03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Efnaskipta- og offituteymi Reykjalundar fær vottun fyrir fagmennsku

Reykjalundur hefur fengið viðurkenningu evrópsku samtakanna, EASO, European Association for the Study of Obesity, fyrir faglegt starf sitt við meðferð á offitu. Guðrún Þuríður Höskuldsdóttir, yfirlæknir efnaskipta- og offituteymis Reykjalundar, segir að hún hafi fljótt séð að stofnunin uppfyllti skilyrðin þegar hún kom frá Sahlgrenska í september

Teymið á Reykjalundi: Fremri röð: Arnar Már Ármannsson sjúkraþjálfari, Guðlaugur Birgisson sjúkraþjálfari, Rakel María Oddsdóttir félagsráðgjafi, Magnína Magnúsdóttir ritari, Guðrún Jóna Bragadóttir næringarfræðingur, Helma Rut Einarsdóttir sálfræðingur, Olga Björk Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og teymisstjóri, Hildur Thors læknir, Guðrún Þuríður Höskuldsdóttir læknir. Miðju röð: Jórunn Edda Óskarsdóttir sálfræðingur, Karen Björg Gunnarsdóttir iðjuþjálfi, Helga Guðrún Friðþjófsdóttir næringarfræðingur. Aftast: Hjalti Kristjánsson heilsuþjálfari og Þóra Birna Pétursdóttir ritari. Mynd/Reykjalundur

„Staðlar þessara evrópsku samtaka eru strangir og mikilvægt að geta sýnt fram á þverfaglega nálgun þegar við sinnum fólki með alvarlega offitu. Einnig að við höfum aðgang að vissum fagstéttum, eins og skurðlæknum fyrir utan teymið sjálft. Þá þarf aðbúnaður að passa fólki með alvarlega offitu,“ lýsir Guðrún en viðurkenninguna fengu þau 1. febrúar.

Reykjalundur er með viðurkenningunni komin í hóp með Heilsuskólanum á Barnaspítalanum og Minni bestu heilsu. „Viðurkenningin er hluti af því að styrkja starfsemi teymisins en það hefur verið í þróun í mörg ár og mikilvægt viðhalda því góða starfi sem hér er unnið.“ Umsóknarferlið hafi verið ítarlegt.

„Þetta var frábær leið fyrir mig til að kynnast teyminu – skoða hvern og einn – þeirra reynslu, menntun og þekkingu,“ segir Guðrún sem hefur nú starfað á Reykjalundi í hálft ár eftir rúman áratug í Svíþjóð þar sem hún lærði lyflækningar og innkirtlalækningar og starfaði á offitumóttökunni á Sahlgrenska. Hún segir rannsóknarvinnu teymisins þegar að aukast.

„Við erum með rannsóknartengingu við háskóla hér á Íslandi og í Gautaborg; höfum hér rannsóknarstjóra á Reykjalundi og erum með doktorsnema í húsinu. Við sinnum kennslu nema í grunn- og mastersnámi Við höfum einnig skrifað kafla um offitu í handbók í lyflæknisfræði.“ Mikilvægt sé að teymið komi að kennslu, fræðslu og rannsóknarvinnu.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica