02. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Lögfræði 50. pistill. Um hvíldartíma. Dögg Pálsdóttir
Læknir á gæsluvakt frá kl. 16 á föstudegi til kl. 8 á mánudagsmorgni, í samtals 64 klst., sem ekki fer í útkall en afgreiðir gegnum síma fjölda aðkallandi mála, einnig á nóttinni, telst ekki hafa unnið virkan vinnutíma þá helgi. Símtöl á gæsluvakt um nætur teljast ekki rof á daglegum hvíldartíma læknisins. Fái læknir útkall, telst lengd útkallsins virkur vinnutími. Tíminn sem læknir er bundinn á gæsluvakt telst það hins vegar ekki, ekki einu sinni þó hann sé að sinna vinnu í síma.
Hvernig má þetta vera?
Um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma lækna er fjallað í grein 4.6 í kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og LÍ. Ákvæðin byggja á almennum ákvæðum um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma í IX. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 með síðari breytingum.1
Reglur laganna um þetta efni byggja á reglum Evrópusambandsins í tilskipun 2003/88/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma.2
Í grein 4.6.8 í kjarasamningi LÍ er meðal annars vísað til samnings aðila vinnumarkaðarins og opinberra aðila frá 23. janúar 1997 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Telst sá samningur hluti kjarasamnings LÍ.3
Í leiðbeiningum frá 2002 með samningnum frá 1997 segir um vinnutíma:
- Dagleg samfelld lágmarkshvíld er 11 stundir á hverju 24 klst. tímabili.
- Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að fyrirsjáanlegt sé að vinnutími fari umfram 13 stundir á hverju 24 klst. tímabili nema um skipuleg vaktaskipti sé að ræða.
- Veittur skal einn hvíldardagur í viku í beinu framhaldi af daglegri lágmarkshvíld, það er 35 klst. samfelld hvíld.
- Hámarksvinnutími er 48 virkar vinnustundir á viku að meðaltali. Æskilegt er að vinnutími sé sem jafnastur frá einni viku til annarrar. Viðmiðunartímabil við útreikning á meðalvinnutíma á viku er sex mánuðir, janúar til júní og júlí til desember.4
- Veita skal samsvarandi hvíld síðar ef dagleg eða vikuleg lágmarkshvíld hefur verið skert.
- Frítökuréttur skapast þegar dagleg lágmarkshvíld er skert.
Hugtakið vinnutími er skilgreint í 1. tölul. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 46/1980 sem sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir launagreiðanda og innir af hendi störf sín eða skyldur. Hugtakið virkur vinnutími er einnig notað en er ekki það sama og greiddur vinnutími. Gæsluvaktir lækna teljast ekki til virks vinnutíma, nema sá tími sem læknir á gæsluvakt er kallaður í útkall.
Hvíldartími er tíminn sem ekki telst til vinnutíma. Vinnutíma skal haga þannig að á 24 klst. tímabili, reiknað frá venjulegu upphafi vinnudags fái starfsmaður að minnsta kosti 11 klst. samfellda hvíld, helst á tímabilinu frá kl. 23:00 til 06:00. Þó er heimilt, þar sem um fyrir fram ákveðna vinnutilhögun er að ræða, að skipuleggja hana með þeim hætti að samfelld hvíld fari niður í 8 klst., sjá grein 4.6.1 í kjarasamningi LÍ.
Læknir á ekki að mæta til vinnu fyrr en að aflokinni 11 klst. hvíld nema hann hafi sérstaklega verið beðinn um það. Læknir öðlast þá frítökurétt, sem er 1,5 klst. fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Mæti læknir til vinnu óumbeðinn, áður en 11 klst. hvíld er náð, ávinnur hann sér ekki þennan frítökurétt, sbr. greinar 4.6.2 og 4.6.3 í kjarasamningi LÍ. Í grein 4.6.4 er fjallað um aukinn frítökurétt ef vinnulota læknis er lengri en 24 klst.
Heimilt er að greiða út á dagvinnukaupi 0,5 klst. af hverri 1,5 klst. sem læknir hefur áunnið sér í frítökurétt, óski hann eftir því, sjá 2. mgr. greinar 4.6.2 í kjarasamningi LÍ. Annars er ótekinn frítökuréttur gerður upp við starfslok með sama hætti og orlof. Frítökuréttur fyrnist ekki, sjá grein 4.6.7 kjarasamnings LÍ.
Á hverju sjö daga tímabili skal læknir fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skal við það miðað að vikan hefjist á mánudegi. Heimilt er þó að skipuleggja vinnu með þeim hætti að fresta töku vikulegs frídags þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á hverjum tveimur vikum, sjá grein 4.6.5 í kjarasamningnum.
Hámarksvinnutími lækna og annarra starfsmanna ríkisins á viku, að yfirvinnu meðtalinni, skal eins og áður segir ekki vera umfram 48 klukkustundir að meðaltali á hverju sex mánaða tímabili.
Læknar eru ásamt lyfjafræðingum einu heilbrigðisstéttirnar sem ekki hefur verið samið við um styttingu vinnuvikunnar. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er mánaðarlegur vinnutími lækna að minnsta kosti 220 vinnustundir og hefur aukist á síðustu árum. Á sama tíma hefur vinnutími annarra heilbrigðisstétta dregist saman vegna styttingarinnar.
Það gefur auga leið að meðal krafna lækna í komandi kjarasamningsviðræðum eru þær að læknar fái sömu styttingu vinnuvikunnar og aðrar heilbrigðisstéttir hafa fengið, að símtöl á gæsluvöktum teljist virkur vinnutími lækna og séu greidd sem slík og að símtöl um nætur séu rof á hvíld.
Þá er það umhugsunarefni að aðrar hvíldartímareglur, og að ýmsu leyti rýmri, gilda um nokkrar aðrar stéttir. Meira um það í næsta pistli.
Heimildir
1. Þessi ákvæði eru sambærileg í öllum kjarasamningum opinberra starfsmanna. | ||||
| ||||
2. Tilskipunin er aðgengileg hér: efta.int/media/documents/legal-texts/eea/other-legal-documents/translated-acts/icelandic/i32003L0088.pdf. | ||||
| ||||
3. Samningurinn ásamt leiðbeiningum er m.a. aðgengilegur hér: lifeindafraedingur.is/wp-content/uploads/2016/07/Skipulag_vinnutima_2002-2.pdf | ||||
| ||||
4. Fram til þessa hafa launagreiðendur ekki fylgst með þessu en nú er Eftirlitsstofnun EFTA að skoða þá framkvæmd hér á landi. |