02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Dagur í lífi læknis. Oddný Brattberg Gunnarsdóttir

Það er mánudagur í janúar og ég vakna við vekjaraklukku betri helmingsins kl. 7. Hef reyndar verið að rumska undanfarinn hálftíma þar sem hann er mikill snúsari og er eiginlega búinn að smita mig af því. Mér finnst alltaf jafn erfitt að vakna. Þegar ég var 6 ára og var vakin að morgni fyrsta skóladagsins sem ég hafði beðið með eftirvæntingu í marga mánuði, þá spurði pabbi mig hvort við ættum kannski bara að fresta skólanum um eitt ár. Ég sagði hiklaust já og var tilbúin að sofa áfram.

Eftir baráttuna við svefninn er ég tilbúin í verkefni dagsins. Fer í sturtu og fæ mér Cheerios. Þessi misseri er ég í rannsóknarleyfi frá Landspítala og er því ekki í hefðbundinni spítalavinnu þó ég skuldbindi mig til þess að taka vaktir. Það kemur vissulega niður á rannsóknarvinnunni en kemur sér þó vel í ljósi hárra stýrivaxta.


Kynning á veggspjaldi á Nordic-Baltic Congress of Cardiology í Hörpu 2023. Myndina tók faðir minn,
Gunnar Þór Gunnarsson hjartalæknir.

Ég er með vinnuaðstöðu í Turninum í Kópavogi og keyri því á móti umferð úr nýja Vogahverfinu. Það þarf lítið til að gleðja. Hringi í nokkra tugi þátttakenda og tilkynni þeim niðurstöður úr rannsóknum. Það tekur alltaf lengri tíma en ég geri ráð fyrir, enda mikilvægt að veita þeim góðar útskýringar og ráðleggingar.

Ekkert nesti í dag svo ég rölti og kaupi mér hádegismat og fæ frískt loft í leiðinni. Ég enda í menningarmiðstöðinni Smáralind, einstaklega frískt loftið þar. Kaupi eina afmælisgjöf í leiðinni.

Áfram með smjörið. Fer aftur upp í Turn, les úr hjartaómskoðunum og hlusta á Rás 2. Engar áhyggjur, það fara hjartalæknar yfir ómskoðanirnar frá mér aftur til að ganga úr skugga um að mælingar stemmi. Fer heim kl. 16, aftur á móti umferð. Tek smá göngutúr um Elliðaárósa. Ætli þetta sé glaðasti hundur í heimi sem ég sé hlaupa frjálsan um Geirsnefið? Ég leggst upp í sófa og horfi á einn þátt. Kærastinn eldar í kvöld. Horfum á fréttir, fyrst á Stöð tvö og svo á RÚV.

Mig dauðlangar að horfa á annan þátt en ég á svokallaða Diskóvakt í Fossvogi. Hún stendur frá kl. 20:00-04:00 og felur helst í sér að leggja inn sjúklinga af bráðamóttökunni sem þarfnast innlagnar á lyflækningasvið. Frábærir kollegar eru með mér á vaktinni, tveir aðrir sérnámslæknar og einn sérnámsgrunnslæknir. Innlagnarbeiðnir frá læknum bráðamóttökunnar hrannast inn. Ég legg inn bráðveikan sjúkling með hjartabilun, bráðan nýrnaskaða og öndunarfærasýkingu. Sjúklingurinn reynist vera með alvarlega efnaskiptasýringu og er með 7 í kalíum. Ræði við reyndari sérnámslækni sem er alltaf með góð ráð. Við fáum álit gjörgæslulækna og leggjum upp meðferðaráætlun. Ég næ þremur innlögnum til viðbótar en met einn þannig að hann þarfnist ekki innlagnar heldur dugi endurkoma á bráðadagdeild lyflækninga.

Klukkan er 04:00 og ég keyri heim í glerhálku. Ljósakransar sem hanga í gluggum eftir jólin minna mig á ómmyndir af hjarta í þversniði. Ég leggst á koddann og ætla að sofa til hádegis.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica