03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknavarpið: Nýr hlaðvarpsþáttur um geðskoðun

„Geðskoðun getur tekið stutta stund eða verið partur af löngu viðtali þar sem að hlutirnir eru smám saman að tínast til. Maður þarf að ræða vissa hluti lengur og aðra skemur eftir því hvert tilefnið er,“ sagði Magnús Haraldsson, geðlæknir á geðsviði Landspítala, þegar hann fór ítarlega yfir klíníska skoðun og aðferðafræði við geðskoðun í Læknavarpinu – hlaðvarpi Læknablaðsins.

Læknavarpið · Engilbert, Magnús og Tómas: Farið í saumana á geðskoðun

Grein Magnúsar í desemberhefti Læknablaðsins var þar rædd í þaula. Með Magnúsi voru Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði og Tómas Hrafn Ágústsson, sérnámslæknir í geðlækningum. Læknablaðið fetaði með þessu nýjar slóðir í hlaðvarpsgerð sinni. Áherslan var á leiðbeiningarnar en þó einnig á viðmælendurna, nám þeirra og störf. Engilbert stýrði einnig þættinum með Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur blaðamanni Læknablaðsins.

Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði, Magnús Haraldsson, geðlæknir á geðsviði Landspítala, og Tómas Hrafn Ágústsson, sérnámslæknir í geðlækningum. Mynd/gag

„Hlaðvarpið nýtist nemendum til þess að skilja betur hvers vegna við erum að spyrja ákveðinna spurninga þegar við gerum geðskoðun,“ segir Engilbert sem vísaði nemendum sínum á þáttinn í kennslu. Hann segir þetta einnig nýtast þeim sem hafi lært erlendis til að fá orðaforðann.

„Svona þáttur nýtist yngra fólki en einnig fólki úr öðrum stéttum, svo sem hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum og félagsráðgjöfum sem koma í teymisvinnu innan geðþjónustunnar.“

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica