02. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
„Læknar vilja og eiga að vera með við ákvarðanatöku“ - formaður og framkvæmdastjóri LÍ tjá sig
„Við erum fyrst og fremst með hagsmuni sjúklinga í huga,“ segir formaður Læknafélags Íslands þegar hún segir lífsspursmál fyrir heilbrigðiskerfið að læknar séu hluti af lausn vanda þess. Læknar upplifi samráðsleysi við stéttina. Drög að breyttum lyfjalögum séu skýrt dæmi. Framkvæmdastjóri félagsins segir mörgum læknum finnast að með markvissum hætti sé verið að afmá starfstitilinn læknir úr lögum
„Það er lífsspursmál fyrir heilbrigðiskerfið að snúa þessari þróun við,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins. Læknar eru áhyggjufullir yfir samráðsleysi við sig. Breytingar eru boðaðar á störfum þeirra án aðkomu þeirra og vægi þeirra minnkað. Nú síðast við gerð frumvarps til laga um breytingu á lyfjalögum sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda síðastliðið haust.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, og Dögg Pálsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, ræða þá upplifun lækna að æ minna samráð sé haft við þá við mótun heilbrigðiskerfisins og störfin innan þess. Mynd/gag
„Við stöndum frammi fyrir áður óþekktum áskorunum. Það hefur aldrei verið jafn mikið álag á kerfinu okkar og við höfum sjaldan eða aldrei staðið frammi fyrir jafnstórum vandamálum eins og núna. Ef við ætlum ekki að nýta yfirgripsmikla menntun og reynslu lækna í að vera hluti af lausninni, veit ég ekki hvernig við endum,“ segir Steinunn.
Læknafélagið gagnrýnir í umsögn sinni við drög að frumvarpi til laga um breytingu á lyfjalögum að þar skuli áformað að aðrar heilbrigðisstéttir fái að ávísa lyfjum og segir öryggi sjúklinga ógnað. Á sama tíma sé frumvarpið að mati lækna alvarleg atlaga að heimildum lækna til að ávísa lyfjum. Félagið bendir á að í greinargerð með frumvarpinu sé komið inn á vinnu við endurskoðun verkaskiptingar heilbrigðisstétta. Það viti ekki af þeirri vinnu og gagnrýnir að hafa enga aðkomu að henni, sé hún í gangi.
Félagið gagnrýnir þetta samráðsleysi nú þegar gerð sé tilraun til að útvíkka lyfjaávísanir og setja í hendur heilbrigðisráðherra að ákveða með reglugerð hver ávísi hverju sinni. Einnig hafi verið gerð lagabreyting fyrir örfáum árum þar sem hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum hafi verið veittar takmarkaðar heimildir til að ávísa hormónalyfjum. Engin úttekt hafi verið gerð á nauðsyn þess eða á reynslu af þeirri breytingu.
„Ávísun lyfja er eitt af þeim verkefnum sem tvímælalaust þarfnast sérþekkingar lækna, meðal annars á lyfjafræði, sjúkdómafræði og lífeðlisfræði,“ segir Steinunn. „Við upphaf hvers konar lyfja-meðferðar þarf læknir að taka tillit til margra einstaklingsbundinna þátta, auk þess að ákvarða hvernig eftirfylgd og endurskoðun lyfjagjafarinnar verði háttað.“
Skortur á samráði
„Í þessum drögum er farið í þungamiðju faglegra starfa okkar lækna og ávísun lyfja valin út sem tilvalin til útvistunar til annarra fagstétta án þess að hafa samráð við okkur. Við erum alltaf að minna á að fagfélag lækna er til staðar og tilbúið í samtalið. Það má alltaf heyra í okkur. Við erum alltaf tilbúin að vinna með stjórnvöldum, en það mætti hafa samband oftar,“ segir Steinunn.
Læknablaðið sest niður með Steinunni og Dögg Pálsdóttur, framkvæmdastjóra Læknafélagsins, í upphafi nýs árs. Ástæðan: sú upplifun lækna að litið sé framhjá því forystuhlutverki sem þeir óhjákvæmlega hafa í heilbrigðiskerfinu. Læknalög felld niður og sameinuð í lög um heilbrigðisstarfsmenn, þeir í sífellt meira mæli ekki nefndir og litið framhjá þeim. Lögbundin Læknaráð heilbrigðisstofnana lögð niður.
Dögg segir það upplifun margra lækna að með markvissum hætti virðist vera reynt að eyða orðinu læknir út úr lögum, þannig að í lögum standi aðeins orðið heilbrigðisstarfsmaður.
„Smátt og smátt virðist vera verið að setja eðlileg verkefni lækna í hendur annarra heilbrigðisstétta, verkefni sem aðrar heilbrigðisstéttir hafa oftar en ekki engar forsendur til að sinna,“ segir hún. Hún bendir á að áðurnefnt frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum galopna heimildir ráðherra til að leyfa öllum heilbrigðisstéttum að skrifa út lyf. Þessi ákvörðun hafi ekki verið nefnd einu orði við lækna.
„Þegar fulltrúar læknafélagsins spyrja svo á fundi með ráðherra í desember síðastliðnum hver hafi beðið um þessar breytingar þá koma engin svör.“
Dögg segir lækna þó að sjálfsögðu tilbúna til að skoða verkaskiptingu. „Læknar sinna ýmsum verkum sem þeir eru alltof dýr starfskraftur til að sinna. En það virðist ekki verið að hugsa um að þeir fái aðstoð við það heldur virðist tilhneigingin sú að reyna að færa hefðbundin læknastörf frá læknum til annarra heilbrigðisstétta, sem þær hafa hvorki menntun né forsendur til að sinna.“
Læknafélagið er ekki eitt um að berjast gegn verkaskiptingu sem gengur á verksvið lækna. Félagið bendir á að Alþjóðasamtök lækna, WMA, hafi lýst sérstökum áhyggjum af tilvikum þar sem svona vinna sé hafin án aðkomu lækna og samtaka þeirra. Aðeins eigi að ganga á hlutverk lækna í neyð og þá í samráði við þá.
Óumbeðin verkuppskipting
Steinunn segir hugtakið task shifting, sem við nefnum hér verkuppskiptingu, eitur í beinum lækna eins og það sé sett fram alþjóðlega. Það gangi út á að deila læknisverkum til annarra heilbrigðisstétta. Hún tekur undir orð Daggar um að skoða stuðning við störf lækna, svo þeir verji tímanum sem mest með sjúklingum og minnst við undirbúning og frágang heimsóknanna. Það sé hagur sjúklinga og skattgreiðenda.
„Hér á landi látum við læknana okkar sinna óendanlega mikilli skriffinnsku og allskonar verkefnum þar sem sérþekking læknanna nýtist lítið eða jafnvel ekkert. Þegar við bendum á það virðist vera ákveðin tilhneiging til að skoða helst möguleikana á því að létta af okkur verkum sem eru klárlega læknisverk og krefjast okkar sérhæfingar.“ Byrjað sé á röngum enda sem endurspeglist í áðurnefndu frumvarpi. Fái það framgang, geti ráðherra hverju sinni ákveðið hvaða heilbrigðisstéttir ávísi hvaða lyfi.
„Fyrir mér er þetta galið og næstum eins og ráðuneytið ákveddi að tanntæknar ættu að taka ákveðna jaxla en ekki tannlæknar,“ segir Steinunn. Nálgunin sé það skrítin.
Ekki sé viðurkennt að læknar þurfi að sitja við borðið þegar ákvarðanir séu teknar. „Svo er þetta klætt í þann búning að verið sé að bregðast við kvörtunum okkar um álag, sem er fjarstæðukennt,“ segir Steinunn.
„Á sama tíma hefur ekki verið létt af okkur þeim verkefnum sem við þurfum að losna við, eins og vottorðum út um hvippinn og hvappinn.“ Hvað þá að laga löngu úrelt rafrænt starfsumhverfi. „Það ætti að vera löngu búið að straumlínulaga tölvukerfi okkar svo þau vinni með okkur. Við eyðum miklum tíma og orku í þung vinnuskapandi kerfi, sem ættu að vera vinnusparandi og auka öryggi sjúklinga.“
Dögg nefnir að læknar séu dýrustu starfskraftar heilbrigðiskerfisins, með lengstu menntunina: 13 ár eða meira.
„Við erum alltaf að benda á að það eigi að hámarka tíma lækna, setja í kringum þá starfsmenn sem hafi það verkefni að flýta fyrir vinnu lækna, svo ná megi sem mestu út úr hverjum klukkutíma í starfi læknis í bein störf í þágu sjúklingsins.“ Læknar sem komi heim úr framhaldsnámi hafa vanist slíku vinnulagi en þurfi hér að verja dýrmætum tíma í margvíslegan undirbúning sem eðlilegt væri að fela öðrum starfsmönnum.
Vopnin tekin af læknum
Þær Steinunn og Dögg lýsa yfir áhyggjum af því að nú sé enginn læknir í föstu starfi í heilbrigðisráðuneytinu.
„Maður veltir því fyrir sér hvort til greina kæmi að endurhugsa skipurit ráðuneytisins til að tryggja faglega nærveru lækna; að það sé þarna staða, til dæmis fagstjóra lækninga, svo þau séu alltaf með þessa mikilvægu sérþekkingu innanhúss,“ segir Steinunn. Lækni sem geti kallað til viðeigandi ráðgefandi fagaðila hverju sinni.
„Það er grafalvarlegt að ekki sé tryggt að í það minnsta einn fastráðinn læknir sé í heilbrigðisráðuneytinu,“ segir formaðurinn. Þær segja félagið sakna Læknaráðs Landspítala. Afnám læknaráða hafi þaggað niður í læknum. Dögg segir að ólögbundið læknaráð Landspítala hafi ekki sama vægi og njóti ekki sama stuðnings og lögbundnu læknaráðin gerðu. Steinunn bætir við. „Þetta er spurning um vilja til að eiga samráð.“ Félag sjúkrahúslækna hafi tekið kyndilinn en standi þó í mótbyr.
„Þetta félag bað um fund með stjórn Landspítala og var hafnað.“ Félaginu hafi verið bent á fagráð spítalans. „Við lítum þann atburð mjög alvarlegum augum. Þarna er stjórn spítalans að neita að hlusta á rödd samtaka lækna innan stofnunarinnar. Læknaráð hefði getað farið fram á þennan fund. Læknar virðast þannig ekki hafa rödd gagnvart stjórninni aðra en áheyrnarfulltrúa starfsmanna.“
Dögg tekur við. „Ef ekki væru læknar værum við ekki með sjúkrahús. Við værum eingöngu með umönnunarstofnanir. Þorri þeirra sem leita til heilbrigðiskerfisins eru að leita eftir þjónustu lækna. Þetta er mikilvæg staðreynd sem mér finnst alltof oft horft framhjá.“
Steinunn segir lækna geta gefið nákvæmar útlistanir á því hvað þurfi að gera til að auka framleiðni lækna, nýta þekkingu þeirra sem best. „Það vantar samtal við fólkið á gólfinu alls staðar í kerfinu.“
Dögg segir að af samtölum sínum við lækna valdi mestri óánægju að hafa ekki nægilegt sjálfræði yfir starfi sínu og starfsaðstæðum. Það séu alltof oft einhverjir aðrir en læknarnir sjálfir sem ákveði hvernig þeir eigi að vinna störf sín og það þurfi jafnvel átök til að fá að vinna störfin eins og læknunum sjálfum finnst skynsamlegast. Steinunn nefnir að eins sé á heilsugæslunum. Tíma lækna þar sé oft stýrt af öðrum.
Læknar séu stjórnendur
Þær benda á að hver og einn sérfræðilæknir sé í raun stjórnandi. Enginn stýri læknismeðferð annar en þeir. „Læknar eru í meginatriðum þeir einu sem mega og eiga að greina sjúklinga og ákveða meðferð, þar á meðal lyfjameðferð,“ segir Dögg.
Hún bendir einnig á að í undirbúningi jafnlaunavottunar Landspítala hafi þessi mikilvægi þáttur í starfi lækna ekki endurspeglast nægilega vel og þessi stjórnun þeirra ekki verið metin sem raunveruleg stjórnun. Steinunn segir umhverfi lækna sem stjórnenda innan opinbera kerfisins krefjandi þar sem þeir beri ábyrgð en hafi oft takmörkuð raunveruleg völd, þá sérstaklega varðandi rekstur og ráðningar.
„Ef yfirlæknar eiga að vera skilvirkari stjórnendur þurfa þeir að vera í stjórnendateymi sem styður þá, hefur rekstrarþekkingu og mannauðsþekkingu.“ Þennan stuðning vanti. „Rannsóknir sýna að það er farsælt að læknar séu stjórnendur og við eigum að krefjast þess og stefna að því.“
Ekki sé gerð formleg krafa um kennslu í stjórnun í læknanáminu. „Við þurfum að breyta því og hvetja lækna til að fara í auknum mæli inn á þessa braut. Við þurfum sterka stjórnendur í hóp lækna.“
Steinunn er sannfærð um að þessi umræða um samráðsleysi einskorðist ekki við læknastéttina. „Við erum ekki í neinni sérstakri herferð til að auka okkar völd í hlutfalli við aðrar heilbrigðisstéttir,“ segir hún.
„Við erum hluti af hópi sem er að veita heilbrigðisþjónustu og finnst ekki hlustað nægilega vel á okkur. Það er synd. Það myndi gagnast þeim sem stýra kerfinu að hafa okkur með í ráðum oftar. Það er ekki spurning,“ segir Steinunn.
„Við erum fyrst og fremst með hagsmuni sjúklinga í huga og höfum metnað til að veita fyrsta flokks þjónustu. Við sitjum á ótal lausnum og leiðum til að auka samráð og væntum þess að þær verði nýttar.“