05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Úr sögu Læknablaðsins: Rifist um ritrýni – eða sjálfsmynd lækna

Árið 1955 hefst í Læknablaðinu með tveimur stórfréttum: Annars vegar hefur verið skipt um ritstjórn sem Guðmundur Thoroddsen leiðir nú í umboði LÍ og LR sem hafa sameinast um útgáfuna. Hins vegar hafa héraðslæknar fengið heimild til þess að hengja „sírenuflautur“ á læknabifreiðir sínar og þenja þær þegar þeim liggur á, en þó aðeins utan þéttbýlis. Hvernig er það, er þessi heimild enn í gild?

Ritstjórnartíð Guðmundar Thoroddsen stóð ekki lengi því tveimur árum seinna, 1957, verður hann sjötugur, lætur af störfum og fær um sig tæplega 80 blaðsíðna afmælisrit. Við tekur Ólafur Bjarnason og stýrir blaðinu til loka áratugarins og eitthvað lengur. Í hans tíð verða ýmsar framfarir. Til dæmis er ráðinn sérstakur auglýsingastjóri, Guðmundur Benediktsson, og honum má sennilega þakka mikla fjölgun auglýsingasíðna og jafnvel þá breytingu að nú er farið að birta litprentaðar auglýsingar. Almennar efnissíður eru þó áfram í svarthvítu. Í ársbyrjun 1960 er svo tekin ákvörðun um að auka útgáfuna, í stað þess að gefa út allt að 10 blöð á ári, eina örk (16 bls.) hvert, eru nú gefin út fjögur tölublöð með 48 bls. hvert.

 

Legslímudrift og epilepsía

Þótt umgjörðin breytist er efnið áfram í hefðbundnum stíl. Þunginn eykst jafnt og þétt í birtingu fræðigreina um hinar aðskiljanlegu plágur sem herja á almenning og læknar ná smám saman betri tökum á. Árið 1956 birtist til dæmis fyrsta greinin um sjúkdóm sem angrar konur og hefur verið mikið til umræðu upp á síðkastið. Ritstjórinn verðandi, Ólafur Bjarnason, skrifar þá grein um það sem hann kallar „sjúklegar breytingar í legslímuhúð“ eða „leg-slímudrift“. Þessi sjúkdómur heitir nú á dögum ýmist legslímuflakk eða einfaldlega endó sem er stytting á erlendu heiti hans, endómetríósa.

Annað sem tekið er til kostanna er hryggjarliðsskrið og epilepsia (flogaveiki), gláka, litblinda og magakrabbi, blýeitrun og blóðflokkun, löng grein á dönsku um eftirmeðferð mænuveikra eftir danska konu, Bodil Eskesen, að ógleymdum nýrnahettunum og framleiðslu þeirra á adrenalíni sem vakið hefur athygli og hrifningu lækna. Ekki má heldur gleyma kransæðunum sem eiga það til að stíflast en nú er farið að víkka. Svo er það merkilegt að í miðju köldu stríði birtist 30 blaðsíðna grein eftir Óskar Þórðarson, ferðasaga 25 evrópskra lækna úr Rússlandsferð sem farin var rétt fyrir 1960.

Læknar eru líka farnir að fylgjast með reykingavenjum unglinga eins og grein Haraldar Guðjónssonar þar um sýnir. Varað er við misnotkun örvandi og róandi lyfja og svona á jaðri læknisfræðinnar eru líka birtar greinar um sálgreiningu og hlutdeild fæðunnar í heilbrigði mannsins sem Bjarni Bjarkason skrifar. Blóðleysi og járnskortur er tekið til umfjöllunar og margt fleira.

Ýmislegt er líka að gerast í félagsmálum lækna og kjaramálum. Ekki verða þau tíunduð hér nema hvað árið 1958 kemur fram tillaga á aðalfundi um að læknar segi sig úr BSRB en hún er felld. Allnokkrar umræður verða um byggingu á læknahúsi, Domus Medica, sem kemst á dagskrá 1957. Skömmu síðar fæst lóð sunnan við Miklatorg, á að giska þar sem Krabbameinsfélagið byggði síðar leitarstöð. En áður en framkvæmdir voru hafnar afturkallaði borgin þá lóð „vegna umferðarvanda“ en lét í té núverandi lóð hússins við hlið Heilsuverndarstöðvarinnar. Hins vegar drógust framkvæmdir á langinn, ekki síst vegna dræmrar þátttöku lækna í að kaupa sér hlut og stofur í húsinu. Til fróðleiks má svo nefna að undir lok þessa áratugar sem hér um ræðir eru íslenskir læknar 309 talsins og skiptast hnífjafnt í tvo hópa: almenna lækna og sérfræðilækna.

…og svo hann Vilmundur

En þarna undir lok sjötta áratugarins verða ákveðin tímamót í heilbrigðismálum á Íslandi sem ekki láta Læknablaðið ósnert. Vilmundur Jónsson lætur af störfum sem landlæknir og langáhrifamesti mótandi íslenska heilbrigðiskerfisins á því mikla uppbyggingarskeiði sem staðið hafði frá því í upphafi kreppunnar. Árið 1931 er Vilmundur skipaður í stöðuna, 42ja ára gamall, og þar er hann um 28 ára skeið þar til hann fer sjötugur á eftirlaun árið 1959.

Hann var ekki óumdeildur. Sá sem skipaði hann hét nefnilega Jónas frá Hriflu og átti sér afar fámennan aðdáendahóp í röðum lækna. Vilmundur hafði áður verið héraðslæknir á Ísafirði og var ekki félagi í samtökum lækna, sem vildu örugglega sjá einhvern annan í embættinu. En Vilmundur hélt sínu striki ótrauður og Jónas skipaði hann einnig stjórnarformann nýbyggðs Landspítala, síðar Ríkisspítala. Þetta var ótrúleg valdastaða eins manns og var hann sagður mun áhrifa meiri í sínum málaflokki en flestir ráðherrar.

Hann beið ekki boðanna heldur fór, eins og sú hamhleypa sem hann hefur verið, á fullt í að skrifa lagafrumvörp, reglugerðir og annað sem þurfti til að koma upp því stjórnkerfi sem hann taldi hentast að hafa í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Það er því alveg óhætt að þakka honum fyrir þá uppbyggingu sem varð á valdatíma hans – og eflaust skamma hann í leiðinni fyrir ýmis mistök.

Jafnoki Laxness og Þórbergs

En læknastéttin vissi ekki alveg hvernig hún átti að bregðast við þessum manni. Ekki bætti úr skák að hann svaraði öllum sem að honum veittust fullum hálsi. Stílsnilldin sem hann réði yfir var þessleg að Kolbrún Bergþórsdóttir í Kiljunni segir einhvers staðar að hann hafi haft i fullu tré við þá vini sína og samferðarmenn, Halldór Laxness og Þórberg. Það komst því enginn upp með neinn moðreyk gagnvart honum.

Svo vill til að í þeim árgöngum sem hér eru til skoðunar birtist löng grein eftir Vilmund þar sem hann gagnrýnir lækna fyrir að vera ekki nógu vel skrifandi, að þeir kunni ekki nógu vel íslensku og að almennri þekkingu þeirra hafi hrakað verulega frá því hætt var að kenna grísku í íslenskum skólum. Sérhæfingin sem læknar hafi tileinkað sér hafi orðið til þess að mannskilningur og vald þeirra á málinu hafi verulega rýrnað. „Hin margsérgreinda læknastétt hlýtur að koma sér upp einni sérgreininni enn, og sérfræðingur þeirrar greinar verður að fylgja hverjum þeim lækni annarra sérgreina, sem einhverju hefur að miðla, jafnvel upp í sjálfa háskólastólana … til að tala fyrir hann, skrifa fyrir hann og – hugsa.“1

Svona nokkru varð að sjálfsögðu að svara, en það verður bið á því. Árið 1958 var að verða búið þegar loks kemur svar, mikil breiðsíða frá engum öðrum en Arinbirni Kolbeinssyni, vinsælum og vel látnum lækni sem átti eftir að verða formaður LR og heiðursfélagi LÍ og LR. Á 12 blaðsíðum lætur hann Vilmund hafa það óþvegið, leggur að sjálfsögðu allt út á versta veg, og sakar landlækni um að hafa svo lítið álit á íslenskum læknum að þeir séu ófærir um að skrifa, tala og hugsa.2

Þarna finnst mér nú heldur vel í lagt því það sem fyrir Vilmundi vakir (en verður kannski óskýrt á köflum í allri stílleikfiminni) er að það verði tekið upp það sem Jóhann Hannesson síðar skólameistari á Laugarvatni en á þessum tíma starfandi í Ameríku, kallar „ameríska kerfið“, semsé að allt efni fræðirita sé lesið yfir af sérfræðingum, bæði til þess að leiðrétta staðreyndir og snyrta málfar. Þetta er með öðrum orðum beiðni um að Læknablaðið taki upp ritrýni, sem nú til dags þykir sjálfsögð í slíkum blöðum.

Þetta er kannski dæmigert fyrir afstöðu lækna til Vilmundar á valdatíma hans, hvort sem það á sér rætur í flokkapólitík (Vilmundur var flokksbundinn krati og sat um hríð á þingi fyrir Alþýðuflokkinn), eða einhverjum bresti í sjálfsmynd stéttarinnar.

Og hvort sem það var tilviljun eða ekki, þá var næsti starfsmaður sem bættist við launaskrá Læknablaðsins íslenskufræðingur. Það gerðist árið eftir að Vilmundur lét af starfi og sneri sér að því að gefa út Læknatal sem einnig olli nokkrum titringi, ekki síst vegna þess hversu nákvæmur ritstjóri þess vildi vera um öll afkvæmi lækna, innan jafnt sem utan hjónabanda, lífs jafnt sem liðin. En það er önnur saga. Ég hvet hins vegar áhugamenn um sögu læknisfræðinnar til að kynna sér þessi áhugaverðu skoðanaskipti.

U10-fig-1

Hér er mynd frá veislu til heiðurs danska landkönnuðinum Knud Rasmussen (þriðji frá hægri) en lengst til vinstri eru þrír óumdeildir oddvitar íslenskra lækna í upphafi síðustu aldar, frá vinstri: Guðmundur Björnson landlæknir, Guðmundur Hannesson stofnandi Læknablaðsins og prófessor Guðmundur Thoroddsen. Á myndinni eru átta karlar og tvær konur, körlunum er öllum gerð góð skil í myndartexta en önnur konan ber nafnið „frú Knud Rasmussen“ og hin ekki neitt. (Mynd sem Bjarki Sveinbjörnsson birti nýlega og er ein fárra ljósmynda sem teknar voru á Hótel Íslandi 1928, áður en það brann.)

Heimildir

1. Jónsson J. Thorvaldsen og Oehlenschläger. Læknablaðið 1955; 39: 124-39.
 
2. Kolbeinsson A. Oehlenschläger í Arnarhváli. Læknablaðið 1958; 42: 132-41. (Aftast í því riti er reyndar þýðing landlæknis á grein eftir enskan lækni um svipað efni, þar sem stílsnilldin er söm og áður.)
 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica