01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Enginn verður óbarinn biskup. Þorkell Snæbjörnsson

Fyrir réttum 11 árum síðan tókum við stóra skrefið sem hafði verið yfirvofandi í nokkurn tíma og héldum út í sérnám. Excel-skjalið yfir flutninga fjölskyldu og búslóðar yfir til Gautaborgar reyndist þyngdar sinnar virði í gulli og á Sahlgrenska biðu okkar ný ævintýri. Það reyndist þó nokkuð bras með samskiptin fyrst í stað, „Íslendingar segja ekkert í þrjá mánuði“ heyrði ég oft í byrjun. Það er nokkuð snúið að koma úr aðstæðum þar sem samskiptin leika í höndunum á þér og orðin brjótast fram áreynslulaust yfir í það að vera sá sem hikstar og stamar þegar þú vilt segja eitthvað hnyttið eða bara vera með í samtalinu. Sem dæmi má nefna að eftir nokkra mánuði í starfi vatt sér að mér áhugasamur kollegi og spurði hvað hefði nú raunverulega gerst á Íslandi í kringum bankahrunið. Ég áttaði mig fljótt á því að ég gat ekki útskýrt það á íslensku og enn síður á nýja tungumálinu. Hef átt betri daga í vinnunni.

Áfram Ísland! Fjölskyldan að styðja íslenska handboltalandsliðið í Scandinavium í Gautaborg á heimsmeistaramótinu í handbolta í janúar 2023. Myndin er úr safni fjölskyldunnar, frá vinstri:
Kristín Inga, Þorkell og Halldóra Kristín.

En enginn verður óbarinn biskup og með tímanum varð tungumálabras frekar efni til skemmtunar en óþæginda. Síðustu árin hefur mín þátttaka í kennslu á vinnustaðnum aukist verulega. Þegar innleiða á nýja siði og umbylta kennsluaðferðum hugsa ég á stundum til baka og velti fyrir mér hvernig ég lærði þau „trix“ sem ég nota dagsdaglega í samskiptum. Ég er ekki frá því að það hafi gert mér gott að byrja aftur á byrjunarreit hér í Gautaborg. En úr hvaða úrræðum hafði ég að velja þegar ég kom hingað, hvað var það sem ég tók með mér yfir ála Atlantshafsins?

Sennilega var þekkingarþorstinn og getan til að tileinka sér nýja samskiptahætti í hámarki á fyrstu árunum í klíník. Á þeim tíma vann ég meðal annars á sjúkrahúsinu Vogi, bæði við hjúkrunarstörf og læknisstörf. Ég lærði margt í samskiptum á því tímabili. Sjúklingahópurinn var þverskurður af samfélaginu og ég naut stuðnings frábærra fyrirmynda sem leiddu starfsemi teymisins og höfðu urmul af skynsamlegum ráðum. Reynsla sem hefur reynst mér ómetanleg. En hvers vegna átti þetta umhverfi vel við mig? Getur verið að landbúnaðarstörf hafi bara verið nokkuð góður undirbúningur fyrir framtíðina? Eða uppeldi foreldrana, nú eða læknadeildar?

Þegar öllu er á botninn hvolft er mín stóra gæfa að hafa kynnst eiginkonunni snemma og við borið gæfu til að þroskast saman, styðja og aðstoða hvort annað í leik og starfi. Halldóra hjálpar mér oft að sjá mismunandi hliðar á málunum og hefur reyndar ansi oft rétt fyrir sér. Það má einnig nefna börnin mín sem hafa lagt hart að sér við að leggja föður sínum lífsreglurnar síðustu misserin. Það að eiga samskipti við aðra er nefnilega ekki bara eitthvað sem maður gerir í vinnunni eða á augnablikum þegar það hentar eða ekki hentar. Börnin hafa líka kennt mér ýmislegt um samskipti. Áskorunum hversdagsleikans skal ekki gera lítið úr. Í vinnunni er það sjaldnast ég einn sem tek afgerandi ákvarðanir. Vissulega leiði ég oft samtalið og kynni til leiks mismunandi leiðir fram á veginn en farsælast er að allir eigi hlut að máli og komist að niðurstöðu án mikils ágreinings.

Eins og sönnum miðaldra karlmanni sæmir hjóla ég oftast í vinnuna. Fyrstu árin eftir flutninga hjólaði ég alla daga ársins á gamla hjólinu mínu, sama hvað gekk á. Þegar hjólið gafst upp reyndist „nauðsynlegt“ að kaupa tvö mismunandi hjól til að koma í stað gamla fáksins. Það verður samt að viðurkennast að í dag nota ég rafmagnshjól eiginkonunnar langmest. Það er nefnilega þannig að ég er bara ekkert minni maður þó ég þurfi stundum stuðning eða aðstoð til að komast áfram, það er svo miklu betra en að standa í stað.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica