02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Baksýnisspegill landsbyggðarlæknis. Konráð Lúðvíksson

Ég endaði starfsferil minn á HVE Akranesi sem yfirlæknir fæðinga- og kvensjúkdómadeildar 71 árs að aldri, umvafinn mannkærleika, fagmennsku og vináttu sem þar réð ríkjum. Hafði fengið til liðs við mig kollega til að halda áfram vegferðinni og kvaddi sáttur eftir tæplega 9 ára þjónustu við þá góðu stofnun. Ferillinn þangað óneitanlega oft í ölduróti, allt frá því ég sótti um starf á Sjúkrahúsi Keflavíkur 1983 með þrá fyrir heimahögum og takmörkuðum tækifærum í sérgreininni. Prófessor Sigurður Magnússon, örlagavaldur minn, lagði áherslu á að sérhæfni vantaði í meðferð við kvillum í neðri þvagvegum kvenna, eins og þvagleka og sigum af ýmsum toga. Því beindist sérnám mitt í Örebro í Svíþjóð að þessum þáttum á árunum 1977-1984.

Sjúkrahús Keflavíkur auglýsti í fyrsta sinn eftir sérfræðingi í kvensjúkdómum og fæðingarfræði, þar sem mæðravernd og kvensjúkdómum hafði fram að þessu verið sinnt af farandsérfræðingum og skurðaðgerðir í höndum yfirlæknis sjúkrahússins. Tíðni burðarmálsdauða var óásættanlega há. Skurðstofa var ein á miðjum gangi, sem lykill í skrá lokaði frá umhverfinu. Bygging þjónustukjarna og heilsugæslu stóð yfir og mér bauðst að taka þátt í mótun mæðraverndar og móttöku kvenna. Keflavík var ekki beinlínis aðlaðandi staður að mæta með unga fjölskyldu, atvinnuleysi mikið, fiskibátar farnir, pólitísk valdabarátta 7 sveitafélaga innan veggja sjúkrahússins, sem stöðugt barðist fyrir fjárhagslegri tilvist sinni. Návist hersins á Keflavíkurflugvelli mótaði menningu og siðferði staðarins um árabil með kostum og göllum.

Þessi 9 ára stúlka mætti allt í einu með föður sínum þar sem ég var við veiðar í Bjarnarfjarðará á Ströndum til að þakka tilvist sína.

Námsárin í Örebro voru lærdómsrík, fæðingafræðin drifin áfram í skjóli tækniframfara með ákalli á sársaukalausa og örugga fæðingu með lægstu tíðni burðarmálsdauða. Gagnrýnisraddir kölluðu fræðina vélræna í lokuðu umhverfi, þar sem verðandi feður væru útilokaðir á fæðingarstofu, nýburar geymdir í glerbúrum og tilfinningatengsl móður og fjölskyldu tíðum rofin. Vel kominn til Suðurnesja var stax lögð áhersla á opna heimilislega fæðingardeild að því marki sem hægt var, með öryggi að leiðarljósi. Við yfirljósmóðirin vorum samstíga í okkar gjörðum að mæta skjólstæðingum öllum með virðingu og kærleika. Fæðingum fjölgaði hratt og þegar best lét, fæddu 94% kvenna af svæðinu í heimabyggð og margar komu annars staðar frá. Við vorum önnur stærsta fæðingardeild á landsbyggðinni, á eftir Akureyri, þrátt fyrir að sólarhringsvaktir á skurðstofu væru tíðum ófullkomnar. Fastráðinn svæfingalæknir bjó aðeins tímabundið hér í Keflavík, annars á höfuðborgarsvæðinu. Hreiðrið á kvennadeild Landspítala var síðar opnað, trúlega að þessari fyrirmynd. Við byggðum nýja skurðstofuálmu í gamla sjúkrahúsinu og fjölguðum skurðstofum um eina. Á gullaldarárum iðaði mannlífið af grænklæddu fólki á öllum göngum sjúkrahússins, með sjö mismunandi sérfræðigreinum á skurðlæknissviði.

Vaktabyrði einyrkjans einkenndist í byrjun af stöðugri viðveru og nánast uppbúnu rúmi á fæðingardeild, og fríum, byggðum á afleysingum erlendis frá. Áhugamálin tengdust gróðri og garðyrkju í nærumhverfinu til að hvíla hugann. Skórnir voru ekki alltaf hreinir, þegar útkall á fæðingardeildina bar brátt að.

Smám saman barst liðsauki. Þegar best lét vorum við hér þrír kvensjúkdómalæknar starfandi, sem deildum með okkur vöktum ásamt skurðlæknum við stofnunina. Á þessum tíma fékkst tækifæri til frekara náms í undirsérgrein minni, tengdu vandamálum í neðri þvagvegum kvenna og innleiðingu nýrra aðgerða þeim tengdum. Einnig kviðsjáraðgerðum með samvaxtalosunum og endurtengingum á rofnum eggjaleiðurum. Ég fékk líka tækifæri til félagsstarfa. Var formaður míns sérgreinarfélags og fulltrúi þess á norrænum vettvangi um árabil, takandi þátt sem stjórnarmaður í NFOG ráðstefnum. Skipulagði tvær ráðstefnur á vegum NUGA (Nordisk Urogynekolosgisk Arbetsgrupp), þá fyrri í Keflavík 1992 og fékk heiðursnafnbót fyrir mín störf þar. Kenndi við hjúkrunarskólann og læknadeild. Var um árabil formaður Krabbameinsfélags Suðurnesja, Skógræktarfélags Suðurnesja og er formaður Garðyrkjufélags Suðurnesja frá upphafi. Hef verið Rótarýfélagi frá 1987 og tvívegis forseti í þeim klúbbi.

Sérgrein mín hefur ávallt heillað mig. Líf sem birtist af fræi er mér enn hvati. Starfsferillinn, allt fram á lognið á Akranesi, háður ölduróti mannlegs samfélags, þar sem áföll hafa verið tíð, svo sem brotthvarf hersins sem skildi eftir sig 600 atvinnulausa einstaklinga, brotthvarf allra heilsugæslulækna af Suðurnesjum í réttindabaráttu sinni 2002, og síðan en ekki síst lokun þriggja nýbyggðra skurðstofa í nýrri D-álmu 2010 í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Harmleikur Grindavíkur enn ein holskeflan fyrir samfélagið. Mér brást um stund kjarkur, en náði áttum, við ný tækifæri í faðmi samstarfsfólks, allfjarri heimahögum. Er nú skógarbóndi á Fellsströnd, bý á sama stað í Keflavík með sömu konu, börn mín þrjú, öll föðurbetrungar og á von á níunda barnabarninu.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica