02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Kristján Godsk Rögnvaldsson

Kristján Godsk Rögnvaldsson varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands þann 17. nóvember síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið: Samfélagslungnabólga meðal fullorðinna: Rannsóknir á völdum þáttum sem tengjast horfum og lifun.

Andmælendur voru Jan Kristian Damås, prófessor við NTNU í Þrándheimi og St. Olavs háskólasjúkrahúsið, og Pernille Ravn, yfirlæknir og klínískur dósent við Herlev og Gentofte sjúkrahúsið og Kaupmannahafnarháskóla. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Magnús Gottfreðsson, sérfræðilæknir og prófessor, og meðleiðbeinandi var Agnar Bjarnason, sérfræðilæknir og lektor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Aðalsteinn Guðmundsson, sérfræðilæknir, Inga Sif Ólafsdóttir, sérfræðilæknir og lektor, og Kristján Orri Helgason, sérfræðilæknir.

Úr ágripinu

Samfélagslungnabólga er alvarlegur og algengur sjúkdómur sem getur þó verið erfitt að greina, sérstaklega meðal aldraðra. Skortur er á rannsóknum sem bera saman þá sem eru með einkenni lungnabólgu en án greinilegra íferða á lungnamynd við hina, sem eru með staðfesta lungnabólgu á lungnamynd. Sumar fyrri rannsóknir hafa bent til þess að gjöf asetýlsalicýlsýru (ASA) tengist lægri tíðni dauðsfalla í kjölfar lungnabólgu en aðrar ekki. Nýir meinvaldar lungnabólgu geta skyndilega sprottið fram, eins og gerðist í heimsfaraldri SARS-CoV-2, sem mikilvægt er að rannsaka. Upplýsingar skortir um tengsl kæfisvefns við tilurð alvarlegrar COVID-19 lungnabólgu. Þrjú aðskilin gagnasöfn voru notuð í doktorsverkefninu.

 

Mynd/Gunnar Sverrisson

Doktorinn

Kristján Godsk Rögnvaldsson er stúdent af náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri. Hann lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2015. Doktorsnám hans við HÍ hófst 2018. Meðfram námi sinnti Kristján stundakennslu við HÍ og vann á sýkla- og veirufræðideild Landspítala frá því í ágúst 2022. Kristján hefur nú hafið sérnám í sýkla- og veirufræði við Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn.

Hvað segir nýdoktorinn?

Af hverju vildir þú verða læknir?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á vísindum og þá sérstaklega náttúruvísindum og líffræði, en ég hef einnig haft ánægju af því að eiga í samskiptum við fólk. Læknisfræðin var því mjög góð leið til þess að sameina þetta.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Ég myndi segja 8-9 á VAS. Ég var heppinn að hafa mjög góða leiðbeinendur og doktorsnefnd, annars hefði þetta verið mun erfiðara.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Ég myndi ganga strax í það að leggja drög að nýju jólagjafaskema fyrir starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins fyrir næstu 10 árin. Starfsfólk ráðuneytisins fengi sömu jólagjafir næstu 10 árin og starfsmenn Landspítala fengu jólin 2012 til 2022. Einnig myndi ég beita mér fyrir betri fjármögnun opinbera heilbrigðiskerfisins á Íslandi og sanngjarnari launum tekjulægri heilbrigðisstarfsmanna.

Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?

Þessa dagana er bókin: Bangsímon: Ég finn hunangslykt í miklum metum á heimilinu, sem sést á útliti hennar, margteipuð vegna vinsælda.

Enn sem komið er hefur mér ekki tekist að gera prumpulag Dr. Gunna að hittara á heimilinu, en þar sem sonur okkar er bara 15 mánaða, tel ég nægan tíma vera til stefnu. Enda hefur doktorsnámið kennt mér að örvænta ekki þó að vísindagreinar (eða lög) fljúgi ekki inn í fyrstu tilraun.

Ytri barnsburður er sú líkamsrækt sem mest er stunduð hér á heimilinu, sonur okkar telur að það sé hans skylda að halda foreldrunum í formi með því að krefjast upplyftingar við hvert tækifæri.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Eyða tíma með fjölskyldu og vinum.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica