01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Augnlækningar. Valið hefur hentað mér. Haraldur Sigurðsson

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Ákvörðunin að verða læknir var einföld. Bara langaði frá því ég strákur. Veit hreinlega ekki af hverju. Ég sé ekkert eftir ákvörðuninni. Læknisstarfið er skemmtilegt og gefandi, hversdagurinn er ekki leiðinlegur!

Ég átti erfiðara með að velja mér sérgrein. Fannst heimilislækningar skemmtilegar. Sem læknanemi var ég í Borgarnesi, á heilsugæslustöð í Svíþjóð í tvö sumur og fór síðan vetrarlangt til Fáskrúðsfjarðar á fyrsta ári mínu eftir útskrift. Það fór að trufla mig að hafa einungis takmarkaðan fjölda sjúklinga að líta eftir, vildi hafa hópinn stærri. Augnlækningar urðu því fyrir valinu, stofuvinna sem mér fannst skemmtileg og sem viðbót, skurðaðgerðir, sem voru heillandi.

Þetta val mitt hefur hentað mér. Eftir að hafa verið á augndeild Landakots sem aðstoðarlæknir, komst ég til Bretlands í sérnám. Þar var námið mjög nálægt skurðarborðinu en samfara því krafa um rannsóknarvinnu. Við fjölskyldan vorum fyrst í Skotlandi og síðan í London, við Moorfields-augnspítalann. Sá spítali er yfir 200 ára gamall, er tertiary referral center fyrir Bretland og í raun mun víðar. Það er mjög hollt fyrir lækni að vera á lokastöð lækninga, þar sendir þú ekki sjúklinginn neitt annað, vandamálin verða að leysast þar. Ég sérhæfði mig í skurðaðgerðum í bakhluta auga ásamt augnumgjörð og augntótt.

Ég var tilbúinn að koma heim, á Íslandi vildum við fjölskyldan búa. London bauð upp á mjög takmarkað fjölskyldulíf þótt borgin væri spennandi. Upphafsárin hér heima voru á augndeild Landakots, yndislegur tími. Metnaður á Landakoti var mikill, gömul stofnun með kerfi sem hafði þróast í gegnum áratugina, gott fyrir sjúklinga, starfsmenn og augnlækningar! En ytri aðstæður augndeildarinnar áttu eftir að breytast og það oftar en einu sinni.

Í baksýnisspeglinum eru myndir af ákvörðunum sem hentuðu augnlækningum illa. Sameining Landakots og Borgarspítala á sér stað en augndeildin fer á Landspítala. Allt annað kerfi beið okkar og lítill vilji til að okkar skoðanir fengju aðlögun. Húsnæðið var í upphafi ófullkomið og loks þegar okkur fannst við eiga þar heimili þurftum við að flytja ofar á Eiríksgötuna.

Við komum á Landspítala Háskólasjúkrahús, sem nokkrum árum seinna verður Landspítali Hátæknisjúkrahús en er núna bara Landspítali samkvæmt heimasíðu spítalans. Sorglegt ferli sem þó vonandi sér fyrir endann á, með nýjum Landspítala. Vonandi fær þar að þróast kerfi og stofnun þar sem skynsemi og metnaður fær að ráða ferð, þannig að öllum líði vel, sjúklingum og starfsfólki. Í dag njótum við þess að hafa heilbrigðisráðherra sem hugar að velferð sjúklinga, óháð kerfi, og góðan formann Læknafélagsins sem kemur skelegg fram, hefur tilfinningu fyrir hvenær rétt sé að brýna raust sína!

Annarri leiðindamynd bregður fyrir í speglinum, augnlæknaferðir út á land! Augnlæknafélag Íslands lagði í áratugi metnað sinn í að augnlæknar skiptu á milli sín landinu, þannig að þjónustan kæmist nær sjúklingum. Þetta var flott framtak, unnið úr grasrótinni hjá augnlæknum. Smám saman hættu þessar ferðir, meðal annars vegna karps um kostnað vegna ferða og aðstöðugjalda. Sorglegt.

En þrátt fyrir að ytri aðstæður hafi verið augnlækningum hálf þreytandi undanfarin ár er fagið afskaplega skemmtilegt, sem og mannskapurinn sem annast greinina. Sérfræðingar augndeildar eru vel kynntir á flestum stöðum erlendis og reyna hvað þeir geta að koma löndum sínum á bestu staði. Augnlæknirinn sjálfur gæti orðið næsti sjúklingur á skurðarborðinu og þá er jafngott að vel menntaðir og metnaðarfullir einstaklingar séu til taks!

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica