04. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Þrír kvenlæknar flettu ofan af launamun kynja á Barnaspítalanum
Þrír barnalæknar á Landspítalanum leiddu í ljós launamun kynjanna á Barnaspítalanum. Fimm karlkyns barnalæknar sem ráðnir voru á eftir þessum þremur kvenlæknum fengu allir hærri laun. Laun kvennanna hafa verið leiðrétt og þeim bættur skaðinn afturvirkt. Þær hvetja lækna á spítalanum til að fara ofan í saumana á sínum deildum. Dæmi eru um að fleiri konur hafi fengið launaleiðréttingu
„Mér var sagt í hvaða launaflokk ég ætti að fara þegar ég kom heim og spurði: Er hægt að ræða það eitthvað frekar? Þá var horft framan í mig og sagt: Nei, það er ekki gert. Svo veit ég að það var gert í tilfelli karlkyns kollega,“ segir Jóhanna Guðrún Pálmadóttir, barnalæknir á Barnaspítalanum.
Jóhanna, ásamt Helgu Elídóttur og Berglindi Jónsdóttur barnalæknum, réði sig til Landspítala árið 2019 eftir sérnám og vinnu erlendis. Helga og Berglind í Svíþjóð og Jóhanna í Bandaríkjunum. Fimm karlkyns barnalæknar sem ráðnir voru til Barnaspítalans á eftir þeim fengu allir hærri laun þrátt fyrir að þær teldu þá ekki standa þeim framar hvað varðaði ábyrgð og menntun.
Héldu að öll sætu við sama borð
„Þetta eru ákveðin svik sem maður upplifir frá sínum vinnuveitanda. Við vorum í þeirri trú og trausti að allir sætu við sama borð, sem var alls ekki,“ segir Helga. „Svikin svíða og ég var mjög reið. Á sama tíma vorum við staðráðnar í að fá þetta leiðrétt.“
Helga Elídóttir og Jóhanna Guðrún Pálmadóttir komu heim og hófu störf á Landspítala árið 2019 eftir áralangt nám og vinnu erlendis. Mynd/gag
Styrkur þeirra þriggja hafi verið að vinna saman að málinu. „Það hefði verið erfitt að berjast ein á móti kerfinu, en við vorum þrjár í sambærilegri stöðu, sem hjálpaði okkur í gegnum þetta.“
Upphaf málsins má rekja til Kvennafrídagsins stóra í október. Þær hafi velt fyrir sér hvort hann væri tímaskekkja. Þær ræddu líka þann orðróm að læknar á spítalanum væru misvel launaðir eftir deildum, og oft dregið í efa að laun á kvenna- og barnasviði væru sambærileg við önnur svið. Spítalinn hafi gert úttekt og kynnt. Meðallaun lækna á spítalanum sögð í flokki 303 og þar stæði kvenna- og barnasviðið einnig.
„Ég sat eftir og hugsaði: Ég er hér í 100% vinnu, geng í öll störf auk þess að sinna undirsérgrein minni og er samt undir meðaltali. Hvað þarf ég að gera til að vera með meðaltal eða fyrir ofan það?“ lýsir Jóhanna. Boltinn fór að rúlla.
Smátt og smátt púsluðu þær gögnunum saman, nýttu heimild í lögum til að fá uppgefin laun allra sérfræðilækna deildarinnar, reiknuðu út fjölda viðbótarþátta hjá hverjum lækni, báru saman við menntun og stöðu, sem sýndi þeim svart á hvítu stöðuna. Karlarnir metnir hærra.
Grundavallaratriði
„Við þekktum nokkur dæmi og sáum svo fleiri og fleiri. Þetta var sláandi og okkur leið ekki vel,“ segir Jóhanna. Á sama tíma hafi þær óttast að vera að gera of mikið mál úr hlutum.
„En í grundvallaratriðum skiptir þetta máli,“ segir Jóhanna. „Ekki aðeins fyrir okkur, heldur allar í kringum okkur og þær sem á eftir koma.“ Barátta þeirra þriggja hafi haft þau áhrif að nú séu fleiri kvenlæknar að skoða stöðu sína. Læknablaðið hefur heimildir fyrir því að fleiri konur hafi fengið launin leiðrétt.
En hvernig getur staðið á þessu? Kjarasamningar lækna eru sem meitlaðir í stein. Laun eftir námsferli og starfsaldri. Þá hækka sérfræðilæknar um einn launaflokk fyrir að hafa erlent læknapróf, eins og amerískt board-próf eða annað sambærilegt, en tvo fyrir doktorspróf. Saman verði þetta þó ekki þrír flokkar heldur tveir.
Síðan geta læknar hækkað um fimm launaflokka, metið huglægt hverju sinni, og gefur hver flokkur um 30 þúsund krónur. Landspítali hafi kynnt minnisblað til að meta viðbótarþættina árið 2016. Samkvæmt því getur til að mynda sérþekking eins og undirsérgrein, stjórnun, rannsóknir og kennsla, auk sérstaka verkefna, reiknast til. Matið í höndum yfirmanns.
Við eftirgrennslan kvennanna kom í ljós að þetta minnisblað var ekki nýtt þegar þær voru ráðnar 2019. Með nýjum framkvæmdastjóra sviðsins og mannauðsstjóra eftir að þær voru ráðnar hafi það verið tekið í notkun og karlarnir þá fengið fleiri þætti metna inn. Það hafi ekki kveikt á viðvörunarbjöllum um mismunina sem þá varð.
Þær benda á að þrátt fyrir minnisblaðið virðist þó sem stífar sé horft á rammann í tilfelli kvenna. Útreikningar þeirra þriggja hafi sýnt að konur á Barnaspítalanum höfðu að meðaltali 3,15 viðbótarþætti þegar karlar voru með 3,8. „Munurinn er 20% körlum í vil,“ segir Helga.
„Við viljum vekja athygli á því að við sáum þennan kynbundna launamun á þessum stærsta vinnustað landsins, sem jafnframt er jafnlaunavottaður. Jafnlaunavottunin grípur ekki þennan mun,“ segir Helga. Skoða þurfi hvern einstakling og bera saman hvernig launin eru samsett. „Það þýðir ekki að skoða lækna sem heild, því það er svo mismunandi hvað er á bakvið hvern einstakling.“
Þær segja að þegar þær hafi verið komnar með launaupplýsingarnar í hendur hafi það tekið þær nokkrar klukkustundir að finna út úr laununum. „Að sjálfsögðu hefði einhver yfirmanneskja getað gert það fyrir löngu síðan,“ segir Helga.
Launin leiðrétt afturvirkt
Þær rekja ferilinn. Landspítali hafi á endanum leiðrétt launin afturvirkt til þess tíma sem þær voru ráðnar. Það var eftir að þær höfðu undirbúið ítarlega kæru til Kærunefndar jafnréttismála og sent afrit hennar til forstjóra, framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs og framkvæmdastjóra mannauðssviðs.
Þær hafi fundað með forsvarsmönnum spítalans sem hafi gert þeim að sanna muninn með dæmum. Þær hafi varið miklum tíma í gagnaöflun, haft lögfræðing sér við hlið og fengið stuðning frá stéttarfélagi sínu, Læknafélagi Íslands.
Þær lýsa því að tveimur dögum eftir að hafa fengið launaupplýsingar allra læknanna frá launadeild spítalans hafi þeim borist skilaboð í tölvupósti um nýjan samning. „Þar höfðum við óumbeðið hækkað um einn launaflokk. Þetta finnst okkur vera viðurkenning þeirra þótt þau viðurkenni ekki bókstaflega að þetta hafi verið mismunun á grunni kyns,“ segja þær.
Eftir fundi með framkvæmdastjóra, mannauðsstjóra og launadeild hafi þeim svo boðist einn launaflokkur tvö ár aftur í tímann með þeim rökum að þá hafi þessi hópur karlkyns lækna verið ráðinn. „Þau vildu meina að þá hafi misréttið hafist. Við vorum ekki sammála því,“ segja þær. Leiðréttingin hafi á endanum náð aftur til þess tíma sem þær voru ráðnar.
„Þetta finnst mér vera þeirra viðurkenning þótt þau viðurkenni ekki bókstaflega að þetta hafi verið kynjamismunun,“ segir Helga og er sátt við samskiptin við mannauðsstjóra og málalokin.
„Við erum ekki að leita að einhverjum til að kenna um, heldur viljum við vekja athygli á því að maður getur aldrei verið öruggur. Og þó að einhver sé búinn að segja þér að það sé enginn munur, áttu ekki að trúa því heldur verður þú sjálf að skoða þetta svart á hvítu.“
En kom þeim þessi staða á óvart þar sem jafnlaunavottun er í gildi? „Sláandi en nei,“ segir Jóhanna. „Við kvenkyns læknar þekkjum mjög vel að þurfa að berjast fyrir því að fá ákveðna hluti, gera ákveðna hluti og vera metnar að verðleikum.“
Yfirmenn sváfu á verðinum
Jóhanna segir yfirmenn og stjórnendur hafa sofið á verðinum. „Þó þeir hafi heyrt að það væri einn launaflokkur í mun fannst engum það sérstaklega mikið atriði eða vandamál. En það er það í grundvallaratriðum.“ 30 þúsund á mánuði verði 360 þúsund á ári og svo koll af kolli og sjáist svo í lífeyrisréttindum. Munurinn sem þær sáu hafi numið nærri 100 þúsund krónum á mánuði.
„Ég tel að öllum hafi brugðið þegar við sýndum fram á muninn. Framkvæmdastjórinn okkar þakkaði okkur fyrir að gera þetta,“ segir Jóhanna. „Karlkyns kollegum sem vita af þessu finnst þetta ömurlegt.“
Þær segja aðrar konur nú banka á mannauðsdyrnar. „Við tókum þær eiginlega með okkur; upplýstum aðrar konur um það sem við vorum að gera,“ segir Jóhanna. „Yfirmenn segja við þær sem nú eru að bíða að það sé verið að skoða þetta allt, en hvenær endanleg lausn finnst vitum við ekki.“
Jóhanna vann í fimm ár í Suður-Karólínu eftir að hafa lokið námi í Connecticut í Bandaríkjunum í undirsérgrein sinni; næringar- og meltingarsjúkdómum barna. Helga starfaði á Skáni í Svíþjóð þar sem hún bætti við sig undirsérgrein í ofnæmis- og lungnasjúkdómum barna. Berglind vann einnig á Skáni þar sem hún lærði innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma barna sem undirsérgrein og lauk doktorsprófi.
„Við sáum í þessari vinnu okkar að doktorsprófið sérstaklega virðist ekki skila konum neinum launaflokki. Þeir eiga að vera tveir en virðist talið aukaatriði séu konur komnar með aðra viðbótarþætti.“ Vel menntaðar konur hafi því ekki notið góðs af því.
Augun hér eftir alltaf opin
Ljóst er að málið hefur hoggið í traustið til vinnuveitandans. „Ég er sátt við okkar málalok. Hins vegar mun ég árlega bera laun mín saman við laun annarra lækna á vinnustað mínum og fylgjast grannt með málum áfram,“ segir Helga.
Þær hvetja lækna, karla og konur, sem eru á heimleið að ráðfæra sig við Læknafélagið og undirbúa sig. Ekki setja traust sitt blint á spítalann þegar kemur að launum.
„Ég mun aldrei trúa því aftur að launasetningin sé sanngjörn,“ segir Helga. „Ég verð bara að gá að því sjálf.“
En kom til greina að hætta og fara aftur út? „Við getum það,“ segir Helga og Jóhanna segir það stóra ákvörðun að koma til Íslands og vinna hér. „Svarið var því ekki að hlaupa í burtu þegar staðan var ljós, heldur að vinna að því að taka til og breyta stöðunni.“
Landspítali segir kerfisbundinn kynbundinn launamun ekki finnast
Landspítali réðst í ítarlega skoðun á launasetningu sérfræðilækna þvert á svið spítalans eftir ábendingar sem bárust frá nokkrum sérfræðilæknum í fyrra. Þetta segir í svari við fyrirspurnum Læknablaðsins til spítalans. Spítalinn haldi ekki miðlægt utan um mál er varða launaleiðréttingar. Hann viti af launahækkunum 11 kvenlækna og 7 karllækna en ekki ástæðuna. Launamunur kynjanna sé nú mældur 1,4% körlum í vil.
Samanburður sem spítalinn hefur gert á meðaltalslaunum sérfræðilækna á Landspítala eftir kyni og launum.
„Niðurstöður voru kynntar Læknafélagi Íslands og benda ekki til þess að kerfisbundinn kynbundinn launamun sé að finna á Landspítala. Vegna þátta sem kveðið er á um í miðlægum kjarasamningi (prófa, sólarlags- og starfsbundinna þátta) getur verið um mun á launum að ræða á milli einstakra sérfræðilækna en sá munur er ekki kynbundinn,“ segir þar.
Samþykktu launaleiðréttinguna
Samkvæmt svörunum segir að sérstaklega hafi verið tekið til skoðunar misræmi í launasetningu sérfræðilækna á kvenna- og barnasviði.
„Við þá skoðun kom í ljós að minnisblað um notkun starfsbundinna þátta við nýráðningar sérfræðilækna hafði ekki verið nýtt gagnvart þeim sem ráðnir voru til kvenna- og barnasviðs á árinu 2019 en að það hefði verið nýtt við ráðningu sérfræðilækna á sviðinu á árinu 2021.“ Til að gæta samræmis innan sviðsins hafi því verið samþykkt að leiðrétta laun þeirra kvenna sem ráðnar voru til kvenna- og barnasviðs árið 2019.
Spítalinn útskýrir að í kjarasamningum sé kveðið á um að starfsbundnir þættir lækna geti gefið allt að fimm launaflokka. „Landspítali fór þá leið að útbúa sérstakt matskerfi til að úthluta starfsbundnum þáttum og er þeim endurúthlutað einu sinni á ári til eins árs í senn. Þeir læknar sem fá launaflokk vegna starfsbundinna þátta eru að jafnaði ekki með fleiri en 1-2 launaflokka vegna þessa,“ segir þar.
„Þess má geta að á meðal sérfræðilækna er hlutfall kvenna sem hafa fengið greidda viðbótarlaunaflokka vegna starfsbundna þátta á Landspítala 47,6% en að sama skapi fá 44,4% karla greidda viðbótarlaunaflokka vegna þeirra.“
Vilja vera undir 2,5% launamun
Í svörunum segir að Landspítali hafi haft jafnlaunavottun frá árinu 2020 og hafi það markmið að leiðréttur kynbundinn launamunur á föstum mánaðargreiðslum mælist ekki meiri en 2,5%.
„Leiðréttur launamunur metur hvort karlar og konur með sömu eiginleika eða þætti (að meðaltali) fái sambærileg laun. Í því mati er notað launalíkan til þess að einangra þau áhrif sem kyn hefur á föst laun. Tekið er tillit til viðeigandi skýribreyta, til að mynda vegna menntunar, starfshlutfalls, starfaflokkun og fleira,“ segir í svarinu.
„Kynbundinn leiðréttur launamunur á Landspítala mældist 1,7% (karlar hærri) á árinu 2023 og á árinu 2024 mælist hann 1,4% (karlar hærri).“ Enginn sérfræðilæknir komi upp í útlagagreiningu jafnlaunagreiningarinnar undir vikmörkum, en Landspítali notar 20% vikmörk í útlagagreiningu. „Markmiðið er að lækka þessi vikmörk niður í 15% við næstu úttekt.“