01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Dagur í lífi innkirtla- og kviðarholssarkmeina­skurðlæknis á Sahlgrenska í Gautaborg. Marta Berndsen

05.45 Vakna við Mikka, 2 ára son okkar sem vill fara niður að horfa á barnatímann. Við horfum aðeins saman með Edith, franska bolabítinn okkar, til fóta. Borðum svo saman morgunmat.

06.30 Vek Magnús sambýlismann minn svo ég geti hjólað í vinnuna. Reyni að vekja ekki systur Magnúsar og dóttur hennar sem eru í heimsókn. Það er snjór og -7 gráður. Ég er sem betur fer með vetrardekk á rafmagnshjólinu. Kem í vinnuna með helfrosnar tær.

Mynd tekin fyrir framan skurðstofu 3 af kollega.

07.15 Merki fyrsta sjúklinginn og fer í gegnum fyrirhugaða aðgerð. Ég mun framkvæma hlutabrottnám á vinstri nýrnahettu vegna endurtekins Cushing-heilkennis. Hægri nýrnahetta var fjarlægð á tíunda áratugnum vegna sama sjúkdóms. Í hliðlægum hluta vinstri nýrnahettu hafa nú myndast tveir hnútar og ég ætla því að reyna að varðveita miðlæga hlutann sem og nýrnahettubláæðina.

07.45 Morgunfundur. Farið yfir innlagnartilfelli næturinnar. Spjallað við kollega yfir kaffibolla eftir að fundi lýkur.

08.30 Kölluð á sal til að hjálpa til við að setja sjúkling í bænalegu.

09.00 Aðgerð hefst. Ég er ein af tveimur skurðlæknum á Sahlgrenska sem framkvæma nýrnahettubrottnám. Við gerum flestar aðgerðirnar með aðstoð kviðsjár aftan skinu (retroperitoneal approach). Helstu skref aðgerðar eru að finna efri pól nýrans, fríleggja fram að skinu og í kringum hliðlægan hluta nýrnahettunar. Svo er frílagt miðlægt til að brenna fyrir nýrnahettubláæðina sem kemur beint frá neðri holæð (hægra megin) eða á stofn frá vinstri nýrnaæð með neðri þindarbláæð (vinstra megin). Aðgerðirnar geta verið frekar mikið fitu-safarí, sérstaklega hjá karlmönnum. Þessi aðgerð gengur vel og ég næ að varðveita miðlæga hlutann, vonandi fær sjúklingurinn ekki nýrnahettubilun.

10.45 Merki næsta sjúkling og diktera aðgerðarlýsingu á þeim fyrri.

11.00 Undirbý fyrirlestur fyrir morgundaginn. Er að fara á fund skandinavíska sarkómahópsins í Malmö og er að halda tvö erindi. Hef ekki náð að undirbúa mig sérstaklega mikið en hef sem betur fer tíma í lestinni á morgun.

12.00 Fer í matsalinn með kollegunum. Fáum okkur fisk og spjöllum. Kolleginn sem aðstoðar mig í aðgerðum dagsins er að hugsa um að segja upp vegna lélegra launa. Þar sem ég legg skemað á teyminu þá vona ég svo sannarlega að hann geri það ekki en skil hann samt. Læknar á Sahlgrenska eru með lægstu læknalaunin í Svíþjóð. Há verðbólga og hækkandi húsnæðisvextir hafa haft veruleg áhrif á lífsgæðin. Gott að hafa í huga fyrir þá sem eru að ákveða hvert þeir ætla í sérnám.

13.00 Tveggja tíma skiptitími milli aðgerða er lágmark á Sahlgrenska en loks er komið að því að koma seinni sjúklingi dagsins í bænalegu.

13.30 Næsta aðgerð hefst. Brottnám á hægri nýrnahettu vegna aldósterónheilkennis. Búið er að gera nýrnahettubláæðaþræðingu til að staðfesta að sjúklingurinn sé með einhliða sjúkdóm. Hægra megin liggur nýrnahettan gjarnan þétt ofan á neðri holæð og nýrnahettubláæðin er gjarnan stutt. Það getur verið ansi taugatrekkjandi að flysja nýrnahettuna af neðri holæð en það er líka mjög gaman! Aðgerð gengur vel.

14.45 Hitti fyrsta sjúklinginn á vöknun og hún verður ánægð að heyra að hægt var að varðveita hluta af nýrnahettunni. Held áfram með fyrirlesturinn fyrir morgundaginn.

15.30 Hjóla að ná í Mikka, leikskólinn lokar snemma í dag. Móa stóra systir og Magnús eru í bænum með gestunum.

18.30 Borðum sushi og eftir matinn svæfir Maggi Mikka á meðan ég fer út með Edith í stuttan göngutúr. Snjór fer ekki vel með franskar loppur!

19.30 Förum í heitapottinn. Besti staðurinn fyrir notalega fjölskyldustund eða bara til þess að slappa af eftir erfiðan dag. Frábær fjárfesting þrátt fyrir hátt rafmagnsverð!

21.30 Horft á Home Alone 2 og förum svo snemma í háttinn. Góður dagur í Gautaborg.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica