05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

BÓKIN MÍN: Það sem augun sjá ekki

U08-fig-1-Valgeir-Steinn-Runolfsson

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Ég hef alltaf verið hændur að bókum og varði löngum stundum sem barn fyrir framan bókahillurnar heima og á bókasöfnum. Sumar voru marglesnar, líklega engin meira en myndskreytt bók um sögu Manchester United sem hafði álíka vigt fyrir forfallinn fótboltastrák og sakramentið. Ég lúslas Harry Potter eins og flestir jafnaldrar mínir og síðar bættust við erlendar kiljur, heimsbókmenntir og ljóð. Undanfarið hefur minna farið fyrir yndislestri og væri óskandi að ástundun við námsbækurnar væri eingöngu um að kenna. Tíminn týnist nefnilega oft fyrir framan símann.

„Bækurnar mínar“ eru þrjár bækur sem höfðu áhrif á mig á mismunandi æviskeiðum og hafa lifað með mér síðan.

Fyrsta bókin er Litli prinsinn eftir franska flugmanninn og rithöfundinn Antoine de Saint-Exupéry og þýdd af Þórarni Björnssyni. Ég fékk hana að gjöf átta ára gamall og hef lesið nokkrum sinnum síðan. Bókin kom út í miðri seinni heimsstyrjöldinni meðan Antoine var í útlegð og segir frá flugmanni sem brotlendir í eyðimörk og hittir þar Litla prinsinn. Fyrir fullorðna lesendur er prinsinn glóhærður drengur frá smástirninu B 612. Hann ferðast frá stjörnunni sinni, sem er varla stærri en hús, og hýsir hin skæðu Baóbabb fræ og blómið sem er undurfallegt en drambsamt. Á leið til jarðar hittir prinsinn margt skrýtið full-orðið fólk sem er upptekið af völdum, eignum og staðreyndum. Áhrifaríkust eru þó samskipti hans við refinn sem leyfir honum að temja sig og trúir honum fyrir leyndarmáli. Litli prinsinn er barnabók fyrir allan aldur og hefur sterkan boðskap. Barnið í sögumanni og prinsinn tákna sakleysið og tærleikann, ólíkt fullorðna fólkinu sem er upptekið af hinum áþreifanlega heimi. Undirliggjandi er þrá höfundar eftir heimahögunum og barnæsku í umróti stríðs og átaka en allra helst er bókin þörf áminning um mikilvægi kærleikans.

Næst er On The Road eftir Jack Kerouac. Hana las ég á frummálinu á táningsárunum á ferðalagi um Ítalíu. On The Road fjallar um ungan rithöfund, Sal Paradise, sem leggur í ferðalag um Bandaríkin ásamt fríþenkjandi vini sínum, Dean Moriarty, í leit að frelsi og tilgangi. Bókin kom út 1957 og er eitt af mikilvægustu verkum Beat-kynslóðarinnar sem spratt upp á eftirstríðsárunum. Ríkjandi þemu í bókinni, er einstaklingsfrelsi, kynfrelsi og höfnun á gömlum gildum og efnishyggju. Sal og Dean keyra vítt og breitt um Bandaríkin í nokkrum atrennum, hitta litríka karaktera og skemmta sér í villtum partíum og djass klúbbum. Dean giftist endurtekið en getur ekki losað sig undan aðdráttarafli vegarins á meðan Sal finnur ástina. Loks skilur lífið og tíminn söguhetjurnar að. Bókin hefur einstakan frásagnarstíl og fangar tíðarandann vel, hún er músíkölsk með langar málsgreinar og hefur undirliggjandi takt og ákefð sem keyrir frásögnina áfram.

Þriðja bókin er Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marquez í frægri þýðingu Guðbergs Bergssonar. Hana las ég við lok menntaskólagöngunnar. Bókin segir sögu Buendía-fjölskyldunnar sem ferðast yfir fjöllin og stofnar hið töfrandi smáþorp Macondo fjarri siðmenningunni. Í fyrstu er eina tenging þorpsins við umheiminn sígaunarnir með Melkíades fremstan í flokki, sem heimsækja þorpið árlega með nýjar uppfinningar. Þegar fram líður opnast tenging milli Macondo og umheimsins og sakleysið víkur fyrir „framförum“ nútímans, græðgi aðkomumanna og byltingum. Í miðri hringiðunni er Buendía-fjölskyldan og niðjar þeirra. Peð í handriti tímans rituðu af Melkíadesi, heilli öld áður en fjölskyldan hverfur ásamt Macondo af yfirborði jarðar í miklum stormi. Bókin er skrifuð í stíl töfraraunsæis sem glæðir söguna, sem jafnframt er saga margra þjóða SuðurAmeríku, dulúð og mætt örlaganna.

Nú þegar árin fylla þrjá tugi og styttist í að ég ljúki við sérnámsgrunn er spennandi að hugsa til þess hvað næstu ár munu bjóða upp á. Barnauppeldi, framhaldsnám og vaktir. Hver veit nema það gefist meiri tími fyrir yndislestur og ný bók bætist á listann. Fyrst ætla ég samt að kíkja aðeins í símann.

 

Ég skora á Erlu Sigríði Sigurðardóttur
bekkjarfélaga minn og lækni að skrifa
um sínar bækur




Þetta vefsvæði byggir á Eplica