02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Bókin mín. Hringadróttinssaga eftir JRR Tolkien. Helga Hansdóttir

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Ein eftirminnilegasta minning mín af bókalestri er lestur Hringadróttinssögu. Ég kynntist bókinni fyrst í Stokkhólmi 1979 en þar vann ég sumarið eftir stúdentspróf við garðahreinsun í kirkjugarði. Ég las bókina á tveimur vikum, ég las í strætó á leiðinni í vinnuna í pásum og öll kvöld þar til ég fór að sofa. Ég endurtók svo leikinn, rúmlega 20 árum síðar þegar ég var heima að sinna nýfæddu barni.

Fyrsta bókin lýsir hobbitum, þeirra bæ, bæjarlífi og menningu þeirra og leiðir mann síðan í ferðalag með Fróða og félögum út fyrir hinn kunnuglega heim, huggulegan og öruggan í heim sem ógn hvílir yfir. Hver kafli er eins og sjálfstæð saga af furðuverum og þeirra sögu. Þar skipta smáatriðin mestu máli, náttúrulýsingar og sögur af verunum, þeirra forsendum og hlutverki í stóru myndinni.



Tolkien (1892-1973) bókmenntaprófessor í Oxford bjó til veröldina þar sem saga Hobbitans (1937) og bálkurinn um Hringadróttin (1954) gerast. Kápurnar á útgáfu Fjölva gerði Haukur Halldórsson.

Ég las síðan sögurnar allar fyrir son minn og var gaman að fylgjast með litlum dreng upplifa þetta allt, spenntur fyrir bardögunum og baráttunni, hrifinn af vopnunum og ekki síst Legolasi, álfinum, sem skotið gat af boga hraðar en augað gat greint. Eldri sonurinn gat rætt við hann um bardagasenur og vopn, en ég hafði meiri áhuga á sögum veranna og menningu þeirra. Það var gaman að fletta upp í Snorra-Eddu og finna lýsingu á dvergunum sem eru fyrirmyndir dverganna í sögunum, sýna syninum að í fornsögum getur leynst ýmislegt áhugavert.

Heimsmyndin frá upphafi birtist svo í Silmarillion, bók sem Tolkien náði ekki að klára en var gefin út undir leiðsögn sonar hans. Bókin hefst á sköpun heimsins og rekur söguna fram að þeim atburðum sem eiga sér stað í Hobbitanum og síðar Hringadróttinssögu. Hann byggir heim sinn á yfirgripsmikilli þekkingu á fornsögum, menningu og tungumálum og skapaði hann nýtt tungumál, álfamál, með letri sem líkist arabísku og er fallegt og exotískt, hæfandi álfunum. Sköpun heimsins hefst með því að alfaðir hugsar upp verur/engla sem semja tónlist og með söngnum verður veröldin til. Tónlistin býr til veröldina og er skynjuð sem ljós.

Ég las bók um daginn eftir Brian Green, The Fabric of the Universe. Þar er fjallað um strengjakenninguna sem er stærðfræðileg kenning til að skýra vandamálið af hverju ljós hagar sér bæði eins og eind og sem bylgja, ef ég skil það rétt. Sú hugsun að bylgjur í tónum og bylgjur í strengjum séu grundvallarþættir í veröldinni þótti mér falleg. Þótt augljóslega sé saga Tolkiens skáldsaga, byggir hann hugmyndir sínar og sögur á goðsögum fornaldar og hugmyndasögu, hvernig forfeður okkar sáu og skildu veröldina og útskýrðu hvert fyrir öðru. Ekki er loku fyrir það skotið að hann hafi haft þekkingu á nútímaeðlisfræði, en strengjakenningin kom þó fram eftir hans dag.

Eitt aðal þema sögunnar er barátta góðs og ills sem endar með sigri þess góða að mestu, en hið illa breytir um form og verður smærra og blandaðra daglegum hlutum eins og við þekkjum nú á dögum. Hugmyndir um hið illa hafa oft tengst hnignun og dauða, sem eru eðlileg fyrirbrigði og nauðsynleg í náttúrunni til að veita rými fyrir nýtt líf. Nú á dögum hugsa ég að flestir hugsi um jafnvægið í náttúrunni, hvernig tegundum er haldið í skefjum með lífsbaráttunni, ekki sem eitthvað, vont og dauða, ekki sem eitthvað illt, þó svo að það valdi þjáningum. Hið illa er frekar hugsað sem siðferðileg illska, það að skaða aðra viljandi.

Ég rakst á áhugaverða hugsun í einni af þeim mörgu bókum um heimsfræði og guðfræði sem ég hef lesið en man reyndar ekki hvar. Höfundur benti á að það sem er illt muni alltaf eyða sjálfu sér því það er engin uppbygging sem fylgir illskunni. Mér líkað vel við þessa skýringu og hugsaði til Mordor, það var varla nein matarframleiðsla þar því öllum gróðri var eytt og hefði því ekki getað sigrað. Ef hugsað er í yin og yang jafnast út uppbygging og niðurbrot, líf og dauði, gott og vont, ljós og myrkur í stöðugri hringrás.

Kannski ég byrji aftur uppá nýtt ...

Ég skora á Salóme Ástu Arnardóttur heimilislækni að segja sína bókmenntasögu.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica