05. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ: Læknir
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.
Um þessar mundir eru 10 ár síðan ég varð sérfræðingur í heimilislækningum. 10 ár síðan ég tók síðast næturvakt á Landspítalanum nestuð píptækjum og símum og 10 ár síðan ég byrjaði að vinna á Læknavaktinni. Að sama skapi eru liðin 19 ár frá fyrsta starfsdegi mínum sem læknir, degi sem ég man enn eins og hafi gerst í gær, þegar ég mætti eftir 4. árið til vinnu á hjartadeild LSH. Lítið hjarta, stór sloppur, galopin augu og eldrauð hlustunarpípa um hálsinn. Við 10 ára tímamót er klassískt að líta yfir farinn veg og velta fyrir sér stöðunni. Hverju hef ég áorkað? Hefur þetta verið þess virði? Myndi ég velja sömu leið aftur og vil ég halda ferðinni áfram?
Það má segja að ferðin hingað til hafi litast töluvert af ýmis konar baráttu fyrir starfsaðstæðum lækna. Þegar ég starfaði sem læknanemi var umræðan hávær um óásættanlega ábyrgð sem sett væri á læknanema í starfi og á tíma var Landspítali kallaður Læknanemasjúkrahús. Þegar ég var í rotation á spítalanum í sérnáminu var einnig mönnunarkrísa og við skrifuðum reiðar greinar í blöðin um óboðlegt vaktaálag. Við sérnámslæknar vorum með kröfur um bætt laun og breyttar áherslur á heilsugæslunni, gerðum kannanir á álagi sérnámslækna og enduðum á krísufundi með stjórn heilsugæslunnar. Í kjölfarið var hlustað á kröfur okkar að hluta og launin hækkuð. Undanfarin ár hefur Félag íslenskra heimilislækna verið hávært um álag á heimilislækna og nú verið að berjast fyrir bættu starfsumhverfi með minna pappírsálagi og auknum tíma fyrir skjólstæðinga. Í samtölum við eldri kollega heyrist gjarnan að þeirra ferill hafi verið litaður svipaðri baráttu, því miður oft með litlum ávinningi.
Suma daga hljómar tónninn eins og allt sé vonlaust, baráttan við báknið breyti engu – olíuskipinu verði ekki snúið. Tónninn verður þungur og hjartað sekkur um nokkra sentimetra.
Þýðir það að á tímamótum velti ég því fyrir mér að skipta um starfsvettvang, hætta þessari vitleysu, það eru jú enn vonandi tæp 30 ár eftir af starfsævinni?
Reyndin er þveröfug. Ástæðan fyrir baráttunni er ástríðan fyrir starfinu. Ef starfið sem heimilislæknir – þegar maður nær virkilega að starfa sem heimilislæknir – væri ekki svona frábært þá væri ekki þess virði að leggja baráttuna á sig.
Undanfarið hef ég verið að lesa bókina Why Can´t I See My GP? eftir Dr. Ellen Welch sem fjallar um vegferð heimilislækninga innan NHS (National Health Service). Staða þeirra er í raun ekki ósvipuð okkar hér heima. Bókin er byggð upp af pistlum að stórum hluta og rauði þráðurinn er endurtekið sá sami: Það væri ekki þess virði að leggja alla þessa vinnu á sig ef ekki væri fyrir „töfrana“ í starfinu. Kjarninn á krísu breskra heimilislækna virðist vera blanda af of miklu álagi og ásókn á sama tíma og virðing fyrir starfi þeirra hefur minnkað. Þegar einstaklingar leggja á sig ómælda vinnu, ábyrgð og álag bæði innan og utan formlegs vinnudags skiptir máli að upplifa að starfið sé metið að verðleikum. Þegar virðingin hverfur hættir fórnin að vera þess virði.
En aftur að töfrunum. Töfrarnir í starfi heimilislæknisins felast í tíma með skjólstæðingum. Í nútíma vinnuskipulagi er tími metinn sem lúxusvara, dýrasta úrræðið í þjónustunni er tími með lækninum. Hann skal spara út í ystu æsar og helst mjólka með sem flestum mögulegum verkum. Vandinn er hins vegar að gæðin í starfi okkar felast ekki í fjölda verka heldur tíma til að sinna samskiptum. Svo heppilega vill reyndar til að það sem skjólstæðingurinn kann best að meta er einmitt það sem heimilislæknirinn metur einnig mest, þessi augnablik þar sem virkilega næst að fara í grunninn á vandanum, ná tengingu, finna þetta púsl sem vantaði upp á til að leysa gátuna.
Það sem stendur uppi eftir tæp 20 ár í starfi eru augnablik með skjólstæðingum. Þessar djúpu sögur sem fólk hefur að geyma, sorgir, þjáningar og gleði. Vonin sem birtist þegar flókin mál mjakast í rétta átt og þakklætið þegar einhver nær að hlusta. Upp úr ferlinum standa vitjanir heim til fólks, fjölbreytt flóra mannlífsins og sögur skjólstæðinga sem oft eru ótrúlegri en lygasögur. Jú og svo kannski nokkur hetjumóment líka.
Kjarni málsins er að ég vinn ekki bara sem læknir. Ég er læknir.