestra sem Sigurður hélteftir að hann kom heim úr námi við háskóla í Þýskalandi. Í þessari röð fyrirlestra teflir hann fram tveim þáttum sem einkenna okkur öll að einhverju leyti. Fyrir það fyrsta er það einlyndið: getan til einbeitingar, framkvæmdar og sérhæfingar. Að vera fylginn sér og þeim ákvörðunum sem maður tekur. Í öðru lagi er það marglyndið sem er ævintýraþráin, þörf fyrir fjölbreytni og nýjungar og viss viðkvæmni.
Þessi síðari bók á sérstaklega erindi við mann þegar maður stígur sín fyrstu skref í starfi og stendur frammi fyrir vali á sérgrein. Vill maður vita lítið um margt eða mikið um fátt? Verða fjölhæfur heimilis- eða bráðalæknir eða ofursérhæfður skurðlæknir eða prófessor? Líkt og á við svo margt annað er ekkert rétt eða rangt svar, slæm eða góð ákvörðun. Leikandi fær heimilislæknir skipar svipaðan sess í samfélaginu og prófessor í fremstu röð.
Ég skora á Stefán Steinsson heimilislækni að skrifa um bækur sínar.