03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Skurðlækningar. Starfið velur manninn. Þorvaldur Jónsson

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Þegar ég lauk stúdentsprófi frá MH 1971 var ég óráðinn um háskólanám og starfsval. Var þó búinn að útiloka læknisfræði og verkfræði. Ég mátaði mig við hugvísindagreinar í nokkrar vikur en varð að viðurkenna að ég vissi ekkert hvað ég væri að gera. Lauk því haustönninni í frystihúsi og vorönninni sem mjólkurbílstjóri. Og innritaðist í læknisfræði 1972. Gegnum allt námið var ég hallastur undir að fara í sérnám í einhverju grúski og grufli. Alls ekki skurðlækningum af neinu tagi, það jafngilti því að hætta í alvöru læknisfræði. Að fengnu lækningaleyfi 1980 fór ég á meinafræðideildina. Eftir rúmt hálft ár þar skall á læknaverkfall og stofnuð var einhvers konar leigumiðlun sem átti að sjá sjúkrahúsunum fyrir unglæknum. Ég var skikkaður á skurðdeildina á Landakoti, sem þá var virkur bráðaspítali, og kolféll fyrir faginu. Lét þá loks af öllum mótþróa, starfið hafði valið manninn og ég varð að finna mér aðra fordóma en að amast út í skurðlækningar. Ég vann á Landakoti og í Svíþjóð áður en ég fór endanlega erlendis 1983 til að ljúka sérnáminu, fyrst í Bandaríkjunum og svo í Svíþjóð. Ég fékk sérfræðiviðurkenningu 1986 og fór síðar á háskólasjúkrahúsið í Malmö/Lundi í undirsérgreinanám. Samhliða því var ég í doktorsnámi þar og lauk doktorsprófi 1992.

Ég hóf störf á þáverandi Borgarspítala í ársbyrjun 1992. Þar var ég uns almennu skurðlækningadeildirnar í Reykjavík voru sameinaðar á Hringbrautinni. Ég tel að sameining deildanna hafi verið faglegt gæfuspor sem opnaði leið til frekari þróunar undirsérgreina og teymisvinnu með öðrum sérgreinum. Ég var ráðinn dósent við HÍ 1995 og sinnti því starfi í 15 ár. Á þeim tíma, og raunar bæði fyrir og eftir, handleiddi ég unglækna og fólk úr öðrum heilbrigðisstéttum í rannsóknarverkefnum til allra háskólagráða. Það hefur glatt mig að sjá fólk úr þeim hópi snúa aftur til Íslands sem vel menntaðir sérfræðingar, meðal annars skurðlæknar sem í flestu eru betrungar mínir.

Þegar ég lít yfir þá hálfu öld sem ég verið viðriðinn læknisfræði blasa við miklar breytingar. Tækniframfarir hafa auðveldað greiningu sjúkdóma og aukið meðferðaröryggi. Fjöldi skurðaðgerða hefur vikið fyrir mun minni inngripum sem skila sama árangri með minna álagi og áhættu fyrir sjúklinga. Vinnuumhverfi hefur tekið stakkaskiptum. Þegar ég var á kandídatsárinu var farið á bundna helgarvakt á föstudagsmorgni og ekki komið út af sjúkrahúsinu aftur fyrr en á mánudagseftirmiðdegi. Væri óhugsandi í dag og það er vel. Loks ber að nefna kynjaskiptingu í faginu. Þegar ég 70 ára lét af störfum 2021 var hlutfall kynja hjá sérfræðingum í kviðarhols- og brjóstaskurðlækningum við Landspítala orðið nær því jafnt og er það líka vel.

Sagt hefur verið að starfsferli skurðlæknis megi skipta í þrjú tímabil. Hið fyrsta snýst um að læra hvernig á að gera aðgerð, annað tímabilið hvenær á gera aðgerð og hið þriðja hvenær á ekki að gera aðgerð. Umorðað mætti segja að flest með áhuga geti lært handverkið þokkalega vel á einhverjum árum. Það þarf svo lengri tíma til að öðlast reynslu og þroska dómgreind til þess að ákveða hvenær læknisráðið skurðaðgerð er besti meðferðarkosturinn í stöðunni hverju sinni.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica