03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Heilbrigðiskerfið endurhannað og svo kom blessað stríðið. Þröstur Haraldsson

110 árgangar þriðja elsta tímarits landsmanna skannaðir

Þegar við staðnæmdust í þessari yfirreið yfir 110 ára feril Læknablaðsins í byrjun febrúar var kreppan mikla skollin á, atvinnuleysi í algleymingi og landslýður á hraðri ferð úr þúfnakollum sveitarinnar í þéttbýlið á ströndinni. Ljósir punktar voru fáir, en þó ber að nefna að berklarnir voru á undanhaldi, dauðsföllum af þeirra völdum fór fækkandi en smit voru enn töluverð og úrræði fá. Jónas frá Hriflu var orðinn heldur slakari og samskipti komin í eðlilegt horf milli læknafélaganna og þeirra vinanna, ráðherra og landlæknis. Nú var tími kominn til að taka höndum saman og reisa heilbrigðis- og velferðarkerfið úr öskustónni.

Og það gerðist, merkilegt nokk.

Starfssvið lækna breytist

Árið 1936 var merkisár hvað það varðaði, en þá afgreiddi Alþingi lög um almannatryggingar og setti á fót stofnun til þess að annast um þær. Blekið var þó tæpast þornað á þeim lögum þegar þingmenn og fleiri sáu ástæðu til þess að taka það til endurskoðunar. Árið 1937 var þeirri yfirferð lokið og nú lifðu lögin óáreitt til 1943 en þá höfðu þau hlotið allsherjarskoðun og var breytt allnokkuð. Í krafti þessara lagasetninga gerði Læknafélag Reykjavíkur fyrsta samninginn við Sjúkrasamlag Reykjavíkur snemma árs 1937 og var hann framlengdur árið eftir. Samlagið hafði raunar verið til frá 1909 en enginn var skyldur til að vera þar og voru það einkum velmegandi sem þar voru. Skylduaðild var ekki sett á fyrr en 1951.

Svona sér Júlíus Sigurjónsson fyrir sér skipulag heilbrigðiskerfisins árið 1939 en honum er heilsuvernd sérlega hugleikin. Mynd úr 2. tölublaði 1939, bls. 24.

Þessu fylgdu ýmsar breytingar fyrir læknastéttina og að sjálfsögðu einnig sjúklinga hennar. Um þær er mikið fjallað í Læknablaðinu og skiptar skoðanir rétt eins og í dag. Helgi Tómasson ritstjóri er ekki alveg á því að sjúkrasamlög séu málið, betra væri að fólk gerði beinan tryggingasamning við sinn lækni og tryggði sér þjónustu hans þegar og ef heilsan tæki að bila. Júlíus Sigurjónsson ritnefndarmaður bendir á í grein að nú séu að verða grundvallarbreytingar á starfssviði íslenskra lækna. Nú verði meginstarfi þeirra fólginn í forvörnum og heilsuvernd en beinar lækningar víki, „preventive medicin“ í mótsögn við „curative medicin“ eins og hann orðar það og bætir við: „Það er löngu viðurkent, að enda þótt lækningastarfsemi í þrengri merkingu … sé mjög mikilsverð, sé þó hitt enn þýðingarmeira, að koma í veg fyrir það að fólk sýkist, vernda heilsuna.“

Búmenn barma sér

Þessi umræða er í fullum gangi langt fram eftir þessum áratug sem hér er undir og mér sýnist sumt af því sem þar er velt upp sé enn óútkljáð í íslenskri heilbrigðisumræðu. En þarna er farið að hilla undir nýjan aðsteðjandi vanda sem nefndur hefur verið síðari heimsstyrjöld (og er vonandi réttnefni). Áður en hún skellur á þarf þó að tryggja Læknablaðinu framhaldslíf. Það má glöggt sjá á síðum blaðsins að á ýmsu hefur gengið í þeim slag: tölublöðum fækkar og þau verða þynnri. Snemma árs 1938 er fjallað um þessi vandræði á síðum blaðsins, sem telja má óvenjulegt því ritstjórn virðist ekki hafa tilhneigingu til að barma sér þótt tíðin sé ströng. En nú segir ritstjórnin að eins og lesendum sé kunngt hafi verið misbrestur á því að blaðið kæmi reglulega út. Fyrir því séu ýmsar ástæður:

„Fjárhagur blaðsins hefir verið mjög þröngur um langt skeið, innheimta gengið fremur treglega, lítið efni hefir borist að í blaðið, og hefir alt þetta torveldað mjög útgáfuna.“ Ritstjórn hafi rætt þetta og tekið upp á fundum lækna tillögur sem þar hafi verið samþykktar. Þær gera ráð fyrir að Félagsprentsmiðjan gerist forleggjari og sjái um útsendingu, auglýsingaöflun og innheimtu. Ritstjórn ábyrgist nóg efni til þess að blaðið komi út 10-12 sinnum á ári, ein örk (16 efnissíður) í hvert sinn. „Blaðið verður nú sent öllum læknum, er til næst, án tillits til þess, hvort þeir hafa áður verið skilvísir kaupendur eða eigi, og er þess vænst, að þeir, sem eigi æskja að gerast kaupendur, endursendi blaðið.“

Ferðist innanlands og etið gróft brauð

Þetta gengur eftir og smám saman verður blaðið traustara í sessi, þótt enn sé nokkuð rjátl á útgáfutíðni og dagsetningum. Það líður rúmt ár þangað til breytt tilhögun á útgáfu skilar sér í fjölgun auglýsinga. Það gerist ekki fyrr en haustið 1939 þegar kápusíðum (í öðrum lit en efnissíðurnar) fjölgar og verða auglýsingasíður jafnmargar og efnissíður, 16 talsins. Og það eru ekki bara auglýst lyf og lækningatæki. Alls kyns fyrirtæki iðnaðarmanna og málaflutningsmanna eru áberandi en einnig stórfyrirtæki, einkarekin og opinber, sem kjósa að vekja athygli lækna á þeirri þjónustu sem þau hafa þeim til reiðu.

Meðal þessara fyrirtækja eru tvö skipafélög, Skipaútgerð ríkisins segir þar: „Í sumar eyða allir sumarfríinu innanlands. Ferðist með Esju kringum landið.“ Og Eimskip: „Verið sannir Íslendingar með því að ferðast jafnan með Fossunum og látið Eimskip annast alla vöruflutninga yðar.“ Kol og rafmagn virðast eiga í markaðsstríði og Sveinabakaríið á Vesturgötu fær Jónas Kristjánsson lækni til þess að votta að brauðin þeirra „… innihalda grófara mjölefni, en það er einn höfuðkostur brauðs yfirleitt. Get eg því mælt með þessum brauðum.“

Stríðið ruglar útgáfuryþmann

En nú er komið stríð, þótt ekki sé mikið verið að fást um það í Læknablaðinu. Ég sé hvergi minnst á það fyrr en í blaði sem dagsett er í mars 1940 en þá er „det til September planlagte Nordiske Møde i København“ (já auglýsingin er birt á dönsku) aflýst vegna „ríkjandi aðstæðna“. Þær eru ekki tíundaðar frekar en helgast væntanlega af hernámi Þjóðverja á Danmörku og Noreg þetta vor. Dagsetningar á útgáfu blaðsins eru dálítið á reiki á þessum tíma, blöðin eru tölusett en ekki dagsett svo erfitt er að átta sig á hvenær nákvæmlega þau koma út. Þegar líður á stríðið er viðmið árganga ekki almanaksárið því árgangarnir eru merktir 1942-43 og 1943-44. Strax og stríði lýkur kemst meiri regla á útgáfuna. En í sjálfu sér er ekki mikið fjallað um stríðið í þessu blaði, þótt eflaust hafi ófriðurinn haft margskonar áhrif á blaðaútgáfu, sem og aðra starfsemi í landinu þessi misseri. Bein áhrif stríðsins sjást helst í tveimur greinum um bráðalækningar sem skrifaðar eru, önnur af breskum og hin af bandarískum herlæknum.

Verðbólga er einn fylgifiskur stríðs og ritstjórn neyðist til að tilkynna tvöföldun á verði blaðsins, árgangurinn hækkar úr 25 krónur í 50 fyrir lækna og úr 5 í 10 krónur fyrir læknanema.

Sulfa og sexualhormon

Læknafélagið reynir líka að halda námskeið fyrir lækna sem komast ekki í framhaldsnám utanlands vegna stríðsátakanna, en af einhverjum ástæðum er aðsókn að því svo lítil að það fellur niður. Guðmundur Hannesson sér hins vegar ýmislegt jákvætt í tilverunni eins og þessi frétt sýnir vel:

„Þó að ófriðurinn geysi og allt gangi af göflunum halda vísindin látlaust áfram sinni friðsamlegu sigurför, en um þessar mundir eru fréttirnar fáar og erfitt að vita hvað gerist,“ segir hann í dálki um efni erlendra læknarita sem að öðru leyti fjallar um nýjungarnar „örsjá (ultra mikroskop)“ og „elektronasmásjá“ þar sem ekki er beitt ljósgeislum heldur „elektronastraumum eða geislum sem beygja má á líkan hátt og ljósgeisla“. Nefnir hann þetta „huliðssjá“ og séu þær „notaðar mjög við rannsóknir á huldusýklum“.

Fræðigreinar eru að sjálfsögðu meginefni blaðsins þá sem fyrr og síðar. Þær fjalla um ýmsar nýjungar aðrar en örsjár. Til dæmis eru sulfalyf greinilega að ryðja sér til rúms því um þau er fjallað í nokkrum greinum. Í einni grein guma læknar af því að barnadauði sé í frjálsu falli hér á landi. Einnig er greint frá því að nú hafi menn í Ameríku fundið aðferð til þess að ákvarða faðerni barna með blóðrannsóknum. Og nú ku hægt að lækna kvensjúkdóma með „sexualhormon-lækningum“ að sögn Árna Péturssonar.

Annað minnir okkur á að fíkn í flótta frá hvunndeginum er ekki nýtt fyrirbæri. Kristinn Stefánsson ritar varnaðarorð um óhóflega notkun Benzedrinsulfats sem og að það sé notað ásamt svefnlyfjum. „Bendir þetta til þess, að til séu lyfjaætur sem vaki og sofi á lyfjum. Ætla mætti að þeim hinum sömu væri hollara að vaka og sofa án lyfja.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica