02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Skotskífan færð af starfsfólki á stofnanir, rætt við formann FSL

Lög um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana hafa nú verið samþykkt.
Formaður Félags sjúkrahúslækna segir málið ekki hafa haggast fyrr en núverandi heilbrigðisráðherra tók það upp á sína arma

Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk þurfa ekki lengur að óttast að verða dregin fyrir dóm vegna mistaka á spítölum. Alþingi hefur samþykkt frumvarp heilbrigðisráðherra um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika.

Theódór Skúli Sigurðsson sat í vinnuhópi heilbrigðisráðherra og fagnar lögum um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika. Mynd/gag

„Nú er hægt að bæta aðbúnað sjúklinga og starfsmanna og fyrirbyggja samskonar mistök með því að gera innri skoðun á atvikum án þess að þau gögn verði notuð í refsimálum,“ segir segir Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna. Hann var fulltrúi Landspítala í vinnuhópi sem heilbrigðisráðherra skipaði í maí 2022.

Markmið laganna er að efla öryggismenningu innan heilbrigðisþjónustunnar, fækka alvarlegum atvikum og skýra og auka réttaröryggi heilbrigðisstarfsfólks. Theódór lýsir mikilli vinnu á bakvið tjöldin. Skýrsla starfshóps frá árinu 2015 lá í skúffu þar til málið var aftur keyrt í gang fyrir tæpum tveimur árum.

„Þetta er ekki gallalaust frumvarp en það fór í gegn með því mikilvægasta: að hlutlæg refsiábyrgð yrði að veruleika.“ Theódór bendir á að stofnanir skapi sér nú refsiábyrgð ef starfsnefnd hefur gert athugasemdir við manneklu, vinnufyrir-komulag, aðbúnað eða tækjabúnað án þess að brugðist sé við þeim. „Ef ekki er brugðist við ábendingum stofnana teygir ábyrgðin sig upp stjórnkerfið.“

Theódór segir að nú beri Embætti landlæknis að ljúka rannsókn á alvarlegum atvikum á sex mánuðum. Því þurfi að gera það kleift. Stofnanir og Embætti landlæknis þurfi að útbúa skýrar verklagsreglur um samskiptin sín á milli við alvarleg atvik. Þá þurfi embættið að setja verklagsreglur um aðkomu lögreglu sé þess þörf.

Theódór segir lagasetninguna mikinn létti. „Vísir er kominn að skýrari umgjörð þar sem starfsfólk getur unnið undir miklu álagi en þarf ekki að óttast að það verði sjálft sakfellt fyrir atvik eða aðstæður sem það hefur ekkert haft með að gera en er sett í vegna áhrifaþátta sem það hefur enga stjórn á,“ segir hann og nefnir að margir sem hefðu átt að koma að því að ýta þessu máli áfram hafi ekki gert það.

„Maður spyr sig hvers vegna varð svona mikill dráttur á málinu,“ segir Theódór. „Það verður að segjast eins og er að í þessu máli gerðist ekkert fyrr en Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tók það upp á sína arma og ákvað að þrýsta málinu áfram.“ Ráðherra eigi heiður skilinn fyrir að hafa hlustað á heilbrigðisstarfsfólk.

„Nú er komin umgjörð sem setur skotskífuna á hið opinbera,“ segir hann.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica