01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Heilsugæslan þróast í takt við breytta tíma. Sigríður Dóra Magnúsdóttir

Á undanförnum árum hefur orðið gjörbylting í starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Við höfum farið frá því að vera stofnun sem sinnti því sem kalla mætti hefðbundna heilsugæsluþjónustu í það að vera nútímaleg regnhlíf fyrir fjölbreytta þjónustu sem hefur markað sér sess í huga almennings sem styrk stoð í heilbrigðiskerfinu.

Heilsugæslustöðvarnar 15 eru kjarnastarfsemi heilsugæslu og síðan víkkum við út þjónustuna með því að bjóða upp á fjölbreytta geðheilbrigðisþjónustu, heimahjúkrun og stoðþjónustu af ýmsu tagi.

Aðgengi að þjónustu í framtíðinni

Mikil og sívaxandi eftirspurn eftir þjónustu veldur því að við þurfum sífellt að aðlaga þjónustuna að þörfum samfélags og starfsfólks. Þetta kallar á nýja hugsun, nýjar lausnir og traust milli fagaðila og skjólstæðinga. Rétt þjónusta á réttum stað á réttum tíma er leiðarljósið sem við verðum öll að stefna að.

Óhætt er að segja að Heilsuveran og skilaboðaskjóðan á mínum síðum hafi verið áskorun og ekki gallalaus. Nú er markvisst unnið að því að þróa og lagfæra þessa virkni þannig að hún nýtist bæði skjólstæðingum og fagfólki.

Ekki er óheft aðgengi að heimilislæknum heldur lögð áhersla á að meta bráð erindi. Nú erum við í auknum mæli byrjuð að forflokka bráð erindi í gegnum upplýsingamiðstöð HH. Þar fer fram ráðgjöf og möguleiki á að bóka komur á allar dagvaktir heilsugæslustöðva HH og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Þetta verkefni hefur gengið vel og í undirbúningi að geta bókað komur á fleiri stöðvar á landsbyggðinni. Framtíðarsýnin er sú að öll bráð erindi verði forflokkuð, sem gerir þjónustuna markvissari og minnkar óþarfa álag. Nýjum erindum viljum við beina í gegnum netspjallið á Heilsuveru. Skýrt markmið okkar er að eingöngu erindi sem sannarlega þurfa að fara til heimilislæknis endi á borði þeirra og að þangað fari engin bráð erindi óflokkuð.

Aðlaðandi starfsumhverfi framtíðarinnar

Heilsugæslustöðvarnar eru margar komnar til ára sinna, og hönnunin hentar misvel starfsemi heilsugæslu í dag. Við viljum stefna á hæfilega stórar starfseiningar með öflugum mannauði þar sem húsnæðið styður við fjölbreytta starfsemi.

Í dag rekur HH sex heilsugæslustöðvar sem allar eru í minni kantinum. Í samráði við starfsfólk og stjórnendur þessara stöðva viljum við horfa til framtíðar að skipulagi og uppbyggingu með mögulega samvinnu stöðvanna í huga. Þessi vinna er nýhafin og á algjöru frumstigi. Stjórnendur HH hafa fundað með starfsfólki heilsugæslustöðvanna í Efra-Breiðholti og Mjódd annars vegar og Efstaleiti og Glæsibæ hins vegar en engar ákvarðanir verið teknar varðandi framhaldið. Við leggjum áherslu á að vinna að þessu samstarfi í fullu samráði við starfsfólkið og byggja á því góða starfi sem er í gangi á stöðvunum. Heilsugæslustöð í Grafarvogi, sem er tímabundið í öðru húsnæði vegna myglu, opnar á næsta ári, endurhönnuð fyrir starfsfólk og skjólstæðinga í nútímaheilsugæslu.

Verkefni okkar allra næstu árin verður að tryggja gott starfsumhverfi fyrir allt okkar starfsfólk til að gott fólk fáist til starfa. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að við höldum á lofti kjarna starfseminnar, að hjálpa fólki til heilsu með öflugri heilbrigðisþjónustu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins þarf að geta þróast í takt við þarfir samfélagsins hverju sinni. Við viljum reka öfluga og nútímalega heilsugæslu og veita skjólstæðingum okkar góða heilbrigðisþjónustu. Við munum halda áfram á þeirri vegferð og nýta hugmyndir og krafta okkar starfsfólks í þeirri vinnu hér eftir sem hingað til. Það var kærkomið tækifæri að upplýsa hér um þá spennandi vinnu sem er í gangi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica