02. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Lykillinn að góðri heilsu leynist í náttúrunni, segir Michael Clausen
„Lífsstíllinn er lykilatriðið þegar kemur að heilsu,“ segir Michael Clausen, barna- og ofnæmislæknir, sem hvetur fólk til að lifa nær náttúrunni og forðast efni sem trufla líkamsstarfsemina. Ofnæmi fari vaxandi í vestrænum heimi
Michael Clausen hefur verið barna- og ofnæmislæknir á Landspítala í 25 ár. Hann fer yfir breytingarnar og stöðuna í ofnæmislækningum í Læknavarpinu, hlaðvarpi Læknablaðsins. Mynd/gag
„Aftur til náttúrunnar,“ segir Michael Clausen, barna- og ofnæmislæknir á Landspítala, að sé meginþema í lækningum nútímans. Hann er gestur Læknavarpsins, hlaðvarps Læknablaðsins á Spotify og Soundcloud. Allskonar efni í umhverfinu og mataræði trufli líkamsstarfsemina og myndi ofnæmi. Finna þurfi flöt til að fara nær náttúrunni án þess að glata öllum þægindunum sem manneskjur hafi öðlast.
Læknablaðið · Michael Clausen: Lykillinn leynist í náttúrunni, - viðtal í feb 2024„Skapa þarf aðstæður svo við getum lifað vel,“ segir Michael, sem hélt erindið Vestrænir sjúkdómar — erum við úti á þekju? á málþinginu Vestrænn lífsstíll – Vestræn bólga á Læknadögum um miðjan janúar. Þar ræddi hann nýlegar kenningar um hvernig talið er að rof á þekjunni á húð, öndunar- og meltingarfærum varpi ljósi á hvers vegna við fáum ofnæmissjúkdóma og sjálfsofnæmissjúkdóma sem eru vaxandi í velferðarríkjum.
„Þeim sem hafa astma, exem, frjókorna-, fæðu- og dýraofnæmi hefur fjölgað frá árinu 1950 og þá sérstaklega í vestrænum heimi.“ Sjálfsofnæmissjúkdómar hafi að sama skapi aukist. Kenningar Davids Strachan um hreinlæti frá 1989 hafi verið áhrifaríkar en ekki dugað til að skýra aukninguna.
„Nú er rætt um að bakteríurnar sem við séum með séu ekki þessar gömlu góðu sem við höfðum áður. Okkur vantar gamla vini,“ segir hann og nú á síðustu árum hafi pælingar vaknað um þekjuna. Börn með exem hafi verið gjarnari á að fá ofnæmi en önnur. „Þar er húðin rofin og opin.“ Ofnæmisvaldar geti þannig skaðað. „Þeir hafa þá komist inn í húðina og dýpra en hjá þeim sem hafa ekki rof í húð.“ Við það geti ofnæmi myndast.
Hann nefnir til að mynda ýruefni sem valdi rofi á þekjunni; húð, lungum og meltingarvegi. Þessi e-efni séu sett í matvæli og krem til að blanda vatni og fitu saman. „Frá 1950-60 hafa komið einhver 350-360 þúsund mismunandi efni inn í tilveru okkar í velferðarríkjum. Mörg þeirra eru ekkert sérlega holl fyrir okkur, sérstaklega ekki fyrir húðina.“ Þessi efni geti rofið húðina og valdi staðbundnum bólgum.
„Þessi bólga getur svo farið í liði, skjaldkirtil eða meltingarfæri og valdið sjúkdómum þar sem gjarnan eru kallaðir sjálfsofnæmissjúkdómar. Vísbendingar eru um að mótefni gegn frumkjarnaþáttum séu að aukast í líkamanum samfara því að fleiri fái þessa sjálfsofnæmissjúkdóma.“
Michael hvetur því sem fyrr segir til heilnæmari lífsstíls og vitnar í orð Sókratesar sem sagði: „Ef þú ert ekki þinn eigin læknir, þá ertu kjáni.“ Þá hafi Hippókrates, sem er talinn vera faðir læknisfræðinnar og var uppi fyrir nærri 2500 árum, einnig sagt okkur mannfólkinu hvað tryggði góða heilsu.
„Hreyfa okkur, borða hollt: fisk frekar en kjöt, borða grænmeti og gróft kornmeti. Svo sagði hann annað sem hefur ekki verið haldið á lofti: Að njóta lista. Vísindin staðfesta það sem Hippókrates sagði.“
Margt er rætt við Michael í Læknavarpinu. Hann segir frá rótum sínum sem teygja sig víða í Evrópu og allt til Úkraínu. Tvítyngdri æsku, frá sérnáminu í Svíþjóð og hvernig honum hafi verið tjáð að ekki væri skortur á læknum hér og hann kæmist líklega aldrei heim.