04. tbl. 110. árg. 2024

Ritstjórnargrein

Aukin tíðni offitu á meðgöngu er alvörumál. Heiðdís Valgeirsdóttir

Heiðdís Valgeirsdóttir | kvensjúkdóma- og fæðingalæknir |Landspítala

doi 10.17992/lbl.2024.04.787

Fáum hefur dulist sú gríðarlega aukning sem hefur orðið á tíðni ofþyngdar og offitu í hinum vestræna heimi á síðastliðnum árum og áratugum. Umræðan er þó alltaf viðkvæm. Sem heilbrigðisstarfsfólk verðum við að bera virðingu fyrir fólki, skoðunum þess, líkama og útliti. Jafnframt er það mikilvægt hlutverk okkar að koma upplýsingum, þekkingu og fræðslu áleiðis, bæði til okkar skjólstæðinga, en einnig til samfélagsins í heild. Viss áskorun í umræðunni er að velja hvaða orð skuli notuð svo enginn verði særður, orð geta falið í sér ákveðna stimplun og verið gildishlaðin og þar með túlkuð á misjafnan hátt. Hér mun ég tala um ofþyngd og offitu, ekki til að mismuna neinum eða móðga, heldur til að skýrt sé hvað um er rætt. Ofþyngd er yfirleitt skilgreind sem líkamsþyngdarstuðull (LÞS, kg/m2) 25-29,9 og offita sem LÞS ≥30.

Heilsukvillar tengdir offitu eru vel þekktir og er einnig mikilvægt að hafa í huga áhrif offitu hjá barnshafandi konum. Í þessu tölublaði Læknablaðsins birtist grein sem lýsir þróun á þyngd barnshafandi kvenna á Norðurlandi og kemur þar fram að tíðni offitu hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum.1 Ofþyngd og offita mæðra skapar ákveðnar áskoranir í mæðravernd og við fæðingaþjónustu. Aukin hætta er á fylgikvillum hjá þessum hópi kvenna og ákveðin tæknileg atriði geta verið meira krefjandi við eftirlit og meðferð.

Eftir því sem offita er meiri, þeim mun meiri áhætta er á fylgikvillum. Meðal fylgikvilla sem eru algengari hjá konum með offitu á meðgöngu eru meðgöngusykursýki, háþrýstingssjúkdómar, vaxtarskerðing hjá barni, að barn sé þungburi, fósturgallar og fósturdauði á meðgöngu. Í fæðingu er aukin hætta á áhaldafæðingu eða bráðakeisaraskurði. Einnig er aukin hætta á súrefnisskorti hjá barninu í fæðingu, axlarklemmu og innlögn á Vökudeild.2,3

Líklega eru ýmsir þættir sem spila inn í aukna áhættu á fylgikvillum á meðgöngu, en meðal annars getur offita leitt til ójafnvægis í hormónabúskap og öðrum lífvirkum sameindum (svo sem IL-6, TNF-α, leptin og adiponectin) sem getur í kjölfarið haft neikvæð áhrif á fylgjustarfsemina og fóstrið.4
Eftirlit á meðgöngu og í fæðingu getur einnig verið snúnara hjá konum með offitu. Við fósturskoðanir með ómun er skert ómskyggni og þar með getur verið hætta á að missa af fósturgöllum og mat á fósturvexti verður ónákvæmara. Mæling á legbotnshæð með málbandi getur verið ónákvæm þar sem erfitt getur verið að þreifa legbotn og töluvert meiri vefur er með í mælingunni.

Í fæðingunni sjálfri getur reynst erfitt að ná góðu sambandi með hjartsláttarnema til að fylgjast með fóstrinu og erfiðara getur verið að leggja legg fyrir utanbastsdeyfingu (epidural anesthesia). Tæknileg framkvæmd við keisaraskurð getur einnig verið meiri áskorun hjá konum í mikilli offitu, aðgerð tekið lengri tíma og þær eru í aukinni hættu á sýkingum í skurðsári og að fá bláæðasega.

Mikilvægt er að við heilbrigðisstarfsfólk séum meðvituð um aukna tíðni offitu hjá verðandi mæðrum, um aukna áhættu fyrir móður og barn í barneignarferlinu og bjóðum upp á bestu mögulegu þjónustu með þetta að leiðarljósi. Á Íslandi er konum með offitu boðið aukið eftirlit á meðgöngu og í fæðingu, mismikið eftir alvarleika offitu. Aukið eftirlit á meðgöngu getur meðal annars falið í sér þéttari mæðraskoðanir, skimun fyrir meðgöngusykursýki, ómskoðanir til að fylgjast með vexti barns, metin þörf á blóðsegavörn og boðin framköllun fæðingar fyrr en ella. Í fæðingu er mælt með síritun fósturs, utan-bastdeyfing boðin snemma í ferlinu og virkri meðferð (handtök og lyf) beitt á þriðja stigi fæðingar til að draga úr hættu á stórri blæðingu.3

Að þessu sögðu er þó forvörnin líklega alltaf besta vörnin. Á meðgöngu er mikilvægt að hvetja konur til heilbrigðs lífsstíls, bæði góðrar hreyfingar og holls mataræðis til að stuðla að hóflegri þyngdaraukningu.5
Ekki er þó síður mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk og samfélagið allt leggist á eitt til að stemma stigu við offitufaraldrinum, ekki eingöngu í þágu verðandi mæðra og barna þeirra, heldur okkar allra vegna þess heilsutjóns sem offita getur valdið. Vart er ofmælt að aukin tíðni offitu á meðgöngu sé alvörumál.


Heimildir

1. Jónsdóttir KD, Hrólfsdóttir L, Gunnarsson B, et al. Þróun líkamsþyngdar barnshafandi kvenna á Norðurlandi árin 2004-2022. Læknablaðið 2024; 110: 200-5.
https://doi.org/10.17992/lbl.2024.04.789
PMid:38517407

2. Elíasdóttir ÓJ, Harðardóttir H, Þórkelsson Þ. Áhrif þyngdar verðandi mæðra á meðgöngu, fæðingu og nýbura. Læknablaðið 2010; 96: 691-5.
https://doi.org/10.17992/lbl.2010.11.327
PMid:21081792

3. McAuliffe FM, Killeen SL, Jacob CM, et al. Management of prepregnancy, pregnancy, and postpartum obesity from the FIGO Pregnancy and Non-Communicable Diseases Committee: A FIGO (International Federation of Gynecology and Obstetrics) guideline. Int J Gynaecol Obstet 2020; 151 Suppl 1: 16-36.
https://doi.org/10.1002/ijgo.13334
PMid:32894590 PMCid:PMC7590083

4. Howell KR, Powell TL. Effects of maternal obesity on placental function and fetal development. Reproduction 2017; 153: R97-R108.
https://doi.org/10.1530/REP-16-0495
PMid:27864335 PMCid:PMC5432127

5. Gunnarsdóttir GH. Konur sem glíma við offitu á barneignaraldri og á meðgöngu. Hvað er til ráða? Ritgerð til kandídatsprófs í ljósmóðurfræði. Háskóli Íslands 2019, Reykjavík. hdl.handle.net/1946/33551 - mars 2024.


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica