04. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Húsnæðismarkaðurinn og fjarlækningar. Teitur Ari Theodórsson

Úff, húsnæðismarkaðurinn. Markaður sem virðist aldrei vera í jafnvægi. Allt er svo dýrt núna að það er eiginlega bara ómögulegt að kaupa sér íbúð. Þrátt fyrir það hefur þó ýmislegt verið gert til þess að auðvelda fólki að kaupa sér íbúð, hlutdeildarlán, ráðstöfun séreignarsparnaðar til útborgunar við fyrstu kaup og fleira. En staðan breytist lítið. Þessar aðgerðir eiga það þó sammerkt að ráðast helst af eftirspurn og því kannski ekkert skrítið að þær skili ekki tilætluðum árangri.

Heilbrigðiskerfinu mætti líkja við húsnæðismarkaðinn. Misræmi er milli framboðs og eftirspurnar. Mörg okkar vilja meina að það sé slæmt, sem það líklega er, en hin hliðin á þeim peningi er þó hvað við erum vinsæl! Sjúklingar leita til okkar í sífellt ríkari mæli, og það er gott að við njótum trausts þeirra. Áskorunin felst í því að það virðist aldrei vera nægilegt framboð af okkar kröftum til þess að mæta eftirspurninni. Biðlistar á heilsugæslum og stofum lækna teljast í vikum eða mánuðum og þröskuldur til innlagnar á sjúkrahús verður sífellt hærri.

Kunnuglegt stef til lausnar á þessu misræmi á milli framboðs og eftirspurnar eru tæknilausnir. Tæknin muni leysa okkur úr snörunni og eiginlega án þess að við þurfum að pæla neitt sérstaklega í því. Gervigreindin er rétt handan við hornið og svo eru fjarlækningar alltaf að færast í aukana, ekki satt? Ekki misskilja mig, ég fagna öllum tækninýjungum en ég held að reynsla lækna sé sú að tækninýjungar séu kannski ekki alltaf til þess fallnar að auka framleiðni í þjónustu. Nýjasta dæmið um slíkt er hin þjóðkunna Heilsuvera sem hefur í raun aukið misræmið á milli eftirspurnar og framboðs með því að ýta undir eftirspurnarhliðina. Þá er okkar helsta núverandi tæknilausn rafrænt A4 blað sem nýtist nær eingöngu í tímabókanir og pappírssparnað. Ekki beint tímasparandi lausnir.

Þá eru það fjarlækningarnar. Ég hlustaði nýverið á útvarpsviðtal þar sem fjallað var um mönnun í heilbrigðiskerfinu og fjarlækningar bar á góma. Viðmælendum fannst miður hve fjarlækningar væru skammt á veg komnar og voru sammála um að við værum mikið betur sett ef að þær væru komnar almennilega í gagnið. Það virðist svo mikil trú á fjarlækningum um þessar mundir að nýverið var læknum meinað að hitta sjúklinga í eigin persónu á Akureyri, þeim bæri að sinna þeim með fjarlækningum úr Reykjavík! Fjarlækningar eru góðar og blessaðar, en ég held að þær muni aðallega auka aðgengi landsbyggðarinnar að sérfræðiþjónustu, eitthvað sem er þarft og gott en mun kannski auka eftirspurn frekar en framboð. Læknir sem situr heima fyrir framan tölvuskjá að tala við sjúklinga á Egilsstöðum er ekki að sinna öðrum sjúklingum á meðan.

Mér finnst augljóst að svarið við þessum vanda er, líkt og á húsnæðismarkaðnum, á framboðshliðinni en ekki á eftirspurnarhliðinni. Við þurfum alveg örugglega að mennta fleiri lækna en það sem meiri þörf er á er að bæta vinnuumhverfi lækna. Við þurfum að geta boðið upp á samkeppnishæf laun til þess að geta lokkað lækna heim eftir sérnám. Við þurfum að stilla álagi í hóf svo læknar brenni ekki út og geti hugsað sér að vinna klíníska vinnu. Við þurfum að ráðast í endurskipulagningu verkefna lækna (task shifting) og gefa frá okkur þau verkefni sem ekki þarf lækni í að framkvæma. Við þurfum að hætta að rífast stöðugt um rekstrarform og nýta okkur þau form sem auka á starfsánægju lækna. Því á endanum snýst þetta allt um það, það verður engin læknisþjónusta án okkar, lækna.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica