01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Gautaborgarháskóla: Margrét Einarsdóttir

Margrét Einarsdóttir varði doktorsritgerð sína við læknadeild háskólans í Gautaborg þann 23. nóvember síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið: Nýrnahettubilun af völdum sykursteranotkunar.

Andmælandi var Marianne Klose innkirtlalæknir við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn. Aðrir í matsnefnd voru Inger Gjertsson, Gregor Guron og Cecilia Sjöblom Fall. Leiðbeinandi var Óskar Ragnarsson. Meðleiðbeinendur voru Guðmundur Jóhannsson, Penelope Trimpou og Daníel S. Olsson.

Úr ágripinu

Lyf sem innihalda sykurstera eru mikið notuð. Hins vegar getur sykursterameðferð leitt til nýrnahettubilunar. Í doktorsverkefninu var kannað algengi sykursterameðferðar í töfluformi og dánartíðni þeirra sem nota sykurstera til inntöku rannsökuð. Einnig var kannað algengi nýrnahettubilunar við staðbundna sykursterameðferð í munnholi og algengi nýrnahettubilunar við endurtekna stutta háskammta sykursterameðferð.

Niðurstöður verkefnisins sýna að sykursterameðferð er algeng og einstaklingar sem nota sykursteratöflur hafa aukna dánartíðni samanborið við almennt þýði. Nýrnahettubilun af völdum sykurstera er oft vangreind. Staðbundin sykursterameðferð í munnholi getur valdið nýrnahettubilun en stutt háskammta sykursterameðferð virðist ekki bæla nýrnahettur.

Hér er hlekkur á ritgerðina: https://hdl.handle.net/2077/78556

Doktorinn

Margrét Einarsdóttir lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Hún lauk meistaranámi í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands árið 2015, sérnámi í lyflækningum 2017 og sérnámi í innkirtlalækningum 2021.

Hvað segir nýdoktorinn?

Af hverju vildir þú verða læknir?
Mig langaði að hjálpa fólki. Faðir minn, Einar Hjaltason, var læknir og síðan ég var barn hefur mér fundist læknisstarfið áhugavert.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?
Ég myndi segja 8. Þetta er langt ferli og oft á tíðum koma upp vandamál sem virðast óyfirstíganleg í fyrstu. Þá er mikilvægt að gefast ekki upp og reyna að finna lausnir. Góður leiðbeinandi skiptir öllu og þar var ég heppin.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?
Ef ég yrði heilbrigðisráðherra myndi ég fyrst ráða færan aðstoðarmann sem ég treysti. Síðan myndi ég ræða við stjórnendur spítala og heilsugæslunnar til að átta mig á hvaða mál væru mest aðkallandi.

Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?
Ég hef ekki lesið margar skáldsögur að undanförnu. Ég les aðallega barnabækur með syni mínum og hann fær líka að ráða tónlistinni á heimilinu. Ég hef mjög gaman af góðum þáttaröðum, að undanförnu hef ég horft á White Lotus og nýjustu þáttaröðina af Solsidan. Mér finnst skemmtilegast að fara í ræktina og sameina þar áhuga minn á góðum þáttaröðum og líkamsrækt, það er fátt betra en horfa á skemmtilegan þátt í ræktinni.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?
Það er skemmtilegast að vera með fjölskyldu og vinum. Ferðalög eru yndisleg en oft er notalegt að vera bara heima með fjölskyldunni. Ég er lánsöm því ég á mjög skemmtilegan mann og syni.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica